Mannréttindi Fremst er móðir Bilals Kayeds, þá grískur þingmaður, Ögmundur Jónasson og síðan tveir írskir þingmenn. Fyrir aftan þá eru palestínskir stuðningsmenn Kayeds. Myndin er tekin á mótmælendafundi.
Mannréttindi Fremst er móðir Bilals Kayeds, þá grískur þingmaður, Ögmundur Jónasson og síðan tveir írskir þingmenn. Fyrir aftan þá eru palestínskir stuðningsmenn Kayeds. Myndin er tekin á mótmælendafundi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Börkur Gunnarsson borkur@mbl.

Viðtal

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

„Við vorum fjórir evrópskir þingmenn sem fórum til Palestínu til að mótmæla fangelsun án dóms og laga en sjónum beindum við einkum að einstaklingi, Bilal Kayed, sem hefur nú verið í mótmælasvelti í yfir sextíu daga og er þetta óvenjulangt svelti sem sýnir mikla staðfestu og endurspeglar þá kannski líka mikið ranglæti,“ segir Ögmundur Jónasson þingmaður.

Hann, ásamt tveimur þingmönnum frá Írlandi og einum frá Grikklandi, svaraði neyðarbeiðni frá mannréttindasamtökum sem nefnast Samidoun Network og samþykkti að taka þátt í sendinefnd til Palestínu til stuðnings kröfunni um að Bilal Kayed verði þegar í stað látinn laus.

Bilal Kayed er 35 ára gamall og hefur setið af sér rúmlega 14 ára dóm. Hann átti að losna úr fangelsi 13. júní 2016. Fangelsun hans var hins vegar framlengd með varðhaldi án ákæru og án réttarhalda. Bilal Kayed hóf mótmælasvelti til að krefjast frelsis og er nú á 64. degi í því. Hann hefur verið lagður á sjúkrahús og er haldið þar hlekkjuðum á höndum og fótum og er nú í lífshættulegu ástandi.

Hlekkjaður við rúmgaflinn

„Sem dæmi um óbilgirnina og ofbeldið sem beitt er þá er ekki nóg með að fanginn er þjáður af matarskorti heldur er hann hlekkjaður við rúmgaflana á annarri hendi og öðrum fæti. Hann hefur beðið um að skipta um handlegg en því er hafnað.

Þetta er dæmi um pyntingar. Maðurinn er að svelta sig til dauða vegna himinhrópandi ranglætis, en þá grípa kvalarar hans tækifærið til að níðast á honum.“

Hvers konar samtök eru þessi Samidoun Network?

„Þetta eru alþjóðleg samtök til varnar pólitískum föngum. Þau beita sér gegn pólitískum fangelsunum og höfðu samband við mig og báðu mig um að leggja lið þessum unga manni sem liggur við dauðans dyr eftir tveggja mánaða mótmælasvelti. Áhersla hans er ekki einvörðungu á eigið hlutskipti heldur á að fólk skuli svipt frelsi sínu án dóms og laga. Í þessari sendiför áttum við fundi með mannréttindasamtökum og hittum fjölskyldur bæði Bilal Kayeds og annarra fanga.

Við sóttum einnig fjöldafundi þar sem þessi málefni voru til umræðu og ranglætinu mótmælt. Þá óskuðum við eftir að fá að heimsækja herdómstól og fengum það.“

En hann er dæmdur í fjórtán ára fangelsi, hvað gerði hann af sér?

„Hann var dæmdur fyrir að taka þátt í andófi gegn hernámi Palestínu, óeirðum í uppreisn sem hófst upp úr aldamótunum. Hann var ekki sagður hafa valdið dauða neins manns en hlaut dóm fyrir sína þátttöku og efast ég um að hann hafi dregið af sér í andófinu. En hann fékk dóm og er búinn að afplána hann. Við erum fyrst og fremst að gagnrýna það sem gerist eftir að hann er búinn að sitja dóminn af sér.“

Þið hafið ekki fengið að hitta hann?

„Nei, við fengum það ekki. En við hittum mann sem sagði okkur að þessi ungi maður, þorrinn öllum mætti, væri að reyna að hvísla inn í sálina á okkur ákalli um hjálp. Ég vil gera mitt til að hvíslið heyrist. Til þess hefðum við verið kölluð á vettvang, að láta rödd deyjandi baráttumanns gegn ranglæti heyrast, helst um allan heiminn.“

En hvers vegna koma yfirvöld svona fram við hann, af bloggi þínu má skynja að þú teljir að ástæðan sé að maðurinn sé leiðtogaefni og yfirvöld óttist það?

„Já, tvímælalaust. Hann er óhræddur baráttumaður. Hernámsyfirvöldin níðast á slíkum mönnum og reyna þannig að slökkva á öllum frelsiskyndlum sem tendraðir eru. Bilal Kayed hefur sýnt að hann vill halda slíkum kyndli á lofti. Það verður að koma í veg fyrir að takist að slökkva á kyndlum frelsis og mannréttinda. Þar höfum við skyldur í hinu alþjóðlega samfélagi,“ segir Ögmundur.