Kaup Úrræðið er ekki hugsað fyrir þá sem hafa glatað fasteign vegna tjóns.
Kaup Úrræðið er ekki hugsað fyrir þá sem hafa glatað fasteign vegna tjóns. — Morgunblaðið/Ófeigur
Jóhannes Tómasson johannes@mbl.

Jóhannes Tómasson

johannes@mbl.is

Fyrsta fasteign, nýtt úrræði ríkisstjórnarinnar til þess að styðja við kaup á fyrstu íbúð, er ekki hugsað til þess að aðstoða fólk sem hefur átt fasteign á ævinni en verið á leigumarkaði um áraraðir, eða fólk sem hefur glatað fasteign sinni vegna fjárhagslegs tjóns.

Því fólki býðst þó að nýta sér séreignarsparnað sinn til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

„Úrræðið hefur verið í lögum fyrir þá sem til dæmis eru að koma af leigumarkaði eða hafa tapað fasteign í hruninu eða lent í öðrum áföllum en áttu áður fasteign. Þeir njóta góðs af lögunum eins og þau eru í dag og hafa verið í gildi frá 2014. Við erum að framlengja þann rétt, sem ella hefði runnið út á næsta ári, til ársins 2019 núna og þar með er verið að segja að rétturinn verði í 5 ár,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Hann vísar í úrræði sem var fest í lögum til bráðabirgða árið 2014 sem hluti af leiðréttingunni vegna hins almenna skuldavanda heimilanna.

Skiptist í tvennt með „fyrstu fasteign“

Fólk sem hefur átt fasteign á lífsleiðinni getur ráðstafað séreignarsparnaði sínum til greiðslu húsnæðislána með þeim hætti sem lýst var að ofan til ársins 2019, en fólki sem á enn eftir að eignast sína fyrstu fasteign er fleytt áfram í hið nýja kerfi „fyrsta fasteign“ en gildistími úrræðisins yrði ótímabundinn. Getur ungt fólk nýtt sér úrræðið meðal annars með því að taka uppsafnaðan séreignarsparnað út til þess að hafa efni á útborgun fyrir fasteign. „Þú segir bara hversu langt þú vilt fara aftur en það getur ekki verið út fyrir gildistöku laganna, ekki aftur fyrir þann tíma sem lögin tóku gildi sem er 2014,“ segir Bjarni. Miðað er við árið 2014 vegna þess að verið er að framlengja réttinn til ráðstöfunar séreignarsparnaðarins sem var festur árið 2014.

Spurður hvort hann teldi líklegt að skuldaleiðréttingin yrði framlengd eftir árið 2019 segir Bjarni að vandlega þurfi að taka það til skoðunar þegar líður að því að tímabilið klárist hvort sama ástæða sé til þess að halda úrræðinu lifandi eins og er fyrir fyrstu íbúðarkaupendur.

Ráðstöfun á
séreignarsparnaði
» Þeir sem hafa misst húsnæði vegna tjóns eða vilja kaupa fasteign eftir langan tíma á leigumarkaði geta nýtt séreignarsparnað sinn til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar til 2019.
» Með úrræðinu „fyrsta fasteign“ getur fólk nýtt séreignarsparnaðinn í ríkari mæli til íbúðarkaupa.