[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í rannsókn Háskólans á Akureyri kom fram að mun fleiri íslenskir unglingar en áður vilja búa erlendis í framtíðinni. Það væri forvitnilegt að vita hvaða áhrif það hefur á viðhorf þeirra til tungumálsins.

Í rannsókn Háskólans á Akureyri kom fram að mun fleiri íslenskir unglingar en áður vilja búa erlendis í framtíðinni. Það væri forvitnilegt að vita hvaða áhrif það hefur á viðhorf þeirra til tungumálsins. Á degi íslenskrar tungu í fyrra kom fram í umræðum á Alþingi að einungis 25% landsmanna notuðu íslenskt notendaviðmót í stafrænni upplýsingatækni.

Gunnar Smári Egilsson spáir því að íslenskan muni deyja út sem fullburða tungumál á næstu 50-70 árum, sbr. grein í Fréttatímanum undir fyrirsögninni „Íslenskan er að deyja og samfélagið með“. Um svipað leyti var einnig birtur pistill í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Ég kann þetta ekkert á íslensku“ eftir Lindu Björk Markúsardóttur, íslensku- og talmeinafræðing, þar sem hún sagði að alíslensk börn gætu ekki nefnt algenga hluti á íslensku.

Íslenskir fræðimenn hafa unnið hörðum höndum að því að þróa og vekja athygli á íslenskri máltækni svo að íslenska fari ekki halloka fyrir öðrum útbreiddari tungumálum. Þeir gerðu aðgerðaáætlun til tíu ára og áætluðu kostnaðinn við að fylgja tækninýjungum eftir með máltækni. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að það kostaði um milljarð.

Óvænt hjálp barst frá yfirmanni tölvuöryggisrannsókna hjá Google, Úlfari Erlingssyni, og íslenskum samstarfsmönnum hans. Fyrir tilstilli þeirra er íslenska eina tungumál smáþjóðar sem komið hefur verið fyrir í máltæknigrunni fyrirtækisins. Úlfar segir að án máltækni fyrir íslenska tungu deyi málið út. Hann er handviss um að máltækni í tölvum geti bjargað málinu því að innan fárra ára víki lyklaborð og takkar fyrir raddstýrðri tölvutækni.

Þegar menntamálaráðherra var spurður um málið á þingi vísaði hann í nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni, sem skipuð var til að gera áætlun um aðgerðir er miðuðu að því að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni, sbr. ofangreint. Nefndin skilaði skýrslu sama ár og lagði áherslu á að fjárfest yrði í íslenskri máltækni sem styrkti doktorsnema og einstök tækniþróunar- og innviðaverkefni. Ráðherra sagði jafnframt að vaxandi áhrif tölvutækni á daglegt líf krefðust aðgerða stjórnvalda ef tryggja ætti að íslenskan yrði gjaldgeng í samskiptum sem byggðu á tölvu- og fjarskiptatækni.

Máltæknisjóði var komið á laggirnar árið 2015. Sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni á sviði máltækni og stuðla að því að íslenskan sé gjaldgeng í stafrænni upplýsingatækni og notuð á þeim vettvangi. Sérfræðingar á sviði íslenskrar máltækni geta sótt um styrk úr sjóðnum.

Það eru spennandi tímar fram undan. Við erum í kappi við tímann. Hingað til hefur Íslendingum ekki verið sama um móðurmálið. Ég hef trú á að það breytist ekki þrátt fyrir að ungt fólk horfi út í heim. Það hefur t.d. komið sér vel að Íslendingar starfa hjá Google. Velvild brottfluttra Íslendinga í garð tungunnar skiptir miklu máli.

Eva S. Ólafsdóttir eva@skyrslur.is