[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brynhildur Halldórsdóttir er fædd 20. ágúst 1936 á Gunnarsstöðum í Þistilfirði og ólst þar upp. Í bernsku lærði hún fljótt að taka virkan þátt í störfum heimilisins, bæði innan og utan dyra.

Brynhildur Halldórsdóttir er fædd 20. ágúst 1936 á Gunnarsstöðum í Þistilfirði og ólst þar upp. Í bernsku lærði hún fljótt að taka virkan þátt í störfum heimilisins, bæði innan og utan dyra. Úr bernsku sinni er henni hvað minnisstæðast leikir barnanna á Gunnarsstaðatorfunni, berjaferðir og engjaheyskapurinn.

Veturinn 1956-1957 stundaði Brynhildur nám á Húsmæðraskólanum á Laugum í S-Þingeyjarsýslu. Að loknu námi á Laugum fluttist Brynhildur búferlum í Syðra-Lón við Þórshöfn og hefur nú verið húsfreyja þar í bráðum sextíu ár. Á Laugum lærði hún til hannyrða og heimilisreksturs og hefur hvers konar handavinna og hannyrðir verið aðaláhugamál hennar í gegnum tíðina. Sinnti hún m.a. hannyrðakennslu í Barnaskólanum á Þórshöfn um tíma.

Lengi virk í félagsstörfum

Brynhildur var lengi virk í félagsstörfum í heimabyggð sinni. Hún var formaður Kvenfélagsins Hvatar á Þórshöfn um árabil, var stjórnarmaður í stjórn Kaupfélags Langnesinga í nokkur ár og sat eitt kjörtímabil í hreppsnefnd Þórshafnarhrepps. Hún tók á þessum tíma sæti í nefndum á vegum sveitarfélagsins og bar það sérstaklega fyrir brjósti að börnin í byggðarlaginu gætu klárað skyldunám sitt í heimahögum.

Tónlist og listviðburðir eru eitt af aðaláhugamálum Brynhildar. Um áratuga skeið söng hún sópranrödd í kirkjukór Sauðanessóknar. Hún hefur verið iðin við að sækja tónleika og leiksýningar eftir því sem færi hafa gefist og sjálf staðið fyrir tónleikum á heimili sínu. Samhliða bústörfum, heimilishaldi og uppeldi barna sinna tók Brynhildur aðkomufólk í fæði og húsnæði á Syðra-Lóni og hafa ófáir notið gestrisni hennar. Margir rækta tengsl við Brynhildi eftir lengri eða skemmri dvöl á Syðra-Lóni.

Eftir að Vilhjálmur maður Brynhildar féll frá, tók hún við embætti hans sem hreppstjóri og lögskráningarstjóri í Þórshafnarhreppi og gegndi því þar til embættið var lagt niður í byrjun þessarar aldar. Þá var hún samhliða því formaður kjörstjórnar Þórshafnarhrepps og minnist margra ævintýra við flutning á kjörgögnum við misjafnar aðstæður.

Lengi vel var kúabúskapur aðalbúskapur á Syðra-Lóni ásamt æðarrækt. Eftir að kúabúskapur var lagður af á Syðra-Lóni árið 1988 starfaði Brynhildur sem matráðskona á Dvalarheimilinu Nausti á Þórshöfn þar til hún hætti störfum sakir aldurs.

Brynhildur verður að heiman á afmælisdaginn.

Fjölskylda

Brynhildur giftist 25.1. 1958 Einari Ingvarssyni, f. 17.8. 1936, d. 26.4. 1961, bónda að Syðra-Lóni. Seinni eiginmaður Brynhildar, en þau gengu í hjónaband 25.9. 1964, var Vilhjálmur Guðmundsson, f. 1.3. 1913, d. 18.8. 1980, bóndi og hreppstjóri á Syðra-Lóni.

Börn: 1) Þuríður Vilhjálmsdóttir, f. 18.11. 1963, innkaupafulltrúi í Reykjavík. Maki I: Sigurður Pétur Hilmarsson bifvélavirki. Maki II: Tryggvi Hallvarðsson tæknifræðingur. Barn Þuríðar: Vilhjálmur Hilmar, f. 1986, börn Tryggva: Rannveig Eva, f. 1983, Anna Guðný, f. 1985, Hulda Halldóra, f. 1988, og Finnbogi, f. 1999; 2) Guðmundur Vilhjálmsson, f. 13.3. 1967, framkvæmdastjóri á Húsavík. Maki: Jóhanna S. Logadóttir sjúkraliði. Börn þeirra: Friðrik Aðalgeir, f. 2005 og Logi Vilhjálmur, f. 2007; 3) Herborg Vilhjálmsdóttir, f. 26.10. 1969, bús. á Akureyri.

Systkini: Arnbjörg Halldórsdóttir, f. 4.2. 1922, d. 9.2. 2011, húsfreyja í Réttarholti, Grýtubakkahr., S-Þing.; Óli Halldórsson, f. 1.8. 1923, d. 2.5. 1987, bóndi og farkennari á Gunnarsstöðum í Þistilfirði; Árni Halldórsson, f. 21.7. 1925, d. 21.4. 1997, síðast búsettur á Sólborg á Akureyri; Halldóra Halldórsdóttir, f. 13.2. 1928, húsfreyja í Hafnarfirði; Guðný Halldórsdóttir, f. 2.3. 1930, húsfreyja í Reynihlíð í Mývatnssveit; Gunnar Halldórsson, f. 15.2. 1933, d. 31.8. 2011, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Uppeldissystkin: Hermann Jóhannsson, f. 25.9. 1941, bús. í Borgarnesi, og Sigrún Jóns, f. 29.10. 1947, bús. í Reykjavík.

Foreldrar: Halldór Ólason, f. 7.9. 1895, d. 28.7. 1975, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, og k.h. Þuríður Árnadóttir, f. 29.10. 1888, d. 22.6. 1982, húsfreyja á Gunnarsstöðum í Þistilfirði.