Í grúski mínu stíga stundum merkir menn óvænt upp af blöðum rykfallinna bóka. Einn þeirra er Tómas Tómasson iðnrekandi. Hann fæddist í janúar 1888 í Miðhúsum í Hvolhreppi á Rangárvöllum.

Í grúski mínu stíga stundum merkir menn óvænt upp af blöðum rykfallinna bóka. Einn þeirra er Tómas Tómasson iðnrekandi. Hann fæddist í janúar 1888 í Miðhúsum í Hvolhreppi á Rangárvöllum. Faðir hans féll frá, þegar Tómas var á öðru ári, og var honum komið í fóstur með styrk sveitarinnar. Hann fluttist átján ára til Reykjavíkur 1906 og fékk starf í gosdrykkjagerðinni Sanitas. Hann stofnaði síðan Ölgerð Egils Skallagrímssonar 1913 og rak hana af myndarskap til æviloka, en hann lést í nóvember 1978. Tómas var einn þeirra brautryðjenda, sem brutust úr fátækt og byggðu nýtt Ísland í krafti frelsis, framtaks og þjóðlegs metnaðar.

Árið 1935 varð Tómas aðalræðismaður Eistlands, sem hafði orðið fullvalda ríki sama ár og Ísland, 1918. Þremur árum síðar heimsótti hann Eistland og var gestur forsetans, Konstantins Päts. Stalín hernam Eistland sumarið 1940 og innlimaði landið í Ráðstjórnarríkin. Ísland viðurkenndi þó ekki innlimunina. Árið 1948 krafðist sendiherra Ráðstjórnarríkjanna þess, að Tómas væri máður af lista um ræðismenn erlendra ríkja, og varð Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra nauðugur viljugur við þeirri kröfu vegna ríkra viðskiptahagsmuna Íslendinga. „Sjálfur hefur Tómas aldrei látið sig það neinu skipta, en hiklaust haldið áfram að greiða götu þeirra Eistlendinga, sem hingað hafa komið og til hans leitað,“ skrifaði Bjarni tíu árum síðar um Tómas. Var hann fyrrverandi tengdasonur Tómasar, en fyrri kona Bjarna, Valgerður, hafði látist eftir stutt hjónaband.

Þegar forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, dr. August Rei, kom til Íslands sumarið 1957, gekk Tómas með honum á fund þáverandi utanríkisráðherra, Guðmundar Í. Guðmundssonar, og mótmælti sendiherra Ráðstjórnarríkjanna því bréflega. Tómas vonaði alla tíð, að Eistland hlyti aftur frelsi, en lifði það ekki, að sú von rættist.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is