Magnús Már Guðmundsson
Magnús Már Guðmundsson
Eftir Magnús Má Guðmundsson: "Gert er ráð fyrir að 1,8 milljarða afgangur verði af rekstri borgarsjóðs. Svigrúmið verður nýtt í að efla grunnþjónustuna, skólana og velferðina."

Óli Björn Kárason var nýlega kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi og óska ég honum velfarnaðar í störfum sínum. Nýju starfi og spennandi verkefnum fylgir vonandi tilhlökkun en um leið má ætla að breyttum tímum fylgi einnig óöryggi. Það vekur satt best að segja furðu að eitt af fyrstu verkum þingmannsins nýkjörna skuli vera að skrifa grein í Morgunblaðið um hvað allt sé nú ömurlegt í Reykjavík en ekki Hafnarfirði af því að þar séu sjálfstæðismenn í meirihluta.

Þráhyggja Óla Björns og lítillar kreðsu Sjálfstæðismanna gagnvart Degi B. Eggertssyni og meirihlutanum í Reykjavík er brosleg en alveg pínu sorgleg líka. Hefði ekki verið eðlilegra að þingmaðurinn myndi nota tækifærið til að skrifa um helstu hugarefni sín, boða sitt fyrsta þingmál og upplýsa um það sem hann ætlar að reyna að breyta sem þingmaður?

Reksturinn víða þungur

Rekstur sveitarfélaga á Íslandi er þungur og á það hefur ítrekað verið bent. Það er ekkert bundið sérstaklega við Reykjavík og t.a.m. þegar ársreikningur Garðabæjar fyrir 2015 var lagður fram sagði Gunnar Einarsson bæjarstjóri eftirfarandi um rekstur bæjarfélagsins:

„Það verður að teljast góður árangur að skila árinu 2015 með jákvæðri rekstrarútkomu, þegar horft er til þess að ríkið hefur ekki brugðist við áskorun sveitarfélaga um endurskoðun á tekjustofnum þeirra. Eins og staðan er í dag er vart hægt að segja að lögbundnir tekjustofnar sveitarfélaga standi undir þeim verkefnum sem þeim eru falin samkvæmt stjórnarskrá og lögum.“

Blessað útsvarið

Það eru jákvæðar fréttir að horfur í rekstri sumra sveitarfélaga vænkist milli ára. Óli Björn fjallar í grein sinni um stöðuna í Hafnarfirði og er frábært að nú birti til í rekstri bæjarfélagsins. Óli Björn telur það til marks um stórkostlegan árangur að útsvarið í Hafnarfirði lækkar á næsta ári. Hann kýs þó að nefna ekki í hverju breytingin felst en stefnt er að því að útsvarsprósentan lækki úr 14,52% í 14,48% sem er lækkun upp á heil 0,04%. Gagnlegt væri ef Óli Björn myndi reikna út hvað sú breyting felur í sér fyrir meðalmanninn og meðalfjölskylduna.

Um leið og dregin er upp björt mynd af rekstri Hafnarfjarðar í grein hans er myndin af Reykjavík afar dökk. Vondu vinstrimennirnir kunna jú ekki að fara með peninga. Það er mantra hægrimannsins fyrir kosningar og nú greinilega einnig strax eftir kosningar.

Fjárfest fyrir 14 milljarða

En er þoka yfir Reykjavík líkt og þingmaðurinn fullyrðir? Umskipti hafa einmitt orðið í rekstri Reykjavikurborgar líkt og lagt var upp með á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að 1,8 milljarða afgangur verði af rekstri borgarsjóðs. Svigrúmið verður nýtt í að efla grunnþjónustuna, skólana og velferðina. Skuldahlutfall borgarinnar án Orkuveitunnar verður á næsta ári 108% samanborið við 142% í Hafnarfirði.

Einnig verður fjárfest fyrir rúma 14 milljarða króna árið 2017 þar á meðal í nýjum borgargötum og endurnýjuðu malbiki en meiri fjármunir munu fara í þann lið en nokkru sinni áður. Borgin mun þannig leggja 5,5 milljarða króna í ýmsar gatnaframkvæmdir á næsta ári. Hátt í tveir milljarðar renna til byggingar skóla og menningarhúss í Úlfarsárdal auk þess sem framkvæmdir við Sundhöllina, þar á meðal útilaug, verða kláraðar.

Fyrsta þingmálið

Með aga og skipulögðum vinnubrögðum kraftmikils starfsfólks, stjórnenda og meirihlutans í borgarstjórn hefur tekist að leggja fram fjárhagsáætlun með afgangi sem sýnir góðan rekstur Reykjavíkurborgar. Fram hjá þessu getur Óli Björn ekki horft.

Um leið og ég ítreka kveðjur mínar til hins nýja þingmanns óska ég eftir því að hann gæti sanngirni næst þegar hann stingur niður penna um stjórnun Reykjavíkurborgar. Að lokum hvet ég Óla Björn hér með til að gera breytta tekjustofna sveitarfélaga að sínu fyrsta þingmáli sem og gráu svæðin svokölluðu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Allt þetta þarf að endurskoða líkt og margir, þar á meðal flokksbræður Óla Björns í Suðvesturkjördæmi, hafa kallað eftir.

Höfundur er borgarfulltrúi.