Pálína Ragnheiður Guðlaugsdóttir fæddist á Akureyri 22. október 1929. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 2. nóvember síðastliðinn. Foreldrar Pálínu voru Guðlaugur Kristjánsson, f.1883, d.1945, og Bjarney Pálína Guðjónsdóttir, f.1898. d.1977.

Pálína var ein af 13 systkinum, en eftirlifandi eru Jón Viðar Guðlaugsson, f. 1934, Kristín Guðlaugsdóttir, f. 1935, og Guðlaugur Guðlaugsson, f. 1942.

Hinn 23. júlí 1949 giftist Pálína Jóhannni Óskari Erlendssyni, f. 22 júlí 1925, d. 13 október 1994. Þau eignuðust eina dóttur, Eddu, f. 21. júní 1956. Börn Eddu eru Jóhann Óskar Haraldsson, f. 1975, Páll Ragnar Haraldsson, f. 1975, Anna Lilja Jónsdóttir, f. 1981, og Halla Vilborg Jónsdóttir, f. 1982.

Barnabarnabörnin eru níu.

Pálína verður jarðsungin frá Seljakirkju í dag, 16. nóvember  2016, klukkan 13.

Rúmlega sextíu ára samfylgd er lokið. Það er ekki langur tími í stóru myndinni, en í lífi manneskjunnar eru 60 ár nokkur tími. Og mamma manns skipar alltaf sérstakan sess.
Móður/dóttur-sambönd hafa verið rannsóknarefni gegnum aldirnar og skáld skrifað um þau þykkar bækur. Við mammma vorum stundum skólabókardæmi um erfitt svoleiðis samband. En bara stundum. Enda var mamma annálaður þverhaus og kom fyrir að ég væri það líka eða öfugt.
Þegar litið er yfir farinn veg er einfaldast að byrja á byrjuninni. Þegar allt var ljúft og átakalaust. Ég var fordekraður krakki, ekki á veraldlegan hátt heldur fólst það í endalausri ást og nægum tíma.
Það voru mömmu vonbrigði að krakkadýrið sýndi enga hæfileika í föndurlist, saumaskap og prjónlesi, en barnabörnin áttu eftir að bæta það upp.
Hefði mamma fæðst á öðrum tíma hefði hún kannski verið listakona með alpahúfu beint á ská yfir ljósum lokkunum. Hún gerði jafnan lítið úr listrænum hæfileikunum, sem voru þó öllum öðrum ljósir. Og af því mamma vildi mest af öllu hugsa um mig og pabba og fannst listamannslífið ekki alveg sinn tebolli, varð listin af heimilislegum toga.
Hún til dæmis saumaði út. Heilu stólana og veggmyndirnar, klukkustrengi og púða og þegar ég sá samskonar útsaum hjá öðrum varð ég alltaf svo montin af mömmu. Hennar saumaskapur var miklu fínlegri og litirnir hundrað sinnum flottari.
Og kökuskreytingalistina nam hún ekki í húsmæðraskóla þó vissulega hafi hún sótt einn slíkan. Nei, það var meðfætt. Lýtalausar marsípanrósir og -fígúrur. Ein af kökuskreytingum mömmu hefði örugglega farið logandi ljósi um netheima hefðu heimarnir þeir verið til.
Pabbi var í skákklúbbi með fimm vinum sínum og þeir skiptust á að hafa klúbbinn heima. Trúlega var einhver samkeppni milli eiginkvennanna varðandi veitingar, en hinar áttu ekki séns. Ekki eftir að mamma  bakaði köku sem hún skreytti með marsípanskákborði og mótaði marsípan-taflmenn af listfengi. Staðan á kökuskákborðinu var skák og mát. Minnir að hvíti kóngurinn hafi verið í sjálfheldunni.
Þetta með dúka- og lakabrotin má hinsvegar rekja rakleiðis í pottaskólann. Engin miskunn þar, okkur pabba oft til mikillar skemmtunar, sem vorum skíthrædd um að hún ruglaðist og setti dúkabrot í lökin. Eða þannig.
Og jólaföndrið. Dúkkur í jólasveinabúningum, dúkar, veggteppi, óróar. Allt jafn smekklegt. Þegar ég heimsótti fólk á jólum undraðist ég alltaf hversu jólatrén voru illa valin og illa skreytt. Og af því ég er að tala um jól er ágætt að hafa allan jólakaflann hér. Mamma var nefnilega jólaóð. Hún elskaði standið allt, greinar, köngla, skreytingar, bjó til hýasintu- og hurðaskreytingar, aðventukransa. Líka til að gefa.  Að ógleymdu kökustandi, konfektgerð, laufabrauði og þrifum.
Þegar pabbi lést árið 1994 missti mamma lífslöngunina í nokkur ár. Þar fyrir utan var hún aldrei heil heilsu. Ég og börnin mín höfum þess vegna hálfpartinn haldið upp á síðustu jól mömmu undanfarin 22 ár. Þess vegna umbárum við líka vesenið þegar hún þurfti orðið meiri hjálp og var í tómu tjóni með skipulagið. Oft voru farnar fimm ferðir fyrir hverja eina í sömu verslun. Þangað til við færðum henni stílabók þar sem hún vessgú varð að skrifa niður allt sem þyrfti að gera fyrir jólin. Gamla konan setti upp medium Akureyrarsvip, en þetta virkaði vel. Nú eru jól framundan og ég gerði faktískt samning við hana um að tóra fram yfir jól. Hún hafði greinst með krabbamein og fyrirsjáanlegt að nú yrðu sannarlega síðustu jólin okkar saman. Vikuna áður en hún lést vorum við að plana ýmislegt. Svo gerðist allt hrikalega hratt og þar að auki hefur hún aldrei látið vel að stjórn. En viðbúin var ég ekki.

Síðustu ár bjó hún á Vitatorgi og svo á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ.  Það var talsvert af henni tekið þegar hún gat ekki lengur boðið upp á kaffi og meðlæti, en það gat hún á Vitatorgi. Þar fór hún líka að mála á postulín og gerði það svo vel að eftir var tekið. Þegar hún flutti í Skógarbæ gat hún ekki stundað þetta tómstundagaman lengur, en fór í keramik, heklaði og prjónaði og málaði reyndar mynd á striga af sperrtum hana sem prýðir eldhús eins barnabarnsins. Flottur hani, en hún náði ekki að mála meira.

Þegar ég hélt í höndina á henni þegar hún var að kveðja strauk ég yfir bogna, stirða fingur og dáðist að eljunni og dugnaðinum fram á síðustu stund.

Mamma var ein 13 systkina og gekk ekki menntaveginn. Hins vegar var hún mjög vel að sér, las mikið alla tíð, allt frá Romanbladet upp í heimsbókmenntirnar, var upplýst og klár og réð krossgátur fram í andlátið, líka á dönsku. Hún kom einmitt heim með danska siði í farteskinu eftir að þau pabbi bjuggu ung í Kaupmannahöfn. Seinna fluttum við til Malmö og fórum reglulega yfir sundið til að heimsækja danska vini og dönsku siðirnir festu sig enn frekar í sessi.

Tónlist var mömmu nánast jafn mikilvæg og súrefnið sem hún andaði að sér og þegar heyrnin var svo gott sem farin táraðist hún yfir að geta ekki hlustað á óperurnar sem hún átti, sumar í mörgum útgáfum. Hún elskaði klassíska tónlist, allskonar tónlist, og söng eins og lævirki. Útilegusöngurinn hjá vinafólki foreldra minna var fágaður og mamma söng alt-röddina.  Fipaðist aldrei. Sömu sögu er að segja af fjölskylduferðalögum, stórum sem smáum, þar sem mamma ljómaði meðan hún söng.

En hún gat verið stór upp á sig og jafnvel fordómafull. Það var til dæmis gríðarlegur sigur að fá hana í bæinn á Hinsegin daga. Einhverntímann sagðist hún fyrr deyja en láta sjá sig þar. En, síðust árin hlakkaði hún til og var tilbúin með litrík föt mörgum dögum fyrir hátíðina. Hún var þó ekki búin að taka Dylan og Nóbelinn í sátt.

Foreldrar mínir eignuðust ekki sjónvarp fyrr en í Svíþjóð, ég þá þrettán ára, en fram að því var spilað eða lesið upphátt, ljóð og kafla úr vel völdum bókum. Æskuvinir mínir minnast þess oft hversu gott var að koma í heimsókn þar sem mamma og pabbi gáfu sér alltaf tíma.

Við mamma vorum svo alveg á skjön þegar ég var unglingur, hún skildi bókstaflega ekki neitt og rifrildin hatrömm. Eftir rifrildin fór frú Pálína létt með að segja ekki orð í nokkra daga upp í tvær vikur.

Hún lærði á bíl, fékk próf og fór í ökuferð með pabba, sem hefur örugglega tekið um höfuðið í uppgerðarhræðslu og sagt henni til. Eftir nokkrar aðfinnslur eða leiðbeiningar klossbremsaði hún, strunsaði út úr bílnum, sagðist aldrei keyra aftur. Og stóð við það. Hvernig er annað hægt en dást að svona úthaldi?

Mamma var þó að sjálfsögðu ekki bara stór upp á sig og langrækin. Hún var sérlega skemmtileg, hafði frábæra frásagnargáfu og heillaði fólk með fallegu brosi og sjarma.

Barnabörnin og barnabarnabörnin voru það sem hún lifði fyrir eftir að pabbi dó. Þau voru hennar líf og yndi.

Hinsvegar er ekki hægt að skrifa um mömmu án þess að minnast á pabba, Jóhann Óskar Erlendsson, sem lést langt fyrir aldur fram, árið 1994. Þau voru gift í  45 ár, mjög náin og afar háð hvort öðru.

Og rosalega upptekin af mat. Kaupa mat, gera að mat, herða fisk á svölunum, prófa sig áfram með allskonar rétti og alltaf heyrðist pabbi kalla ef mamma var ekki innan sjóndeildarhrings: Didda mín, Didda mín. Og þegar hún svaraði: Já, Addi minn, hvað vantar? vantaði hann að sjálfsögðu ekki neitt. Vildi bara hafa Diddu sína hjá sér þar sem hann var að dútla. Ég hefði persónulega orðið brjáluð, en þetta var mjög krúttlegt hjá þeim. Af því samband mömmu og pabba er það fallegsta sem ég hef séð. Eftir snatt í bænum komu þau gjarnan við hjá mér og krökkunum og ég fæ enn hláturskast þegar ég rifja upp algengt þras:
Við vorum þar tíu mínútur yfir tólf.
Nei, Addi minn, hún var orðin hálf eitt.
Didda mín. Ég leit á klukkuna. Hún var tíu yfir tólf.
Það passar ekki, Addi minn. Hún var hálf eitt...
O.s.frv. En alltaf í kærleika. Þau voru endalaus uppspretta kærleika, sem ég, börnin mín og barnabarnabörnin fengum ríkulega að njóta.
Mamma hefur lengi viljað fara til pabba, svo við verðum að fyrirgefa henni að þrjóskast ekki við fram yfir jól. Ég kvíði því mest að syngja Nú árið er liðið, en í gegnum árin fór mamma að gráta í fyrsta erindinu, ég fljótlega á eftir, en pabbi komst á leiðarenda ógrátandi. Eftir að hann lést grétum við báðar frá línu tvö.
Og vonandi breytist allt í blessun um síðir. Þó ég hafi engar hugmyndir um hvað tekur við eftir dauðann, kýs ég að sjá fyrir mér að mamma og pabbi séu saman á ný. Eins og Jónas Hallgríms sagði:

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið.

Elsku mamma mín. Takk fyrir allt. Ég elska þig, sakna þín.
Þín

Edda.