Guðríður Ósk Jóhannesdóttir fæddist 18. nóvember 1967. Hún andaðist 4. nóvember 2016.

Útför hennar fór fram 11. nóvember 2016.

Það er ekki gefið að eignast góðan „makker“.

Fyrir nokkrum árum kynntist ég konu svona eins og gengur. Í gegnum sameiginlegt áhugamál okkar briddsið þróaðist góð vinátta okkar á milli. Hefði ég kosið að sú vegferð yrði margfalt lengri. Það sem fær mig til að skrifa minningarorð um elsku Gurrý er sú staðreynd að hún var einstaklega vel gerð manneskja, sem hafði djúp áhrif á mig og kenndi mér margt þó hún væri töluvert yngri en ég.

Eflaust hefur Gurrý ekki verið gallalaus frekar en ég og þú. En það fylgdi henni einhver ótrúleg ára sem snerti mig. Hún tók verkefnum lífsins smáum og stórum sem sjálfsögðum hlut og leysti þau af hendi með einstöku æðruleysi, samviskusemi og nákvæmni. Hún hafði yfirsýn og stjórn á hlutunum. Hún hugsaði í lausnum en ekki vandamálum. Forgangsröðin var á tæru. Börnin, heimilið og fjölskyldulífið voru í fyrsta, öðru og þriðja sæti. Ég heyrði hana aldrei hækka röddina, og með yfirvegun og sannfæringu gat hún snúið manni á augabragði. Það brást ekki ef við vorum að spila að kvöldi til að hún hringdi heim, jafnvel í hita leiksins, og bauð krökkunum góða nótt og fór með ákveðna bæn með þeim sem var fastur liður í kvöldrútínunni hjá þeim. Hún var svo hlýr og gefandi uppalandi.

Hún mætti veikindum sínum af sömu hugprýði og öðru. Hún gerði allt sem í hennar valdi stóð til að spyrna við fótum og vinna í batanum. Hún gat alltaf séð einhverja jákvæða hlið á málunum, eins og síðasta færslan sem ég las eftir hana á fésbókarveggnum hennar ber svo fallegt vitni um: „Við mæðgurnar Sólbjört Nína de Wagt bjuggum til nýjan málshátt sem hljóðar svona; Betra er að láta sér batna á spítala en að liggja veikur heima“. Ég varð aldrei vitni að vonleysi eða angist. Bjartsýni og gleði einkenndi fasið og hún var dugleg að deila með okkur nýjustu bardagalistunum við þessa ótemju sem krabbameinið er. Ég hef þá trú að hún hafi keypt sér aukatíma með þessu hugarfari og þrautseigju, alltaf með það í huga að lengja tímann sem hún fengi að njóta með fjölskyldunni.

Ég náði að segja henni hvað ég væri þakklát fyrir að hafa kynnst henni þó að mikið hafi verið af henni dregið þegar ég heimsótti hana síðast á spítalann. Fyrir það verð ég þakklát.

Það er engin sanngirni í því að falla frá aðeins 48 ára að aldri. Hennar verður sárt saknað. Elsku Matthías, Sóla og Jaap. Megi Guð og góðar vættir styðja ykkur og styrkja í gegnum sorgina.

Spilamakker og vinur,

Freyja Friðbjarnardóttir.