Umferð Tækni bifreiða hefur þróast mikið undanfarin ár og styttist í tíma sjálfakandi bíla, en áður þarf að huga að atriðum er varða vegakerfið.
Umferð Tækni bifreiða hefur þróast mikið undanfarin ár og styttist í tíma sjálfakandi bíla, en áður þarf að huga að atriðum er varða vegakerfið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Sviðsljós

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Ég hef enga trú á öðru en að vegakerfi okkar verði tilbúið til að taka á móti þessari nýju tækni til jafns við önnur lönd,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, en hann flutti ávarp á ráðstefnu sem haldin var í Hörpu í Reykjavík sl. fimmtudag og fjallaði þar um vegakerfi framtíðar og aukna tækni í akstri ökutækja.

Tæknikerfi bifreiða hafa þróast mikið undanfarin ár og berast ósjaldan fréttir af því að tími hins sjálfakandi bíls sé á næsta leiti. Hafa bílasmiðir nú þegar sett á markað ökutæki sem m.a. búa yfir tækni sem tekur mið af aksturshraða annarra ökutækja og lagar sig að honum, aðstoðar ökumenn við að leggja í stæði og getur haldið ökutæki inni á akrein.

Hreinn segir Vegagerðina lengi hafa fylgst náið með þróun í tæknibúnaði bíla og hvernig þeir nálgist það stig að vera sjálfakandi með öllu.

„Við fylgjumst mjög vel með allri þróun í Evrópu og höfum t.a.m. fylgst sérstaklega með rannsóknum í Finnlandi, en þar er verið að skoða hvort ekki sé hentugt að koma fyrir tæknibúnaði við hlið vegar, s.s. í stikurnar, í stað þess að láta bílinn lesa yfirborð vegarins,“ segir hann og bendir á að veðurfarið sé einn stærsti óvissuþáttur við akstur sjálfakandi bíla hér á landi líkt og annars staðar á norðlægum slóðum.

Sjálfakandi bílar lesa umhverfi sitt í gegnum skynjara og er algengt að um myndavélar sé að ræða í bland við flóknari tæknibúnað á borð við sónar, radar og leysigeisla. Virkni þessara tækja getur hins vegar orðið takmörkuð við vissar veðuraðstæður, s.s. við mikla rigningu, sterkan vind og snjókomu, auk þess sem ástand vega að lokinni snjóhreinsun getur haft truflandi áhrif.

Fækka þarf einbreiðum brúm

Til að búa íslenska vegakerfið undir komu sjálfakandi bíla segir Hreinn helst þurfa að bæta yfirborðsmerkingar á vegum, fækka malarvegum og einbreiðum brúm og breikka akreinar á sumum leiðum.

„Að fækka einbreiðum brúm er eitt af þeim stóru verkefnum sem fram undan eru hér á landi. Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þess mikla fjölda ferðamanna sem hingað kemur og er óvanur slíkum mannvirkjum,“ segir hann og heldur áfram: „Á sumum svæðum eru vegirnir orðnir of mjóir miðað við umferðarþunga og margir ökumenn því smeykir við að mæta stórum flutningabílum. Vegakerfið var að töluverðu leyti byggt upp á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og þá voru aðstæður allt öðruvísi með mun minni umferð og minni vöruflutningum. Við viljum því leggja áherslu á að breikka og styrkja vegina og horfum í því samhengi sérstaklega í upphafi á leiðirnar á milli Reykjavíkur og Akureyrar og Reykjavíkur og Víkur.“

Trukkarnir leiða tæknina

Efsta stig sjálfstýringar ökutækja er alsjálfvirkur akstur þar sem engin þörf er á aðkomu bílstjóra. Þess í stað sjá skynjarar, tölvur og stýribúnaður af ýmsum toga um alla þætti akstursins.

Aðspurður segist Hreinn halda að slíkt komi fyrst fram í þungaflutningum á þjóðvegum. „Í Evrópu sjá menn þetta t.a.m. fyrir sér þannig að mörgum flutningabílum sé ekið í röð á þjóðvegi og í fremsta bílnum sé ökumaður en hinir fylgi bara á eftir eins og lest.“