Sigríður Rósa Kristinsdóttir, fyrrverandi fréttaritari Ríkisútvarpsins á Eskifirði, lést fimmtudaginn 17. nóvember á dvalarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum, 93 ára að aldri. Sigríður Rósa var fædd á Végeirsstöðum í Fnjóskadal 10.

Sigríður Rósa Kristinsdóttir, fyrrverandi fréttaritari Ríkisútvarpsins á Eskifirði, lést fimmtudaginn 17. nóvember á dvalarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum, 93 ára að aldri.

Sigríður Rósa var fædd á Végeirsstöðum í Fnjóskadal 10. ágúst 1923, hún var fimmta í röð fimmtán systkina. Hún var dóttir hjónanna Kristins Indriðasonar (1890-1953) og Sigrúnar Jóhannesdóttur (1892-1989). Sigríður Rósa ólst upp í Höfða í Grýtubakkahreppi en bjó stærstan hluta ævi sinnar á Eskifirði.

Sigríður Rósa vann við ýmis störf um ævina, hún stofnaði m.a. útgerð og lét smíða fyrir sig bátinn Víði Trausta SU 517 árið 1971. Hún rak verslun og seldi þar m.a. hannyrðavörur og fatnað. Seinna stofnaði hún saumastofu og tískuverslun.

Sigríður Rósa var fréttaritari Ríkisútvarpsins til fjölda ára og varð þekkt fyrir pistla sína. Hún var jafnframt mjög virk í pólitík og ýmsum félagsstörfum. Sigríður Rósa gegndi formennsku í slysavarnadeildinni Hafrúnu á Eskifirði og varð síðar heiðursfélagi. Hún var mjög söngelsk og söng í kórum.

Árið 1993 kom út ævisaga Sigríðar Rósu, Þú gefst aldrei upp Sigga, sem Elísabet Þorgeirsdóttir skráði.

Eiginmaður Sigríðar Rósu var Ragnar Sigurmundsson frá Svínhólum í Lóni, f. 1916, d. 2007 og bjuggu þau allan sinn búskap á Eskifirði. Þau eignuðust sjö börn, en það eru Sigrún Ragna, f. 1947, Kristján, f. 1948, Kristinn Jóhannes, f. 1950, Guðný Hallgerður, f. 1953, Guðrún, f. 1959, d. 2003, Sigurmundur Víðir, f. 1961, og Áslaug, f. 1963.

Ragnar átti fyrir dótturina Hafdísi Þóru, f. 1946.