Þorbjörn Guðjónsson
Þorbjörn Guðjónsson
Eftir Þorbjörn Guðjónsson: "Allt tal um breytingu á stjórnarskrá, aðild að Efnahagsbandalaginu og auðlindarentu sem undirstöðu aukinna útgjalda upp á 150 milljarða eða meira er bull."

Nú fara sumir geyst og það hriktir í hinni íslensku þjóðfélagsumgjörð. Þeir Íslendingar komnir á miðjan aldur eða yngri og sem hafa notið athafna þeirra sem á undan hafa gengið gefa frat í umgjörðina og það samtal og samtök sem átt hafa sér stað milli kynslóða.

Nú skal smíða nýja stjórnaskrá, ganga í Efnahagsbandalagið og sækja milljarða í sjávarútveginn í formi auðlindarentu.

Stjórnarskráin

Nú er það svo að stjórnarskráin frá 17. júní 1944 með nokkrum breytingum hefur ekki staðið í vegi fyrir framförum og félagslegu öryggi frá þeim tíma til dagsins í dag og leitun að þeim sem skellt geta eigin ófarnaði sínum á hana. Það eru einkum tvær greinar (31. gr. og 76. gr.) sem skipta mestu í því ágæta plaggi með hliðsjón af óánægjunni í dag.

31. gr. Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.

Kjördæmi skulu vera fæst sex en flest sjö. Mörk þeirra skulu ákveðin í lögum, en þó er heimilt að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni.

Í hverju kjördæmi skulu vera minnst sex kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu. Fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi skal að öðru leyti ákveðinn í lögum, sbr. þó 5. mgr.

Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun. Setja skal nánari fyrirmæli um þetta í lög.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.

76. gr. Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.

Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Þessar tvær greinar ná annars vegar vel yfir þann samfélagslega samhljóm sem við öll styðjum og hins vegar vísa veginn til leiðréttingar á vægi atkvæða ef ástæða þykir til.

Efnahagsbandalagið, Euro eða Myntráð

Engar haldbærar ástæður eru til þess að Íslendingar sækist eftir aðild að Efnahagsbandalaginu eða evrusvæðinu. Atvinnuleysi á nefndum svæðum er um þrisvar sinnum það sem við búum við með tilheyrandi niðurlægingu og vandræðum margra, einkum ungra. Með inngöngu í euro-svæðið eða myntráði erum við að þrengja þá kosti sem við höfum sem fullvalda þjóða til að ráða ráðum okkar. Óljóst er hverjir vextir yrðu, þar kæmu til álita gjaldþol ríkisins og greiðslugeta almennings svo eitthvað sé nefnt.

Aukin ríkisútgjöld og auðlindarentan á að dekka þau

Nú skal byggja upp hitt og þetta, einkum og sér í lagi til að gæta og bæta hag þeirra sem ver eru settir í félagslegu og efnahagslegu tilliti og auðvitað kallar það á aukin útgjöld (meiri peninga). Sést hafa tölur um útgjaldaauka upp á 150 milljarða. Oftast er talað um að sækja peninga í sjávarútveginn til þess að dekka þetta allt saman. En það sem verður með sanngirni lagt á sjávarútvegin væri tæpast upp í nös á ketti í nefndu samhengi.

Það skal svo lagt til að við förum gætilega og af skynsemi í það að ákveða hvað sé temmilegt að heimta af sjávarútveginum vegna þeirra sérréttinda sem kvótahafar búa við. Forðast ber allar kollsteypur sprottnar af yfirvegun, sem byggist á fordómum, skilningsleysi og öfund.

Það er erfitt að sjá að ný stjórnarskrá, aðild að Efnahagsbandalaginu eða róttæk umbylting í sjávarútvegi standi helst til þjóðþrifa á Íslandi í dag eða hvað

Höfundur er cand. oecon.