Ferdinand Marcos myrti, kúgaði, píndi og stal frá þjóð sinni og hlýtur nú legstað í grafreit fyrir þjóðhetjur

Ferdinand Marcos þótti lofa góðu þegar hann var kosinn forseti Filippseyja árið 1965. Hann sigraði auðveldlega í kosningunum og þótti hafa til að bera mikinn kjörþokka og vera ræðumaður góður. Ekki skaðaði að eiginkona hans, fegurðardrottningin Imelda, stóð við hlið honum og dró að kjósendur á kosningafundi hans með glæsileika og söng.

Þetta var á tímum kalda stríðsins og Bandaríkjamenn sáu í Marcosi bandamann í baráttunni gegn kommúnismanum.

Fjórum árum síðar sigraði hann aftur auðveldlega, þótt þá væru farnar að heyrast raddir um spillingu og vafasama stjórnarhætti.

1972 brá svo við að Marcos setti herlög. Lýsti hann yfir því að bjarga þyrfti landinu frá uppreisnarmönnum kommúnista. Á Filippseyjum kveða lög á um að hámarkstími í embætti forseta sé tvö kjörtímabil. Með herlögunum komst Marcos hjá því að fara úr embætti.

Marcos brást hart við öllu andófi og varpaði gagnrýnendum sínum í fangelsi. Talið er að öryggissveitir hans hafi myrt rúmlega þrjú þúsund manns. Fórnarlömbunum var rænt, þau voru pyntuð og síðan myrt og kastað í vegarkant öðrum til viðvörunar. Að auki er talið að um 35 þúsund manns hafi sætt pyntingum og 70 þúsund verið varpað í fangelsi að tilhæfulausu.

Árið 1986 var Marcosi steypt í uppreisn. Þá hafði hann setið í 21 ár. Hann flúði ásamt fjölskyldu sinni til Havaí. Almenningur ruddist inn í forsetahöllina og þar fundust þrjú þúsund pör af skóm í eigu Imeldu og urðu þeir að efni í fyrirsagnir fjölmiðla um allan heim. Þegar farið var að rannsaka ríkisbókahaldið kom í ljós að Marcos hafði komið undan tíu milljörðum dollara úr ríkissjóði.

Ferill Marcosar er rifjaður upp hér vegna þess að Rodrigo Duterte, forseti landsins, hefur veitt Marcosi uppreisn æru. Hæstiréttur Filippseyja úrskurðaði í liðinni viku að Duterte hefði verið heimilt að gefa leyfi til þess að jarðneskar leifar Marcosar, sem dó 1989, yrðu grafnar í kirkjugarði þar sem þjóðhetjur landsins eru jarðsettar. Í gær fór útförin fram í kirkjugarðinum á laun að viðstaddri fjölskyldu Marcosar, þar á meðal ekkju hans, Imeldu, sem orðin er 87 ára gömul. Fjölskyldan hefur stutt Duterte. Ekki var látið vita af athöfninni. Hermenn stóðu heiðursvörð og hann var heiðraður með 21 byssuskoti. Tvö þúsund hermenn stóðu vörð fyrir utan kirkjugarðinn til að koma í veg fyrir að blaðamenn eða mótmælendur kæmust nærri ef ske kynni að athöfnin spyrðist út. Þannig gerðist það að einn af óþokkum og kúgurum 20. aldarinnar var settur á stall á ný aðeins 30 árum eftir að hann var hrakinn frá völdum með skömm.