Vilja bann á Bannon Bandaríkjamenn mótmæla þeirri ákvörðun Donalds Trump að skipa Stephen Bannon sem aðalstjórnmálaráðgjafa sinn í Hvíta húsinu. Bannon hefur stjórnað vef sem er m.a. sakaður um kynþáttafordóma.
Vilja bann á Bannon Bandaríkjamenn mótmæla þeirri ákvörðun Donalds Trump að skipa Stephen Bannon sem aðalstjórnmálaráðgjafa sinn í Hvíta húsinu. Bannon hefur stjórnað vef sem er m.a. sakaður um kynþáttafordóma. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur valið Michael Flynn, fyrrverandi undirhershöfðingja og yfirmann leyniþjónustu hersins, í embætti þjóðaröryggisráðgjafa í Hvíta húsinu.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur valið Michael Flynn, fyrrverandi undirhershöfðingja og yfirmann leyniþjónustu hersins, í embætti þjóðaröryggisráðgjafa í Hvíta húsinu. Áður hafði Trump valið Stephen Bannon sem aðalstjórnmálaráðgjafa forsetaembættisins og Reince Priebus verður skrifstofustjóri Hvíta hússins.

Michael Flynn er 57 ára og starfaði í hernum í 33 ár. Hann naut mikillar virðingar þar en hefur verið umdeildur meðal fyrrverandi samstarfsmanna og yfirmanna sinna síðustu misserin.

Flynn starfaði m.a. sem leyniþjónustustjóri bandaríska herráðsins og var ráðgjafi yfirmanns hersveita Bandaríkjanna í Írak og Afganistan í leyniþjónustumálum. Hann hefur því mikla reynslu af baráttunni gegn íslömskum öfgasamtökum í þessum löndum.

Flynn olli titringi meðal samstarfsmanna sinna í hernum árið 2010 þegar hann gagnrýndi starfsaðferðir leyniþjónustu hersins í skýrslu sem hugveita í Washington birti. Embættismenn í varnarmálaráðuneytinu settu út á þá ákvörðun hans að nota hugveitu til að koma gagnrýni sinni á framfæri.

Segir ótta við múslíma rökréttan

Tveimur árum síðar var Flynn þó skipaður yfirmaður leyniþjónustunnar DIA, sem heyrir undir varnarmálaráðuneytið í Washington. Hann reyndi að gera umbætur á starfsháttum leyniþjónustunnar en átti í útistöðum við yfirmenn sína og þá sem stjórnuðu öðrum leyniþjónustustofnunum. Deilurnar urðu til þess að James Clapper, helsti ráðgjafi forsetans í leyniþjónustumálum, og Michael Vickers, þá aðstoðarvarnarmálaráðherra, viku honum frá sem yfirmanni DIA og þvinguðu hann til að fara á eftirlaun.

Flynn hélt því fram að sér hefði verið vikið frá vegna baráttu sinnar gegn „róttækum íslamisma og útþenslu al-Qaeda og tengdra hreyfinga“. Hann sagði að stjórn Baracks Obama forseta hefði orðið værukær eftir að hryðjuverkaforinginn Osama bin Laden var drepinn árið 2011 og vanmetið hættuna sem stafaði af hryðjuverkanetinu al-Qaeda og afsprengjum þess.

Aðrir sögðu að Flynn hefði verið vikið frá vegna óánægju samstarfsmanna með stjórnunarstíl hans. Á meðal þeirra sem héldu þessu fram var Colin Powell, sem var utanríkisráðherra í forsetatíð George W. Bush og áður forseti bandaríska herráðsins. „Hrottafenginn við starfsmenn sína, hlustaði ekki, vann gegn stefnunni, slæmur stjórnunarstíll, og svo framvegis,“ sagði Colin Powell í tölvupósti í júlí sl. um ástæður þess að Flynn var vikið frá, að sögn The Wall Street Journal .

Eindreginn stuðningur Flynns við Trump í kosningabaráttunni mæltist illa fyrir meðal yfirmanna hersins sem hafa forðast afskipti af stjórnmálum. Tveir fyrrverandi yfirmenn hans hvöttu hann til að gæta hófsemi í pólitískum yfirlýsingum en hann sagði í viðtali við Washington Post fyrr á árinu að tilraunir til að þagga niður í honum brytu gegn málfrelsi hans.

Flynn flutti ræðu á flokksþingi repúblikana í júlí og tók þá undir vígorð stuðningsmanna Trumps um að hneppa ætti Hillary Clinton í fangelsi vegna tölvupóstamálsins.

Flynn hefur verið gagnrýndur fyrir að ala á hatri í garð múslíma og lýsa baráttunni gegn íslömskum hryðjuverkasamtökum sem heilögu stríði til að bjarga vestrænni siðmenningu vegna hættu sem hann segir stafa af múslímum.

„Ég lít ekki á íslam sem trúarbrögð,“ hefur The Wall Street Journal eftir Flynn. „Ég lít á íslam sem pólitíska hugmyndafræði.“

Hann virðist ekki gera greinarmun á múslímum og íslamistum og telja að allir múslímar séu hættulegir eða geti verið hættulegir vegna þess að þeir aðhyllist íslam. „Óttinn við múslíma er RÖKRÉTTUR,“ sagði hann á Twitter í febrúar.

Útlendingahatur og kvenfyrirlitning

Stephen Bannon hefur einnig verið sakaður um íslamfælni og andúð á múslímum. Hann hefur stjórnað fréttavefnum breitbart.com sem hefur verið gagnrýndur fyrir kynþáttafordóma og hatur á útlendingum, konum, hommum og lesbíum.

Breitbart.com er orðinn einn af mest lesnu fréttavefjum hægrimanna í Bandaríkjunum og hefur verið sakaður um að vera málpípa hægrihreyfingar sem nefnist alt-right . Hún er aðallega skipuð ungum, hvítum þjóðernissinnum sem hafna „pólitískum rétttrúnaði“ ráðandi afla í stjórnmálunum, meðal annars í Repúblikanaflokknum. Fréttavefurinn hefur veist harkalega að forystumönnum flokksins, m.a. Paul Ryan, forseta fulltrúadeildar þingsins.

Á meðal mannréttindahreyfinga sem hafa gagnrýnt vefinn eru Anti-Defamation League, samtök sem berjast gegn gyðingahatri. Jonathan Greenblatt, framkvæmdastjóri samtakanna, lýsir vefnum sem málpípu laustengds hóps hvítra þjóðernissinna sem reyni ekki að leyna kynþáttafordómum sínum og hatri á gyðingum.

Umdeildur fréttavefur
» Margar af fyrirsögnum fréttavefjar Stephens Bannon hafa verið mjög umdeildar.
» Í einni þeirra var hægrisinnaður álitsgjafi kallaður „svikull gyðingur“.
» „Getnaðarvarnir gera konur óaðlaðandi og snarvitlausar,“ sagði í annarri fyrirsögn.
» „Hvort myndir þú vilja að barnið þitt yrði haldið femínísma eða krabbameini?“
» „Réttindi samkynhneigðra hafa gert okkur heimskari, það er kominn tími til að þeir fari aftur inn í skápinn.“
» „Konur eru ekki beittar órétti við ráðningar í störf fyrir tæknifyrirtæki, þær eru bara ömurlegar í starfsviðtölum.“