Helgi Þorleifsson fæddist 18. júní 1936 að Hofi í Öræfum. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Klausturhólum 23. október 2016.

Foreldrar hans voru Þorleifur Pálsson bóndi, f. 18.9. 1899, d. 2.1. 1970, og Pálína Margrét Stefánsdóttir húsfreyja, f. 25.1. 1913, d. 29.4. 2004. Systkini Helga voru Svava Margrét, f. 24.8. 1933, Jón, f. 3.3. 1934, Sigurlaug, f. 1.6. 1939, Páll Björgvin, f. 28.1. 1943, Óskar, f. 10.8. 1945, stúlka, f. 13.9. 1948, d. 13.9. 1948, Stefán, f. 15.1. 1951, Jóhann, f. 13.7. 1953, d. 14.5. 2010, Þuríður, f. 2.3. 1957.

Sambýliskona Helga var Aðalheiður Hrönn Guðmundsdóttir, f. 25.8. 1956, d. 7.4. 2001. Eignuðust þau einn son, Hjört Gylfa, f. 29.6. 1998. Hinn 1.7. 2007 kvæntist Helgi eftirlifandi eiginkonu sinni, Önnu Gunnlaugu Jónsdóttur, f. 16.5. 1950.

Helgi ólst upp að Hofi í Öræfasveit. 1943 fluttist hann með fjölskyldu sinni í Landbrot í V-Skaftafellssýslu, bjó lengst af á Þykkvabæ. 10 ára gamall veiktist hann illa af lömunarveiki og bar þess merki alla ævi. Ungur að aldri lærði hann smíðar hjá Valdimar í Hólmi og gerði smíðar að ævistarfi sínu að mestu þrátt fyrir fötlun sína. Byggði hann m.a. íbúðar- og úthús á mörgum bæjum í Landbrotinu og víðar. Í nokkur ár var hann einnig vetrarmaður á Hnausum í V- Skaftafellssýslu, vakt- og vélamaður í Sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri, og tvo vetur á vertíð í Vestmannaeyjum. Helgi fluttist til Reykjavíkur 1989 og vann þar við smíðastörf. Haustið 2003 flutti hann aftur í heimahagana, í íbúð fyrir aldraða á Kirkjubæjarklaustri. Helgi greindist með ólæknandi krabbamein í sumar og síðustu vikurnar dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Klausturhólum, þar sem hann lést.

Útförin fór fram í kyrrþey þann 5. nóvember 2016 að ósk hins látna.

Helgi Þorleifsson var mágur minn og vinur í um það bil sextíu ár og bar aldrei skugga á þau góðu kynni. Margir hafa átt auðveldari ævi en Helgi en aldrei heyrði ég hann kvarta heldur bar hann sig vel með sinni hæversku framkomu sem einkenndi hann og hans líf. Minnisstæðar eru mér vikurnar er við, ásamt Jóni mínum, áttum saman austur í Landbroti í júnímánuði árið 1995. Til stóð að byggja okkur hjónunum nýtt sumarhús og að sjálfsögðu var Helgi aðalmaðurinn og bæði upphaf og endir í þeirri ráðagerð. Í stuttu máli þá gerðust bæði undur og stórmerki undir styrkri stjórn Helga þessa sólardaga og björtu nætur í Landbrotinu vorið níutíu og fimm. Um mánaðamótin maí/júní var hafist handa, efnið komið á staðinn eftir krókaleiðum og búið að grafa fyrir og steypa stöpla. Það skal strax tekið fram að efnið kom ekki tilsniðið og niðursagað í einingum eins og nú tíðkast og algengast er í seinni tíð. Nei, nei, allt efnið þurfti að mæla og saga til og eftirminnilegt er að Helgi handsagaði allt efnið í bústaðinn, engar rafmagnssagir þar enda frekar erfitt um rafmagn. Efnið í bústaðinn var fengið hvert úr sinni áttinni, bæði keypt, hirt og fengið að gjöf, enda Jón minn hirðusamur maður með eindæmum. Til þess að koma þessu öllu saman og byggja úr því bústað þurfti bæði útsjónarsemi og nákvæmni og þeim eiginleikum var Helgi Þorleifsson gæddur svo um munaði. Eftir að hafa unnið sleitulaust frá morgni og fram að kvöldmat enduðu dagarnir oftast á því að þeir bræður fengu sér örlitla lögg af „heimatilbúnu“ í bláu glösin, skáluðu og skipulögðu og áætluðu hvað gert skyldi og hvernig að morgni næsta dags. Svona liðu dagarnir hver af öðrum og smátt og smátt reis litla sumarhúsið okkar Jóns og fór að taka á sig mynd. Í minningunni finnst mér þetta hafi verið eins og fyrir kraftaverk að sautjánda júní, á sjálfan þjóðhátíðardaginn, var risið og orðið fokhelt heilt sumarhús enda Helga ekki alls varnað. Eftir var tekið að ekki kom deigur dropi úr lofti þessar vikur sem þeir unnu að húsinu að utan en um leið og húsinu var lokað og hægt að fara að vinna inni tók að rigna. Þeir bræður Helgi og Jón kunnu að vinna, kunnu að vinna saman og þarna tóku þeir almættið með sér í vinnuflokk sem reddaði góðu veðri á meðan þess þurfti. Margar ánægjustundir höfum við Helgi átt í þessu sumarhúsi eins og annars staðar líka. Ég er þakklát Helga mínum fyrir samfylgdina og langar með þessum fáu línum að þakka fyrir árin öll.

Væntanlega hefur Helgi verið hvíldinni feginn enda orðinn veikur, megi góður Guð blessa Helga og varðveita.

Unnur Halldórsdóttir (Lilla).

Nú hefur hann Helgi, frændi minn, yfirgefið þessa jarðvist eftir stutta og snarpa baráttu við krabbamein.

Helgi var bróðir móður minnar og voru alltaf sterk tengsl þeirra á milli. Man ég því vel eftir Helga frá því að ég var smástelpa. Hann var 10 ára gamall þegar hann veiktist af lömunarveiki, sem setti spor sitt á hann alla tíð og varð hann aldrei líkamlega heill eftir það. Hann var alltaf með sitt mikla skegg, sennilega til að leyna smá hallandi höfðinu sínu. Gekk um með stafinn sinn og alltaf með bros á vör. Ekki var maður nú að velta fyrir sér fötlun Helga enda var hann bara Helgi frændi sem gat allt.

Ekki óraði mig fyrir, og eflaust ekki Helga heldur, að líf okkar myndi tvinnast saman á annan hátt. En stundum koma upp aðstæður í lífinu sem gera það að verkum að erfiðar ákvarðanir þarf að taka. Helgi og Aðalheiður eignuðust soninn Hjört Gylfa 1998 og vegna líkamlegrar fötlunar og aðstæðna heima fyrir gátu þau ekki hugsað um soninn og stóðu frammi fyrir sinni erfiðustu ákvörðun sem foreldrar, en það er að láta barn sitt frá sér. Við Geir vorum svo heppin að hafa möguleika á að taka þennan yndislega son þeirra að okkur sex mánaða gamlan og fengum að ættleiða hann. Guð má vita að þetta hefur ekki verið auðveld ákvörðun, en ég held að Helga hafi að vissu leyti verið létt að vita að hann væri ættleiddur til nákomins ættingja, þar sem hann gat fylgst með honum vaxa úr grasi. Allt í einu voru tengsl okkar Helga orðin önnur, hann var ekki lengur bara Helgi frændi, heldur líka Helgi pabbi eins sonar okkar.

Síðan eru liðin 18 ár og hefðu þau svo sannarlega mátt vera fleiri árin. Við höldum alltaf að tíminn sé nógur, til að spjalla, hringjast á eða hittast en svo er hann allt í einu farinn. Ég er svo þakklát fyrir að við gátum átt góðar stundir með þér í lokin, Helgi minn.

Elsku Helgi, við Geir getum ekki þakkað þér nógu mikið fyrir það traust sem þú sýndir okkur. Við vitum að þú munt áfram fylgst með Hirti Gylfa þínum sem í mörgu líkist þér og passa upp á hann. Passa að hann keyri ekki glannalega og verði traustur bílstjóri eins og þú varst.

Minning þín mun lifa áfram með okkur.

Hvíl í friði, elsku Helgi minn.

Þín frænka,

S. Kristín Eggertsdóttir.

Þessi orð komu í hug minn þegar ég settist niður til að setja örfá orð á blað til minningar um Helga mág minn vin og bróður Siggu. Reyndar var Helgi okkur meira en mágur og bróðir eftir að dóttir okkar og tengdasonur ættleiddu Hjört Gylfa, son Helga, og þessi ljúfi drengur varð barnabarn okkar, en Helgi gat ekki lengur annast hann vegna heimilisástæðna. Helgi fékk lömunarveikina á barnsaldri og var alla tíð síðan með skerta hreyfigetu. Helgi lærði smíðar hjá Valdimar í Hólmi og voru smíðar upp frá því hans aðalævistarf. Var Helgi einstaklega verklaginn, útsjónarsamur og afkastamikill. Held ég að flest systkina hans hafi notið smíða hans meira og minna. Helgi byggði bæði við húsið okkar á Hvammstanga og stofu við hjólhýsið okkar í Landbrotinu og gaf mér oft góð ráð ef ég var að bagla eitthvað. Við Sigga eigum svo ótalmargt Helga að þakka á langri ævi þar sem aldrei bar skugga á samskipti okkar. Það var okkur Siggu því mikils virði að geta hvatt hann og verið hjá honum síðust ævi stundir hans á hjúkrunarheimilinu á Klausturhólum

Þótt sorg búi í sinni

og söknuður í hjarta

geymast munu í minni

myndir um daga bjarta.

Minningin um þig lifir í hjörtum okkar, mágur, vinur og bróðir.

Eggert Karlsson og

Sigurlaug Þorleifsdóttir.