Miðaldaævintýri Dæmisögur í tveimur bindum. Bragi Halldórsson annaðist útgáfuna.
Miðaldaævintýri Dæmisögur í tveimur bindum. Bragi Halldórsson annaðist útgáfuna. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Æ vintýri frá miðöldum eru komin út í tveimur bindum. Bragi Halldórsson menntaskólakennari og skákmeistari annaðist útgáfuna. Þetta eru ekki ævintýri í þeim skilningi sem nú er lagður í það orð, heldur er um að ræða dæmisögur og heilræði af ýmsu tagi.

Æ vintýri frá miðöldum eru komin út í tveimur bindum. Bragi Halldórsson menntaskólakennari og skákmeistari annaðist útgáfuna. Þetta eru ekki ævintýri í þeim skilningi sem nú er lagður í það orð, heldur er um að ræða dæmisögur og heilræði af ýmsu tagi. Þó einkennilegt megi virðast hafa þessar sögur ekki verið aðgengilegar í heild sinni hér á landi. En þær hafa haft mikil áhrif á bókmenntir okkar allt frá fyrstu tíð (t.d. Íslendingasögurnar) og bendir Bragi á mörg dæmi um það í formála.

Til gamans skulu nefndir hér þrír titlar „ævintýranna“: „Ein húsfrú forréð sinn eigin húsbónda með vélum“, „Frá einni frú er hún sveik sinn eigin bónda“, „Af lauslátri konu hverrar líkami var klofinn í tvennt“.

Í fyrstnefndu sögunni fór betur en á horfðist fyrir konunni (sem naut hjálpar úrræðagóðrar móður sinnar þegar bóndinn kom óvænt heim og vildi leggast í rúm sitt sem var „upptekið“). Í síðastnefndu sögunni fór ekki eins vel, sbr. lokalínurnar: „Hér mega þær konur dæmi af draga er illa halda sinn hjúskap. Þær byggja sér ból með fjándanum í helvíti“ (bls. 566).

Ég bendi eiginmönnum og eiginkonum á að gleðja makann á jólunum með Ævintýrum frá miðöldum, stórbrotnu og bráðskemmtilegu efni.

Fleiri nýjar bækur hafa haldið fyrir mér vöku í haust, til dæmis Auðnaróðal Sverris Jakobssonar. Þar leiðir Sverrir okkur við hönd sér gegnum frumskóg Sturlungaaldarinnar.

Mér brá þegar ég heyrði stjórnmálamann segja í útvarpsviðtali: „Þeir sem eiga mesta nauð eiga að borga hærri skatta.“ Þannig hljómaði þetta. En eitthvað passaði ekki því það var sjálfur formaður Vinstri grænna (systir fyrrnefnds Sverris) sem talaði. Vandinn er sá að orðin „mesta nauð“ og „mestan auð“ eru nákvæmlega eins í framburði.

Mér brá líka í brún þegar ég rakst á orðið „mannnár“ í einni af fornsögunum okkar. Nútímaorð í fornum texta? Ég rýndi í letrið: Nei, þetta var mann-nár.

Skylt atriði sem kennarar gætu nýtt sér: Karlkynsnafnorðin „ekkla“ og „ekla“ hljóma nákvæmlega eins. En hvernig eru þau í nefnifalli eintölu? Svar í lok pistils.

Önnur spurning: Hvaða orð hljómar eins og orðið Eiríkur í þgf. ? Svar í lok pistils.

Stjórnmálaskýrandi: „Í kosningunum náði Samfylkingin sögulegu lágmarki.“ Góður frændi var ekki ánægður með orðalagið (en ég held hann hafi glaðst yfir útreið flokksins).

Í Þorsteins sögu hvíta segir að Þorsteinn hvíti „græddi fé í ákafa“. Þetta orðalag á enn við um marga. Við vonum bara að þeir gefi allt upp til skatts. Eva Benedikstdóttir líffræðingur og dósent við Háskóla Íslands benti mér á það sem hún kallaði „fyrsta undanskot Íslendings“. Frá þessu er sagt í 148. kafla Brennu-Njáls sögu þar sem Kári afsalaði sér fé sínu og eignaði Þorgeiri skorargeir og Helgu Njálsdóttur konu sinni; „mun það þá ekki vera upp tekið af þeim sökudólgum mínum.“

Svör við spurningum : ekkill, ekill, eyríki.

Baldur Hafstað bhafstad@hi.is