Hér hefur verið vikið að skjólkenningu samkennara míns, Baldurs Þórhallssonar, en hún er í fæstum orðum, að Íslendingar hafi alla tíð leitað að skjóli og fundið það ýmist í Noregi, Danmörku, Bretlandi eða Bandaríkjunum. Þótt þessi kenning sé hæpin, er hún ekki alröng, og hún hefur þann kost, að við hin tökum að velta fyrir okkur ýmsu úr Íslandssögunni.
Baldur telur Íslendinga hafa af fúsum vilja játað Noregskonungi skatt 1262. Það er eflaust rangt. Þjóðveldið leið undir lok af tveimur ástæðum. Gissur jarl hafði náð yfirráðum yfir mestöllu landinu, og hann beitti sér fyrir því að gangast konungi á hönd. Íslendingar hræddust líka einangrun vegna fjarlægðarinnar frá Norðurálfunni. En bændur voru þrátt fyrir það mjög tregir til að gerast þegnar konungs, ekki af föðurlandsást, heldur af ótta við skatta og aðrar álögur.
Hins vegar féll Hákon gamli Noregskonungur frá tveimur árum eftir að Íslendingar urðu þegnar hans. Hefði þjóðin tregðast við í nokkur ár, þá hefði þjóðveldið ef til vill ekki liðið undir lok. Og Íslendingar misstu af stórkostlegu tækifæri, af því að þeir voru undirgefnir erlendum konungi. Vegna nýrrar tækni, tví- og þrímastraðra skipa, sem siglt gátu beitivind, varð útgerð á Íslandsmiðum skyndilega arðbær skömmu eftir endalok þjóðveldisins. Mikil eftirspurn var eftir fiski úti í Norðurálfunni.
Hefði þjóðin verið sjálfstæð, þá hefðu hugsanlega risið hér fiskiþorp og jafnvel bæir. Íslendingar hefðu myndað félög með erlendum fiskimönnum og kaupmönnum, keypt skip erlendis og rekið útgerðir og verslunarfélög. Þess í stað bannaði konungur alla verslun við aðra en Björgvinjarkaupmenn þegar árið 1413. Hann brast í fyrstu afl til að loka landinu, en það tókst samt á dögum einokunarverslunarinnar 1602-1787. Þá svalt þjóðin þrátt fyrir nógan fisk undan ströndum.
Smáþjóðir eiga ekki að leita að skjóli, sem breytist í gildru, heldur reyna að stuðla að verslunarfrelsi. Þá geta þær nýtt kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar, eins og Jón forseti benti oft á. Hann vissi betur en Gissur jarl, hvað okkur er fyrir bestu.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is