Örlög þjóða eru ekki síður merkilegt rannsóknarefni en örlög einstaklinga. Í grúski mínu um smáþjóðir Norðurálfunnar hefur mér orðið starsýnt á tvenns konar samanburð um hina gömlu sambandsþjóð okkar, Dani. Annars vegar er hann við Eistlendinga. Lönd þjóðanna eru svipuð að stærð og náttúrugæðum og þær báðar vel menntaðar og duglegar. Engu að síður hefur gæfumunur þeirra verið mikill. Eistlendingar hafa öldum saman orðið að þola ágang og árásir voldugra grannþjóða. Árið 1880 voru þeir þó orðnir 880 þúsund talsins, en íbúar Danmerkur 1,7 milljónir eða tvöfalt fleiri. Eistlendingar urðu mjög illa úti í hamförum 20. aldar, og nú eru þeir aðeins 1,3 milljónir, en Danir 5,7 milljónir, rösklega fjórum sinnum fleiri. Mikil sorgarsaga býr að baki þessum tölum.
Hins vegar er samanburður Danmerkur og Írlands. Það eru engar ýkjur að þjóðarvitund Dana breyttist verulega eftir herfilegan ósigur fyrir Þjóðverjum í stríðinu 1864, þegar þeir misstu Slésvík og Holtsetaland. Þeir sættu sig eftir það við að vera lítil þjóð, hættu að láta sig dreyma um hernaðarafrek og einbeittu sér þess í stað að framleiðslu og viðskiptum. Einkunnarorð þeirra urðu vísuorð skáldsins Hans Peters Holsts: „Hvad udad tabes, det må indad vindes,“ Úti fyrir tapað, inni endurskapað. Á síðari hluta 19. aldar og fyrstu áratugi 20. aldar urðu stórstígar framfarir og ör hagvöxtur í Danmörku.
Þetta varð írskum sagnfræðingi, James Beddy, umhugsunarefni árið 1943. Hann spurði hvernig á því stæði að landsframleiðsla á mann væri um 50% meiri í Danmörku en á Írlandi þrátt fyrir ívið lakari landkosti en á eyjunni grænu. Svarið var að Danir byggju við frjálsara hagkerfi en Írar. Annar írskur sagnfræðingur, Kevin O'Rourke, tók málið nýlega aftur til rannsóknar og komst að sömu niðurstöðu. Hann bætir því við að Danir hafi verið samstæðari og sjálfstæðari en Írar. Frelsið hafi komið frá þeim sjálfum en á Írlandi frá Bretum. Gagnkvæmt traust hafi verið meira í Danmörku og sparnaður því meiri en þá um leið meira fjármagn tiltækt.
Tvær ályktanir blasa við: Þjóð er betur komin sjálfstæð en háð öðrum, og velgengni Dana er, þrátt fyrir endurdreifingarviðleitni jafnaðarmanna, ekki vegna hennar.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is