Tvær íslenskar kvikmyndir verða frumsýndar í Háskólabíói í dag; Nifl eftir Þór Elís Pálsson og Ferðin að miðju jarðar eftir Ásgrím Sverrisson. Þær eru í styttri kantinum en gera saman heila bíóferð.

Tvær íslenskar kvikmyndir verða frumsýndar í Háskólabíói í dag; Nifl eftir Þór Elís Pálsson og Ferðin að miðju jarðar eftir Ásgrím Sverrisson. Þær eru í styttri kantinum en gera saman heila bíóferð. Fjallkona og draugar í núinu

EM BETUR fer eru þær ólíkar," segir Þór Elís Pálsson um kvikmyndirnar tvær sem frumsýndar verða í Háskólabíói í dag. Hans mynd er draugasaga, auðvitað sönn, af loðnum manni á Meðallandssandi. Hún heitir Nifl og er hálftíma löng. Hin myndin, Ferðin að miðju jarðar, er 40 mínútur að lengd, útskriftarverkefni Ásgríms Sverrissonar frá virtum kvikmyndaskóla í Englandi. Hann lauk námi síðasta vor og vann að myndinni ásamt skólafélögum sínum. Stórar breskar sjónvarpsstöðvar, Stöð fimm og BBC, hafa myndina í deiglunni og sömu sögu er raunar að segja um Nifl Þórs. Þeir voru því galvaskir í vikunni báðir tveir og ánægðir að sýna nú íslenskum bíógestum afrakstur vinnu sinnar.

Þór Elís hefur raunar gert talsvert af því á undanförnum árum, í Sjónvarpinu þar sem hann er dagskrárgerðarmaður. Hann er myndlistamenntaður, frá Myndlista- og handíðaskólanum og síðar Jan von Eyck-akademíunni í Hollandi. Vídeólist eða skjálist varð þar hans sérstaka uppáhald og hefur talsvert nýst honum í tólf ára starfi hér heima. "En kvikmyndin hefur alltaf blundað í mér," segir hann, "verkin mín í myndlistinni voru oftast með einhverjum hætti á hreyfingu, í nýlistadeildinni komst ég á kaf í átta millimetra filmu og fór síðan í vídeódeild úti. En þetta er sem sagt frumraun mín á breiðtjaldi."

Til að segja sögur

Frelsið til að flakka úr einu í annað, úr umsjón í leikstjórn og myndbandi í kvikmynd, er meira hér á Íslandi en úti í heimi. "Ég hef verið að búa til einhverskonar bíómyndir síðan ég var smástrákur," segir Ásgrímur, "og pældi aldrei í þessu fyrr en ég kom út. Þar eru mjög skörp skil milli myndbands og kvikmyndar, menn velja annaðhvort. En auðvitað skiptir þetta ekki máli, munurinn er tæknin og hún á eftir að breytast myndbandinu í vil. Það gerist á nokkrum árum en eftir stendur aðalatriðið, sagan, jafngömul manninum og það sem gildir í þessum bransa. Við erum í honum til að segja sögur."

Þór Elís hefur rómantískar tilfinningar til filmunnar og talar um þá möguleika í dýpt og áferð sem hún gefur umfram myndbandið. Þótt menn séu farnir að færa af bandi yfir á filmu verði gæðin ekki sambærileg. Ekki enn, ítrekar Ásgrímur, og Þór segir muninn líka felast í sjálfri vinnunni. Maður vandi sig frekar með dýra filmu, en geti mikið leikið sér með myndbandstækni og leyft sér meiri groddagang.

Áferðin verði þar oft á tíðum grófari og það sé einmitt skemmtilegt. "Skjálist líkist málverki þar sem litnum er makað í skaphita," bætir Þór við, "en kvikmyndagerð er kannski eins og að höggva í stein, vandvirknisvinna sem krefst einbeitingar og útreikninga."

Veiðiferð í forneskju

Nifl er byggð á þjóðsögu sem fáir þekkja og gerist bæði á hennar tíma fyrir tvö hundruð árum og okkar tíma í dag, gær eða á morgun. "Þetta er eina íslenska þjóðsagan um loðinn mann," segir Þór Elís, "en aðrar þjóðir geyma margar sagnir um varúlfa og viðlíka ófreskjur. Einar Guðmundsson skráði þessa sögu og gaf líklega út kringum 1937. Mér fannst hún strax kjörið efni í kvikmynd þegar félagi minn Jón B. Guðlaugsson sýndi mér hana, við unnum handrit, fengum styrk úr Kvikmyndasjóði, frá fyrirtækjum og Sjónvarpinu og eitthvað setti ég sjálfur í þetta, úr því þú spyrð.

Allir leikarar og aðstandendur myndarinnar eru íslenskir atvinnumenn og ég er afar ánægður með þeirra starf. Það hefur kannski snúist um spurningar eins og hver er sannleikur þjóðsögunnar, hvernig verður hraundrangi að skrímsli og hvað gerist þegar við mætum því núna. Þegar nútímagæinn hittir Mela-Möngu á sandinum."

Það er einmitt þetta sem á sér stað í myndinni, tveim tímum og tveim heimum er teflt saman í rammíslenskri spennumynd, ungur maður á gæsaveiðum kemst í hann krappan eftir að hann hittir fyrir stúlku í auðninni. Hún reynist eins forn og félagar hennar sem þekkja ekki fjórhjóladrif, riffil eða farsíma. Þetta bítur ekki á þá gráa af ösku...

Þór Elís og hans fólk fór á vettvang fyrir tökur myndarinnar og ræddi við heimamenn. "Einn taldi sig hafa orðið var við þann loðna," segir Þór, "og elstu bændur mundu eftir kistubrotum uppúr sandinum. Þjóðsagan segir að loðið lík hafi fundist þarna á tímum Móðuharðindanna og verið jarðsett á Stöng við illan leik. Síðar lagðist jörðin í eyði. Sá loðni kominn á kreik og með honum flökkukonan Mela-Manga sem farið hafði í lifanda lífi um sveitirnar fótgangandi með prjónles í höndunum. Í okkar sögu er ungur maður afvegaleiddur á söndunum.

Aftur til uppruna manns

Ásgrímur er ekki síður þjóðlegur í sinni mynd, hann leitar í íslensk minni, í eigin uppruna og áleitna spurningu um uppruna manna yfirleitt. Um gildi þess að eiga sér jökul, fjall og jörð þar sem ræturnar liggja. Myndin segir af ungri leikkonu úr sjávarplássi, kominni til Reykjavíkur að freista gæfunnar. Henni þykir fráleit hugmyndin að taka við hlutverki fjallkonu í heimabyggðinni af móður sinni. En þegar þangað kemur gerist sitthvað sem fær hana til að skipta um skoðun. Fjallkona og ef til vill álfur, nútíma Íslendingar og sveitó, gamansemi og svolítill tregi. Ættjarðarblús með brosi útí annað.

Ásgrímur átti hugmyndina að handritinu og vann það ásamt skólabróður sínum í National Film and Television School, sem Ágúst Guðmundsson og Óskar Jónasson útskrifuðust einnig frá á árunum fyrri og síðari. Fleiri skólafélagar en handritshöfundurinn eiga svo hlut í mynd Ásgríms, en leikarar eru allir íslenskir og sömuleiðis höfundar tónlistar og leikmyndar.

"Ég hlýt að segja íslenska sögu," segir Ásgrímur, "í allri kvikmyndagerð, nema helst í Hollywood, eru menn að fjalla um það sem þeir þekkja best, sitt land og sitt fólk. Þess vegna þætti mér best að búa til bíómyndir á Íslandi, hugbúnaðurinn, sjáðu til, er hér."

Upphaflega ætlaði Ásgrímur að skrifa handrit um íslenska námsmenn í London og láta þá finna út hvar og hverjir þeir vildu vera, hvers virði uppruninn væri. Ef til vill stóð þetta of nærri honum sjálfum, handritsgerðin dróst að minnsta kosti og margt breyttist þegar hann tók til við hana af alvöru í fyrra. "Niðurstaðan er eiginlega þessi, að þú mátt ekki gleyma að hafa eitthvað með þér að heiman," segir hann. "Mátt ekki afneita upprunanum því hann gerir þig sterkari og án þess ég vilji móralísera, fortíðin hjálpar þér að takast á við framtíðina."

Þ.Þ.

ÞÓREY Sigþórsdóttir leikur í myndinni Nifl.

ÞRÖSTUR Guðbjartsson og Erlingur Gíslason á sandinum.

MAGNÚS Jónsson lendir í hrakningum í veiðiferðinni.

JÓHANNA Jónas, Jakob Þór Einarsson og átthagarnir.

DANSAÐ í Ferðinni að miðju jarðar.

ÞÓREY og Hjálmar Hjálmarsson, aðdáandi og sjoppuafgreiðslumaður.