Á Íslandi eru ófréttir algengar. Þær eru um, hvað hefði nærri því gerst, en gerðist ekki. Þetta má hafa til marks um almennt vandræðaleysi Íslendinga, enda eru blaðsíðurnar í annálum hamingjusamra þjóða tómar, eins og Montesquieu orðaði það.

Á Íslandi eru ófréttir algengar. Þær eru um, hvað hefði nærri því gerst, en gerðist ekki. Þetta má hafa til marks um almennt vandræðaleysi Íslendinga, enda eru blaðsíðurnar í annálum hamingjusamra þjóða tómar, eins og Montesquieu orðaði það.

Bankahrunið 2008 var hins vegar stórfrétt líkt og fundur Vesturheims og móðuharðindin. Í því leynast nokkrar ófréttir, sem eru þó fréttnæmar.

Ein er, að ekki munaði nema klukkustundum, að bankar yrðu uppiskroppa með seðla, eftir að Gylfi Magnússon dósent setti af stað bankaáhlaup með þeim ummælum í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins föstudaginn 3. október, að íslensku bankarnir væru gjaldþrota. Með neyðarlögunum 6. október og yfirlýsingum ráðamanna tókst að stöðva áhlaupið.

Önnur ófrétt er, að starfsfólki Seðlabankans skyldi með liðstyrk úr viðskiptabönkunum, Fjármálaeftirlitinu og Reiknistofu bankanna takast að reka greiðslumiðlun í landinu allt að því snurðulaust hina dimmu októberdaga, þegar allir bankarnir féllu og þeir Gordon Brown og Alistair Darling settu á okkur hryðjuverkalög og reyndu að rjúfa sambandið við umheiminn. (Þeir bönnuðu meira að segja JP Morgan að veita Seðlabankanum þjónustu, en því var ekki hlýtt.) Þetta fólk lagði nótt við dag og vann kyrrlátt kraftaverk.

Þriðja ófréttin er, að aðfaranótt 22. janúar 2009 var piparúði lögreglunnar á þrotum, en með honum mátti halda æstum mannfjölda í skefjum án blóðsúthellinga. Hefðu óeirðaseggir vitað það, þá hefði voðinn verið vís. En í sama mund blöskraði venjulegum borgurum ofbeldið, og tóku þeir sér stöðu með lögregluþjónunum, sem vörðu Alþingishúsið og Stjórnarráðið af stillingu og festu.

Hetjur þessara ófrétta eru hvatamennirnir að neyðarlögunum, starfsfólk Seðlabankans ásamt liðstyrk sínum og lögregluþjónarnir æðrulausu. Eflaust eru líka til þrjótar í þessum ófréttum, en á þá geta aðrir bent.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is