Fasteignamatið er lítið annað en skattstuðull

Fréttir af nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands eru árviss viðburður. Fyrir flesta eru þessar fréttir lítið tilhlökkunarefni því að yfirleitt snúast þær um að matið hafi hækkað og það er ávísun á hærri fasteignagjöld.

Sú var raunin að þessu sinni. Húsvíkingum hefur ugglaust brugðið í brún því að fasteignamat íbúða á Húsavík hækkaði um 42,2% fyrir árið 2018. Húsavík sker sig vissulega úr, en almennt hækkaði matið talsvert. Á höfuðborgarsvæðinu var hækkunin víðast hvar á bilinu 15 til 20%. Í fyrra var hækkunin að meðaltali 7,8%, en í ár er hún 13,8%. Það er því sú hækkun fasteignagjalda, sem eigendur húsnæðis mega búast við nema sveitarfélög ákveði að lækka skattinn.

Fasteignamatið er lítið annað en skattstuðull. Ekki mælir það markaðsverð. Kom meira að segja fram í fréttum að nýja matið væri 10% undir markaðsverði. Matið er þegar upp er staðið leið til þess að hækka álögur án þess að því fylgi pólitískur fórnarkostnaður. Hækkunin fellur af himnum ofan.

Hækkunin, sem húsnæðiseigendur eiga nú í vændum, verður þeim mun sérkennilegri þar sem hún verður margfalt hærri en verðbólgan um þessar mundir.

Á viðskiptasíðu Morgunblaðsins í gær kom fram óánægja fasteignafélaga með þessa auknu skattbyrði. Segir forstjóri Regins, Helgi S. Gunnarsson, að fyrir fáeinum árum hafi 11% af leigutekjum farið í fasteignagjöld, en nú megi búast við að hlutfallið verði allt að 17%.

Það er tímabært að endurskoða hvernig álagningu fasteignagjalda á borgarana er háttað.