18. nóvember 1994 | Minningargreinar | 2063 orð

Una Guðmundsdóttir ­ viðb Unu Guðmundsdóttur verður varla betur lýst en

Una Guðmundsdóttir ­ viðb Unu Guðmundsdóttur verður varla betur lýst en Guðmundur A. Finnbogason gerir í minningargrein um hana í Morgunblaðinu. Hin langa ævi hennar Unu er nú liðin tíð, sem verður vel í minnum höfð hjá öllum þeim fjölmörgu, nær og fjær er nutu þeirrar sönnu ánægju að kynnast henni og hennar æviferli. Hún Una var engin meðalmanneskja þótt líkamsstærð hennar væri tæpast í meðallagi. Það sem inni bjó var svo miklu stærra, var sannarlega stór kona. Hún Una hafði í ríkum mæli fengið í vöggugjöf marga af þeim bestu kostum sem mönnum eru gefnir. Mjög góða greind, frábært minni, dulræna hæfileika, dyggðuga lífshugsjón og hlýlegt hjartalag. Úr þessum guðsgjöfum vann hún Una með heiðri og sæmd, þann gilda þráð sem hún gerði að haldreipi þeirrar vináttu og þeirrar virðingar sem hún naut í svo ríkum mæli á sinni löngu lífsævi.

Una var að eðlisfari mjög félagslynd kona. Hún sóttist ekki eftir mannvirðingum á þeim vettvangi, en þeir sem þekktu hana hvöttu hana til þátttöku í félagsstörfum í Garðinum. Þeirra á meðal voru sæmdarhjónin Einar Magnússon og Matthildur Finnsdóttir, sem bæði önnuðust kennslu við Gerðaskóla og lögðu um langt skeið drjúgan skerf í menningar og félagslíf byggðarinnar. Þegar Einar svo hugðist láta af embætti sem gæslumaður barnastúkunnar Siðsemdar, var leitað til Unu, sem ekki skoraðist undan því að annast það hlutverk, sem hún gegndi síðan samfleytt í tvo áratugi. Una, sem þá var nærri fertugu, gekk í stúkuna sama dag og hún tók við embætti gæslumanns, eða 26. okt. l934, en lét af störfum 11. des. l954. Þorsteinn Gíslason, þáverandi skólastjóri, frá Krókvöllum, og seinna skipstjóri, tók við starfi Unu og gegndi því í sjö ár, eða þar til hann flutti til Reykjavíkur, en allan þann tíma sat Una fundi í stúkunni sem annar gæslumaður og einnig í fimm ár eftir að Sigrún Oddsdóttir tók við gæslumannsembættinu.

Á sama fundi og Una var vígð í embættið, gekk í barnastúkuna Steinunn Steinsdóttir frá Sólbakka. Tók hún að sér embætti annars gæslumanns. Steinunni var margt til lista lagt, var meðal annars góðum tónlistargáfum gædd. Og ásamt því að taka virkan þátt í starfinu með Unu, annaðist hún söng og undirleik á fundunum. Einnig stofnaði hún kvartetta og jafnvel kóra innan stúkunnar, sem lífgaði mjög upp á félagslífið. Samstarf hennar og Unu var einkar farsælt og bindindishreyfingunni til mikillar eflingar. Líkast til hefur merki Reglunnar aldrei risið hærra í Garðinum, en á meðan þeirra beggja naut við, sem varð því miður allt of stutt. Steinunn lést í ársbyrjun 1944, langt um aldur fram og var öllum sem hana þekktu mikill harmdauði. Skarð hennar var um tíma ófyllt, sérstaklega hvað söng og tónlist snerti, en maður kemur í manns stað. Auður Tryggvadóttir gekk til liðs við Unu og tók að sér þá hlið mála í barnastúkunni og gegndi því starfi yfir þrjá áratugi, af einstakri alúð.

Gáfur Unu og hæfileikar nutu sín mjög vel á meðal yngri kynslóðarinnar í barnastúkunni: Henni er það öðrum fremur að þakka hvað margir bindindismenn eru í Garðinum. Auk þess að þjóna markmiði reglunnar um að afneita tóbaki og áfengi, reyndi hún ávallt að laða fram það besta sem í hverri barnssál bjó, bæði á stúkufundum og utan þeirra. Fundir voru mjög þétt yfir vetrarmánuðina og öllum jafn mikið tilhlökkunarefni. Una var glögg á hæfileika hvers og eins og reyndi að þroska þá og efla í barnastúkunni. Dagskrá fundanna var því að jafnaði mjög fjölbreytt, með sjálfvöldu efni barnanna, upplestri, leikþáttum, söng og ýmsum þrautum og leikjum. Allt vandlega æft og undirbúið, annaðhvort heima hjá flytjendum eða og oftast þá í Sjólystinni hjá Unu, en þangað voru allir velkomnir til skrafs, ráðagerða og æfinga. Una taldi aldrei eftir sér þær stundir sem fóru í að koma til móts við æsku byggðarlagsins. Stúkuafmælishátiðirnar voru hápunktur hins gróskumikla starfs. Þangað sóttust fullorðnir eftir að koma, ekki síður en börnin, enda var það mál manna að vandaðri dagskrár hafi sjaldan verið á samkomum hér, en á meðan Una var gæslumaður barnastúkunnar.

Mörgum hefur reynst erfitt að halda börnum við efnið þegar stór hópur er kominn saman, en þetta reyndist henni auðvelt, þótt fundina sæktu allt að því 70­80 börn og unglingar. Sterkur persónuleiki hennar og gott skipulag á fundum, þar sem alltaf var eitthvað fyrir stafni, hélt börnunum við efnið, alveg óþvingað. Sá boðskapur sem hún flutti börnunum og efnið sem hún valdi var ávallt mannbætandi, sem og það efni, sem hún samdi sjálf, bæði sögur og leikþættir, en þar var framlag hennar meira en almennt er vitað. Þættirnir um Pétur litla, Daníel frænda og Salóme í bæ og sveit voru vel samdir og yngri kynslóðin kunni sannarlega að meta þá.

Þótt Una hefði ekki verið langskólagengin, nam hún erlend tungumál sér til gagns. Hún þýddi sögur og sagnir úr dönsku, sem síðan var flutt á stúkufundunum. Leikþáttunum stjórnaði hún oftast sjálf og fyrir kom að hún brá sér á leiksviðið, en ekki nema því aðeins að mikið lægi við, eins og á 50 ára afmæli barnastúkunnar, þegar Sigurður Jóhannesson (seinna í Leikfélagi Kópavogs) veiktist daginn fyrir afmælið, en hann átti að leika litla Pétur. Nú voru góð ráð dýr, en Una gekk í hlutverkið við mikinn fögnuð hátíðargesta. Lét meira að segja hafa sig í að syngja, sem var ekki hennar sterka hlið. Mér er líka ávallt minnisstæð ein vísan sem hún söng, en hún talar sínu máli um hvað hún gat ort skemmtilega, en með þá hæfileika fór hún fremur dult. Vísan sem Pési litli söng var svona:

Ég syng nú þetta litla ljóð

og lag sem ég hef búið.

Frissi, ég hef falleg hljóð,

en finnst þér lagið snúið.

Þegar Una tók við gæslumannsstarfinu af Einari Magnússyni vakti ræða hennar mikla athygli. Fram til þess tíma hafði hún lítið látið að sér kveða í málflutningi á mannamótum, en þarna flutti hún leiftrandi ræðu, sem hreif fundarmenn og það án þess að hafa einn staf skrifaðan til að styðjast við. Alla tíð talaði hún blaðalaust og alltaf var eftir orðum hennar tekið, enda sanngjörn og réttsýn, leitandi þess góða í þessum heimi. Mál hennar var meitlað, röddin mild og skýr. Aldrei hækkaði Una röddina, nema ef henni fannst á lítilmagnann hallað. Ekki vildi Una þakka sér þau ítök sem barnastúkan átti meðal ungdómsins í Garðinum, heldur væri æskan það góð að upplagi að vandalítið væri að starfa með henni.

En bindindishreyfingin var ekki eina félagið sem naut krafta Unu. Hún var ein af stofnendum kvennadeildar slysavarnafélagsins í Garðinum og ritari þess í aldarfjórðung, eða frá stofndeginum 10. mars 1934 til 14. jan. 1959, að hún baðst undan endurkosningu. Fundargerðirnar bera með sér fallega rithönd Unu og gott vald á móðurmálinu. Una vildi veg deildarinnar sem mestan svo að hún gæti forðað mönnum frá slysum og dauða. Una kvað mega rekja áhuga sinn til þess atviks sem gerðist í Gerðavörinni þegar faðir hennar sem var á áraskipi, sem fórst þar í lendingu. Skipverjana rak fljótt á land, en enginn kunni þá neinar lífgunaraðferðir, sem líklega hefðu getað bjargað þeim.

Af öðrum félasstörfum Unu má nefna framlag hennar til leiklistar í byggðarlaginu. Auk þess sem áður er getið um starf hennar í barnastúkunni stjórnaði hún hópi áhugafólks um leiklist, sem hún gaf nafnið Litla leikfélagið. Voru það ungmenni sem tekið höfðu ástfóstri við Thalíu í stúkunni, en vildu gjarnan halda áfram eftir að bernskudögunum lauk. Hópurinn hélt saman í nokkur ár, eða þar til hann dreifðist, eftir því sem skyldur lífsins kölluðu menn vítt og breitt. Uppfærslurnar báru með sér vandað yfirbragð enda var leiklist Unu mjög eðlislæg, eða öllu heldur meðfæddir hæfileikar. Nafn félagsins sem starfað hefur allt fram undir þetta, Litla leikfélagið, er fengið frá Unu. Mest starfaði Una með Litla leikfélaginu efir lát Stefaníu. Sjálf sagði Una að samneytið við unga fólkið hafi hjálpað henni mest við að yfirstíga harminn.

Una var kona mjög víðlesin og bjó yfir miklum fróðleik, sem hún miðlaði öðrum af. Hún skildi gildi prentaðs máls og henni fannst stóru bókasafni sínu best borgið í eigu íbúanna og það er nú uppistaðan í bókasafni Gerðahrepps. En Una hafði haft fleiri bækur í návist sinni en sínar eigin. Bókasafn Ungmennafélagsins Garðars var til húsa hjá Unu í marga áratugi, á risloftinu. Það er nú liðin tíð. Eftir lát hennar stóð húsið autt um sinn. Menn vonuðu að það yrði varðveitt til minningar um hana og sem minjar um byggingarmáta Garðmanna um aldamótin. Ekki varð mönnum að þeirri ósk sinni, en þegar til stóð að rífa það, keypti Baldvin Njálsson húsið og heldur því að mestu í sinni gömlu mynd.

Til handa var Una engu síðri en hugans. Gat saumað hvaða flík sem var. Handbragð hennar bar ávallt vitni um mikla lagni. Hún átti hárklippur og snyrti margan kollinn á meðan ferðir til löggiltra hárskera voru fáfarnar. Hún bjó iðulega um sár manna í læknisleysinu. Fáir báru meiri virðingu fyrir öllu lífi en Una. Börn og unglingar komu oft með særða fugla til hennar. Hún hlúði að þeim og hjúkraði, oftast með þeim árangri að eftir fáa daga flugu þeir alheilbrigðir út í náttúruna. Það var gleðileg sjón fyrir Unu og ekki laust við að tár blikuðu á hvörmum hennar.

Una var góðum námsgáfum gædd og hún var aðeins l6 ára, þegar hún fór að kenna börnum, einkum þeim sem voru undir skólaskyldualdri, sem þá var miðaður við 10 ár. Auk þess var komið með til hennar börn sem áttu bágt með að læra í skólanum. Þennan sérskóla annaðist hún í 20 ár. Una stundaði einnig algenga vinnu, heyskap, fiskþurrkun og pökkun á meðan henni entust kraftar. Hún gekk þó aldrei heil til skógar eftir byltu sem hún fékk barn að aldri, ­ féll úr rólu og meiddist illa í baki.

"Þekkirðu manneskju í Garðinum sem Una heitir?" spurði læknir einn undirritaðan. Varlega var farið í svarið, því ekki var gott að greina hverju læknirinn var að leita eftir. "Þetta er mjög merkileg manneskja," bætti hann við "því til mín hefur komið fólk frá henni með sjúkdómsgreiningar og þær hafa aldrei brugðist. Síðan hef ég skoðað mín fræði í nýju ljósi og afneita því ekki lengur með öllu sem nefnt er huldulækningar". Við þessa setningu losnaði svolítið um málbeinið á þeim sem spurður var, enda verið heimagangur hjá Unu frá blautu barnsbeini og efaðist ekki um dulræna hæfileika hennar, því sannari og fölskvalausari persóna væri vandfundin. Síðan voru rakin nokkur atvik og þar á meðal eitt sem tengdist 75 ára afmæli hennar. Nokkrum dögum fyrir það var handriti að viðtali við Unu skilað heim til Jóns Birgis Péturssonar, fréttastjóra Vísis, þar sem hann lá í rúminu og gat sig lítið hreyft vegna bakveiki. Eftir að hafa lesið handritið sagði hann: "Hvernig væri að hún reyndi að hjálpa mér?" Höfundur handrits fór rakleitt til Unu, sem bað um nafn og heimilisfang og lofaði að gera sitt besta. Um morguninn þegar hringt var til Jóns, var hann farinn í vinnuna, stálsleginn. Kvalirnar hurfu allt í einu um nóttina og bakveiki hefur ekki þjáð hann síðan, að því best er vitað.

Fleiri dæmi mætti nefna, en þessi þáttur í persónuleika Unu, sá dulræni, er sá merkasti, eins og reyndar má lesa í bókinni Völva Suðurnesja, sem Gunnar M. Magnúss ritaði. Einnig geta þau hundruð manna sem Una veitti hjálp, vitnað um hæfileika hennar á þessu sviði. Þess vegna var oft gestkvæmt á heimili hennar, sérstaklega hin seinni ár og oft hringdi síminn. Hún lét það ekki á sig fá. Reyndi að hjálpa öllum með aðstoð framandi afla. Hjá Unu var ekkert kynslóðabil. Í hús hennar voru allir jafn velkomnir, ­ háir sem lágir. Segja má að eitt mesta lán hennar hafi verið góðir nágrannar, sem oft voru henni innan handar þegar á þurfti að halda og hún sagðist aldrei geta fullþakkað þeim fyrir alla aðstoðina og tiltók þá Erling Eyland og Guðrúnu Gísladóttur, Finnboga Bjarnason og Málmfríði Jóhannsdóttur, og Hrein Guðbjartsson og Margréti Sæbjörnsdóttur.

Una vann sér traust og virðingu allra þeirra sem henni kynntust og ævilanga vináttu sýndu henni börnin sem störfuðu með henni í barnastúkunni. Segja má að um tíma hafi öll börn í Garðinum frá 7­l4 ára verið börn hennar, á meðan hún var gæslumaður stúkunnar. Hin seinni ár hrjáði sykursýki Unu og dvaldi hún því oft á sjúkrahúsum. Um sinn dvaldist hún á Garðvangi eða þar til hún lést. Una markaði djúp spor í menningarlíf Gerðahrepps, sem seint mun fenna í.

Magnús Gíslason.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.