Á æfingu Sigurður Ragnar Eyjólfsson ræðir við lið sitt með aðstoð túlks.
Á æfingu Sigurður Ragnar Eyjólfsson ræðir við lið sitt með aðstoð túlks. — Ljósmynd/Guðmundur Ingi Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Guðmundur Ingi Jónsson gijon12@gmail.com Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, tók í byrjun ársins við starfi sem þjálfari Jiangsu Suning í efstu deild kvenna í Kína.

Viðtal

Guðmundur Ingi Jónsson

gijon12@gmail.com

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, tók í byrjun ársins við starfi sem þjálfari Jiangsu Suning í efstu deild kvenna í Kína.

Sigurður og Daði Rafnsson, sem er aðstoðarþjálfari liðsins, tóku við liðinu eftir erfitt tímabil í fyrra en þá náði það með miklum naumindum að halda sér uppi í lokaleik síðustu leiktíðar.

Sigurður var búsettur í Noregi á síðasta ári, þar sem hann gegndi hlutverki aðstoðarþjálfara Lilleström, en þar var Rúnar Kristinsson þá við stjórnvölinn.

„Ég var heima í desember og frétti frá starfsmanni KSÍ að einhverjir Kínverjar væru að reyna að ná í mig. Ég hafði komið til greina fyrir tveimur árum sem einn af þremur kostum til að taka við starfi landsliðsþjálfara kvenna þar í landi og ég held að það hafi verið stór þáttur í því að nafn mitt bar á góma í tengslum við þetta starf. Ég var laus frá skyldum mínum gagnvart Lilleström og alveg opinn fyrir því að skoða hvað Kínverjarnir höfðu upp á að bjóða. Ég kynnti mér kínverska kvennafótboltann töluvert í ferlinu fyrir tveimur árum og vissi þannig heilmikið um boltann þar áður en ég samdi við Jiangsu Suning.“

Sigurður hafði aldrei komið til Asíu og var fyrsta ferðin þangað farin til þess að undirrita samning.

„Kínverjar nálgast samninga allt öðruvísi en við erum vön. Í Evrópu er samningur í þróun í ákveðinn tíma og svo klárast hann þegar báðir aðilar hafa unnið með þætti sem krefjast breytinga. Í Kína lá fyrir samningur í byrjun, sem þeir lögðu grunninn að, og svigrúm til að breyta eða laga var ekki mikið. Við þurftum bara að taka afstöðu hvort við vildum bara slá til og fylgja þeirra leið í ferlinu. Eftir á að hyggja hefur þetta ekki verið slæmt fyrir okkur og þeir hugsa meira um að byggja upp traust í stað þess að einblína á samninginn,“ sagði Sigurður Ragnar.

Síðan Sigurður og Daði tóku við liðinu hefur árangurinn verið framar vonum og liðið er sem stendur í 3. sæti efstu deildar og vann að auki kínversku bikarkeppnina nú i vor með glæsibrag.

Æft af fullum krafti í 42 stiga hita

Við fylgdumst með æfingu liðsins, sem hófst í fundarherbergi þar sem Sigurður fór meðal annars yfir fyrirhugaða æfingaferð til Noregs. Sigurður studdist við glærur og dygga aðstoð túlks liðsins. Eftir um hálftíma fund var farið út á æfingasvæðið og var rúmlega 40 stiga hiti þennan dag. Í leikmannahópnum eru aðallega kínverskar konur, margar þeirra landsliðskonur, og tvær stelpur frá Brasilíu og Noregi.

„Ég myndi lýsa kínverskum leikmönnum sem vel spilandi og þær halda bolta vel. Styrkur okkar liðs er einmitt að halda boltanum og spila honum fram, alveg strax frá markmanni. Þær skortir meiri líkamlegan styrk og það er einmitt þáttur sem við vinnum reglulega með. Við reynum að koma með smá af íslenska baráttuandanum inn í liðið og vinna með það að vera í návígum.“

Sigurður segir gott að vinna með kínversku leikmönnunum, þær hlusti vel, taki ráðleggingum og séu meðvitaðar um mikilvægi þess að bæta hina ýmsu þætti til að ná árangri. „Þær búa allar á æfingasvæðinu þar sem þær borða, æfa og sofa og hafa sumar búið þar síðan þær voru fimmtán ára. Þær fara vel með sig enda getur það skapað þeim áhyggjulaust líf ef þær ná langt í fótbolta því bónusar eru miklir ef þær vinna. Þá eru launin þeirra núna í kjölfar góðs árangurs Jiangsu Suning undanfarna sex mánuði um það bil tíu sinnum hærri en hinn almenni launamaður fær í Kína. Og ef þær vinna mót getur bónus jafnvel verið í formi íbúðar,“ bætir Sigurður við.

Oft heyrir maður íslenska leikmenn tjá sig um lág laun í kvennaboltanum og ekki sé hægt að safna inn á bankabókina. En það er ekki raunin í Kína, þar ná erlendir leikmenn að safna verulegum upphæðum. Margir af bestu leikmönnum heims hafa samband og spyrjast fyrir um boltann þar og hafa áhuga á að spila en það þarf oft að segja nei því að hér mega aðeins tveir leikmenn spila. En þeir erlendu leikmenn sem spila hér eru með þeim launahæstu í kvennaboltanum á heimsvísu.

Kínverskir leikmenn sem vilja vera atvinnumenn þurfa að taka þá ákvörðun mjög snemma og minnka skólagönguna. Þegar þeir eldast flytja þeir inn í æfingamiðstöð, eins konar heimavist þar sem þeir hafa allt sem til þarf og frítt húsnæði og fæði. Ferillinn er þó oft ekki langur, þar sem í Kína er þrýsta foreldrar almennt mikið á börn sín að eignast fjölskyldu og börn, sem gerir það að verkum að sumir leikmenn leggja skóna á hilluna þegar þær eru á miðjum þrítugsaldri.

Kína í framtíðinni

Liðin í Kína eru almennt í eigu mjög ríkra einstaklinga eða fyrirtækja.

„Kína á mikla möguleika á að komast mun framar með bæði landsliðin sín. Til þess þurfa Kínverjar að bæta þjálfun þeirra yngstu og þeir eru reyndar nú þegar byrjaðir að sinna þessum þætti. Það er hafið risastórt átak, sem felst meðal annars í því að sækja erlenda þjálfara til að kenna og leiðbeina kínverskum þjálfurum. Þeir hafa auðvitað með sér gríðarlegan fólksfjölda og undanfarin ár hafa verið settir miklir fjármunir í fótboltann. Þeir eru mjög staðráðnir í að ná lengra og reyna að sjá og læra hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar,“ segir Sigurður Ragnar.

Margir klúbbar í Kína eru í samstarfi við klúbba í sterkum deildum í Evrópu, en margir Kínverjar eiga félög í Evrópu, sem gerir samstarf enn auðveldara. Það eru til að mynda sömu eigendur að Inter Milan á Ítalíu og Jiangsu Suning.

Góður túlkur lykilatriði

Sigurður hefur túlk sem sér um öll samskipti við leikmenn bæði utan og innan æfingasvæðisins. Hlutverk túlks getur verið vandasamt og snýst ekki einungis um að þýða skilaboð frá þjálfara til leikmanna heldur er þýðingarmikið að túlkurinn nái að koma þeim til skila með þeim tilfinningum og áherslum sem þjálfari þarf að beita hverju sinni í samskiptum við leikmenn.

„Minn túlkur er mjög góður í að skynja áherslur mínar; þegar ég tala hátt talar hann hátt og þegar ég tala ákveðið talar hann ákveðið. Við þessar aðstæður þar sem ekki einungis tungumálið er gjörólíkt heldur einnig gríðarlegur menningarmunur er túlkurinn einfaldlega rödd þjálfarans. Minn túlkur var til dæmis veikur í viku og mér fannst það mjög óþægilegt,“ segir Sigurður Ragnar.

Ekki fjölskylduvænt

Það er ekki mjög fjölskylduvænt að vera atvinnumaður í knattspyrnu í Kína, hvort sem leikmenn eða þjálfarar eiga í hlut, og það er heilmikil fórn fyrir leikmenn með fjölskyldu og börn. Það að færa sig um set alla leið til Kína er ekki eins og að fara bara til Norðurlandanna; menningin er gjörólík og fjarlægð vitanlega gríðarlega mikil.

Sigurður og Daði aðstoðarþjálfari eru einir í Kína, fjölskylda Sigurðar er í Noregi en fjölskylda Daða er heima á Íslandi. „Þetta getur oft verið erfitt, en við látum það ganga upp. Það eru hlé og frí sem gefast yfir árið og þá hefur okkur tekist að nýta tímann vel. Ég hef farið til Noregs í bæði lengri og skemmri fríum og eins hafa þau komið hingað þegar það hafa verið frí í skólum. Þetta er auðvitað það sem er hvað erfiðast við starfið og heilmikil fórn. En á hinn bóginn er þetta einstakt tækifæri, að byggja upp lið sem vill fara á toppinn í Kína og vonandi verða eitt af þeim betri í Asíu. Ég er með góðan samning og við fjölskyldan tókum þessa ákvörðun í sameiningu og þetta hefur fram að þessu gengið mjög vel.“ segir Sigurður Ragnar.

Sigurður hefur starfað í nokkrum löndum en Kína er gjörólíkt öllu sem hann hefur kynnst.

„Kínverjar er ótrúlega gestrisnir. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af neinu, við erum keyrðir og sóttir af bilstjóra allt sem við förum. Maturinn er jú töluvert öðruvísi og það hefur tekið tíma að venjast honum, ég hef til dæmis lést mjög mikið,“ segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson í léttum tón.