Umdeild Myndin á Sjávarútvegshúsinu sem málað var yfir.
Umdeild Myndin á Sjávarútvegshúsinu sem málað var yfir. — Morgunblaðið/Golli
Vegglistaverk á Sjávarútvegshúsinu við Skúlagötu í Reykjavík hefur verið mikið á milli tannanna á fólki. Málað var yfir verkið í síðasta mánuði og í kjölfarið var deilt um ástæður þess og hver bæri ábyrgð.

Vegglistaverk á Sjávarútvegshúsinu við Skúlagötu í Reykjavík hefur verið mikið á milli tannanna á fólki. Málað var yfir verkið í síðasta mánuði og í kjölfarið var deilt um ástæður þess og hver bæri ábyrgð.

Athygli vakti í fréttaflutningi RÚV af málinu að vitnað var í tölvupósta Hjörleifs Guttormssonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, til embættismanna borgarinnar. Kvaðst RÚV hafa póstana undir höndum og vitnaði orðrétt í Hjörleif.

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, staðfestir að hann hafi látið RÚV póstana í té að ósk fréttamanns.

„Samkvæmt áliti lögmanns hjá embætti borgarlögmanns falla þessir tölvupóstar undir ákvæði upplýsingalaganna og því rétt að afhenda þá ef um er beðið þar sem þeir innihalda engar upplýsingar sem stangast á við ákvæði laganna. Þannig mat ég málið þegar beiðni fréttamanns Ríkisútvarpsins var send. Í fréttum af málinu hafði verið vísað til bréfaskipta á milli aðila. Ekki var um bréfasamskipti að ræða heldur tölvupósta. Það var því rétt að afhenda póstana þegar formleg beiðni kom um það frá fréttamanninum,“ segir Bjarni.

Bjarni kveður sig ekki reka minni til þess að svipað mál hafi komið upp, að erindi íbúa til borgaryfirvalda rati í fjölmiðla með þessum hætti. Hins vegar megi borgarbúar eiga von á því að það geti gerst.

„Já, ef þú sendir borginni erindi sem þetta máttu eiga von á því að það geti birst opinberlega.“

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að við opna og gagnsæja stjórnsýslu þurfi að huga að sjónarmiðum um meðalhóf. Hversu miklar upplýsingar þurfi til dæmis að veita við afgreiðslu mála. „Var í þessu tilviki hægt að komast að sömu niðurstöðu með vægari aðgerðum? Til dæmis með því að upplýsa ekki hvaða einstaklingur kom með upphaflega ábendingu? Það er alltaf verið að óska eftir opinni og gagnsærri stjórnsýslu en því geta fylgt fylgikvillar sem þessi.“

hdm@mbl.is