Guðríður Arnardóttir
Guðríður Arnardóttir — Styrmir Kári
Eftir Guðríði Arnardóttur: "Það er engin sanngirni í því að opinberir starfsmenn séu lægra launaðir en félagar þeirra með sömu menntun, reynslu og ábyrgð á almennum markaði."

Morgunblaðið hefur fjallað um stöðuna á íslenskum vinnumarkaði að undanförnu og horfur með haustinu. Það hefur komið fram hjá Ásgeiri Jónssyni, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, og svo Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, að hvergi hafi gefist vel að opinberir starfsmenn leiði launahækkanir. Það er farsælla að útflutningsgeirinn semji fyrst með hliðsjón af samkeppnisstöðu þjóðarinnar og þær hækkanir gangi síðan til annarra hópa.

Auðvitað er þetta rétt. Rammasamkomulagi um launaþróun (stundum kallað SALEK-samkomulag) sem þorri launþega undirgekkst haustið 2015 var ætlað að tryggja skynsamlegar launahækkanir sem samfélagið stendur undir án þess að þær brenni upp í verðbólgu.

En það var ástæða fyrir því að Kennarasamband Íslands og BHM voru ekki tilbúin að taka þátt í slíku rammasamkomulagi að óbreyttu. Slíkt samkomulag felur í sér sömu launahækkanir til handa öllum launþegum og festir þannig í sessi þann launamun sem var til staðar í upphafi vegferðarinnar.

Í fyrsta lagi var upphafsreitur SALEK-samkomulagsins valinn haustið 2013 þegar launastaða kennara var með slakasta móti í samanburði við aðra hópa. Og í öðru lagi hefur lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna verið breytt og kerfin jöfnuð á milli almenna og opinbera markaðarins svo nú búa opinberir starfsmenn ekki lengur við betra lífeyriskerfi en almenni markaðurinn.

Fram að þessu hafa betri lífeyrisréttindi þótt réttlæta þann viðvarandi launamun sem er á milli aðila á almennum og opinberum markaði. Með breyttum lögum um lífeyrissjóði stóð til af hálfu stjórnvalda að jafna samhliða laun á milli markaða. Það þýðir, með öðrum orðum, að opinberir starfsmenn þurfa að hækka meira í launum en launþegar á almennum markaði.

Það er engin sanngirni í því að opinberir starfsmenn séu lægra launaðir en félagar þeirra með sömu menntun, reynslu og ábyrgð á almennum markaði. Það hljóta allir aðilar vinnumarkaðarins að sjá.

Við, í forystu opinberra starfsmanna, ætlum okkur ekki að leiða launaþróun í landinu. Við viljum ná fram sanngjörnum kjarabótum fyrir okkar fólk, við viljum samkeppnishæf laun. Með því að hækka laun opinberra starfsmanna umfram aðra verður loksins girt fyrir þann fólksflótta sem á sér stað úr opinberri þjónustu. Þegar vel árar á vinnumarkaði sækja opinberir starfsmenn í önnur betur launuð störf. Nú er nóg komið af slíku og tímabært að leiðrétta þetta áralanga óréttlæti.

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara.