Velgengni Daníel Bjarnason.
Velgengni Daníel Bjarnason. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Fílharmóníusveit Los Angeles frumflutti á þriðjudag nýjan fiðlukonsert eftir Daníel Bjarnason undir stjórn Gustavo Dudamel, en einleikari var Pekka Kuusisto. Frá greinir á vef LA Times .

Fílharmóníusveit Los Angeles frumflutti á þriðjudag nýjan fiðlukonsert eftir Daníel Bjarnason undir stjórn Gustavo Dudamel, en einleikari var Pekka Kuusisto. Frá greinir á vef LA Times . Þar kemur fram að Dudamel hefur frumflutt nokkurn fjölda verka Daníels, þeirra á meðal Blow Bright sem var á efnisskránni í tónleikaferðalagi sveitarinnar um Norður-Ameríku 2014. Í samtali við LA Times viðurkennir Daníel að gott samstarf hans við Fílharmóníusveit Los Angeles hafi haft gríðarlega góð áhrif á feril hans.

Upphaflega stóð til að ofangreindur fiðlukonsert, sem pantaður var af annars vegar Fílharmóníusveit Los Angeles og hins vegar Sinfóníuhljómsveit Íslands, yrði frumfluttur á tónlistarhátíðinni Reykjavík festival í apríl en það frestaðist vegna anna Daníels, sem var á sama tíma að ljúka fyrstu óperu sinni, Brothers , sem frumflutt var í Danmörku í síðustu viku.

Pekka Kuusisto, sem frumflutti fiðlukonsertinn, er góður vinur Daníels. Tónskáldið segist við samningu verksins hafa verið innblásinn af forvitni og leikgleði Kuusisto. „Það var bara eitthvað sem gerðist. Hann á auðvelt með að spinna og er alltaf að leita að nýjum sjónarhornum.“ Í viðtalinu fer Daníel ekki dult með að árið hafi verið annasamt og að hann hlakki til að slaka aðeins á, hvíla tónlistarskrifin örlítið og snúa sér í auknum mæli að hljómsveitarstjórnun með haustinu.