Fjölbreytni Menningu, listir, fólk og dýr er að finna í Mosfellsbæ um helgina. Heilsubærinn býður upp á margs konar hreyfingu og skemmtun.
Fjölbreytni Menningu, listir, fólk og dýr er að finna í Mosfellsbæ um helgina. Heilsubærinn býður upp á margs konar hreyfingu og skemmtun. — Ljósmynd/Mosfellsbær
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is Bæjarhátíðin Í túninu heima verður haldin í 14. sinn helgina 25.-27. ágúst. Á föstudag verður boðið upp á fasta liði eins og markaðsstemningu í Álafosskvosinni.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Bæjarhátíðin Í túninu heima verður haldin í 14. sinn helgina 25.-27. ágúst. Á föstudag verður boðið upp á fasta liði eins og markaðsstemningu í Álafosskvosinni. Um kvöldið ganga bæjarbúar fylktu liði í sínum hverfislitum í skrúðgöngu í Álafosskvosina. Þar verður ullarpartí með brekkusöng og fleira. Þátttakendur eru hvattir til þess að mæta í lopapeysum í ullarpartíið.

Á laugardag er flugvéla- og fornvélasýning WINGS and WHEELS (ísl. vængir og hjól) á Tungubökkum og kjúklingafestival við íþróttamiðstöðina í Varmá þar sem stærstu kjúklinga- og matvælaframleiðendur landsins kynna afurðir sínar og gefa smakk. Götugrill verða haldin víða um Mosfellsbæ áður en bæjarbúar halda á stórtónleika á miðbæjartorgi. Menningarnefnd mun þar veita ýmis verðlaun fyrir skreytingar í hverfunum. Gula hverfið vann keppnina árið 2016 en allt útlit er fyrir að bleika, bláa eða rauða hverfið veiti harða samkeppni í ár. Dagskránni á laugardag lýkur með Pallaballi í íþróttahúsinu á Varmá.

Hugrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Mosfellsbæ, segir að Mosfellsbær haldi nú upp á 30 ára kaupstaðarafmæli. Afmælið hófst 9. ágúst með opinberri heimsókn forseta Íslands og hafa viðburðir vegna afmælisins verið nær daglega síðan.

Íbúafjöldi Mosfellsbæjar fór nýlega yfir 10.000. Hugrún segir að reiknað sé með 8.000 til 10.000 manns á hátíðina í ár. „Það eru mestmegnis Mosfellingar og gestir þeirra sem sækja hátíðina, sem er frábær leið til þess að sameina íbúana.

Mosfellingar bjóða heim

Grunnurinn að hátíðinni eru bæjarbúar sjálfir,“ segir Hugrún Ósk. Hún bætir við að Mosfellsbær sé mjög stoltur af viðburðinum Mosfellingar bjóða heim. Sá viðburður sé algjörlega í höndum íbúanna. Í ár standi hátíðargestum til boða að heimsækja átta heimili þar sem menningardagskrá fer fram í görðum þeirra. Boðið verði upp á margvíslega tónlistaratburði og upplestur. „Mosellsbær er heilsubær. Við bjóðum meðal annars upp á fjallahjólakeppni og tindahlaupið sem fer stækkandi ár frá ári. Í fyrra hlupu 130 hlauparar á einn, þrjá, fimm eða sjö tinda. Í ár mun forsetinn okkar taka þátt í hlaupinu og erum við mjög ánægð með það,“ segir Hugrún. Í túninu heima heldur úti fésbókarsíðu þar sem hægt að nálgast fjölbreytta dagskrá frá miðvikudegi til sunnudags. Uppistand, íþróttaviðburðir, bílasýning, Stebbi og Eyfi, Papar, opið hús á Gljúfrasteini, karamellukast, Áttan, Diddú, Páll Óskar og Stefanía Svavars er brot af þeim viðburðum sem í boði eru á hátíðinni Í túninu heima.