Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Eftir Kjartan Magnússon: "Samfylkingin og fylgiflokkar hennar vilja fjölga borgarfulltrúum um helming og telja slíka kostnaðaraukningu í yfirstjórn borgarinnar sjálfsagða."

Fregnir berast af neyðarástandi í skólum Reykjavíkurborgar vegna erfiðleika við að fá fólk til starfa. Borgin stendur t.d. verst allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að því að manna leikskóla og dæmi eru um leikskóla þar sem einungis einn fagmenntaður leikskólakennari er við störf, þ.e. skólastjórinn. Borgarfulltrúum berast stöðugt ábendingar um að álag á kennara og aðra starfsmenn skóla fari vaxandi og ekki verði hjá því komist að bæta við starfsliði vegna fjölgunar verkefna.

Formaður skóla- og frístundaráðs segir að verið sé að greina vanda skólakerfisins í Reykjavík. Frá árinu 2010 hefur Samfylkingin að eigin sögn unnið að því að greina þennan vanda og notað þá vinnu sem afsökun fyrir því að hún lætur reka á reiðanum í skólamálum í borginni.

Á meðan Samfylkingin og fylgiflokkar hennar standa ráðalausir frammi fyrir vandanum í skólamálum er kappsamlega unnið að því í ráðhúsinu að fjölga borgarfulltrúum í Reykjavík um 53% eða úr 15 í 23. Þótt fjölda sérhæfðra starfsmanna vanti í skólana geta Reykvíkingar treyst því að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra fellur ekki verk úr hendi við það áhugamál sitt að fjölga fulltrúum í borgarstjórninni næsta vor. Þá munu tímaáætlanir standast og hver staða í borgarstjórninni verða mönnuð.

Útþensla báknsins

Árið 2011 stóð ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna fyrir þeirri lagabreytingu að við borgarstjórnarkosningar 2018 yrði skylt að fjölga borgarfulltrúum í Reykjavík úr 15 í að lágmarki 23. Áður var Reykjavíkurborg heimilt samkvæmt lögunum að fjölga borgarfulltrúum en henni bar ekki nein skylda til þess. Engin ástæða er til þess að Alþingi þenji út borgarbáknið með þessum hætti en þingmenn Samfylkingar og Vinstri-grænna beittu sér fyrir umræddri lagabreytingu að ósk borgarfulltrúa þessara sömu flokka. Nú eru um átta þúsund kjósendur að baki hverjum borgarfulltrúa og er það svipað hlutfall og tíðkast í höfuðborgum Norðurlandanna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað flutt tillögur um að borgarstjórn skori á Alþingi að breyta umræddu lagaákvæði svo borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ítrekað svæft allar slíkar tillögur.

Þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt fram og mælt fyrir frumvarpi til lagabreytingar sem afnæmi þessa skyldu til fjölgunar borgarfulltrúa. Í umsögn borgarstjórnarmeirihlutans um þetta frumvarp er lagst gegn því. Þingmenn þeirra flokka, sem mynda núverandi borgarstjórnarmeirihluta, hafa einnig lagst gegn því að umrætt frumvarp hljóti afgreiðslu á Alþingi.

Augljóst er að vinstriflokkarnir í borgarstjórn, Samfylkingin, Björt framtíð, Píratar og Vinstri-græn, vilja að borgarfulltrúum í Reykjavík verði fjölgað um meira en helming. Þeir telja slíka kostnaðaraukningu í yfirstjórn borgarinnar sjálfsagða á sama tíma og ekki tekst að manna stöður lögbundinnar grunnþjónustu í þágu barna og unglinga.

Höfundur er borgarfulltrúi. kjartan@reykjavik.is