Sanddæling Dísa mun afla sýna í Fossafirði vegna framkvæmdanna.
Sanddæling Dísa mun afla sýna í Fossafirði vegna framkvæmdanna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Orkustofnun hefur veitt Björgun ehf. í Reykjavík leyfi til tilraunatöku á möl og sandi af hafsbotni á svæði úti af mynni Fossár í botni Fossfjarðar við Arnarfjörð.

Orkustofnun hefur veitt Björgun ehf. í Reykjavík leyfi til tilraunatöku á möl og sandi af hafsbotni á svæði úti af mynni Fossár í botni Fossfjarðar við Arnarfjörð. Leyfið gildir til ársloka og tekur til tilraunadælingar á allt að 300 rúmmetrum af möl og sandi. Til stendur að sanddæluskipið Dísa taki sex sýni, allt að 50 rúmmetrum hvert sýni.

Í leyfinu kemur fram að vegna framkvæmda við Dýrafjarðargöng, auk annarra fyrirhugaðra verkefna á Vestfjörðum, leiti Björgun ehf. að möl og sandi sem uppfylli efniseiginleika til notkunar í steinsteypu og fyllingar. Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng fela í sér lagningu nýs vegar (8,1 km) og nýrra ganga (5,6 km) á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Með tilraunatökunni á að afla sýna til að rannsaka efniseiginleika malar og sands í botni Fossfjarðar, með tilliti til notkunarkrafna í framangreindum verkefnum.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framangreindrar tilraunatöku er það niðurstaða stofnunarinnar að tilraunataka á möl og sandi af hafsbotni í Fossfirði sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Orkustofnun hefur einnig farið yfir áhrif tilraunatöku á nýtingu og aðra starfsemi í nágrenninu, s.s. hlunnindi af æðarvarpi, fiskeldi í sjókvíum, kræklingarækt, beltisþararæktun, leyfissvæði til töku kalkþörungasets og neðansjávarlagnir. sisi@mbl.is