Bókin Það er ekki eintóm sæla að vita ekki aura sinna tal.

Bókin

Það er ekki eintóm sæla að vita ekki aura sinna tal. Sást það vel árið 2007 þegar Françoise Bettencourt Meyers, dóttir milljarðamæringsins Liliane Bettencourt, höfðaði mál gegn ljósmyndaranum François-Marie Banier þar sem hún sakaði hann um að hafa nýtt sér veikleika móður sinnar til að hafa af henni stórfé.

Liliane Bettencourt, erfingi L‘Oreal-snyrtivöruveldisins, er ríkasta kona heims, með auðævi metin á tæplega 40 milljarða dala, og situr í 14. sæti lista Forbes yfir ríkasta fólk í heimi. Árið 1987 lágu leiðir Liliane og François-Marie saman, en hann var fenginn til að ljósmynda hana fyrir franska tímaritið Egoiste. Til að gera langa sögu stutta jós Liliane gjöfum á ljósmyndarann næstu tvo áratugina, og er talið að vinskapurinn hafi gert François-Marie um 1,3 milljörðum evra ríkari.

Bettencourt-dómsmálið skók franskt samfélag og var á allra vörum allt til ársins 2015 þegar François-Marie var dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar og gert að greiða Bettencourt-fjölskyldunni 15 milljónir evra.

Ný bók fjallar ítarlega um málið: The Bettencourt Affair: The World‘s Richest Woman and the Scandal That Rocked Paris . Höfundurinn er Tom Sancton, fyrrverandi útibússtjóri tímaritsins Time í París, en hann skrifaði á sínum tíma metsölubók um dauða Díönu prinsessu.

Nýja bókin leiðir í ljós að það er oft kalt á toppinum, og að ýmis óheppileg leyndarmál geta komið í ljós fyrir dómstólum.

Er erfitt að vita hver er vinur manns þegar peningar eru í spilinu, og jafnvel fjölskylduböndin geta brostið. ai@mbl.is