SA segir ákvörðun Seðlabankans um óbreytta vexti vera vonbrigði.
SA segir ákvörðun Seðlabankans um óbreytta vexti vera vonbrigði. — Morgunblaðið/Ernir
Efnahagsmál Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,5%. Þetta kom fram á fundi bankans í gær og er í takt við spár greiningardeilda. Bankinn lækkaði vexti í maí og júní um samanlagt 0,5 prósentustig.

Efnahagsmál

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,5%. Þetta kom fram á fundi bankans í gær og er í takt við spár greiningardeilda. Bankinn lækkaði vexti í maí og júní um samanlagt 0,5 prósentustig. Fram kemur í yfirlýsingu nefndarinnar að spenna í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma.

Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir í pistli á vef samtakanna að vaxtalækkunarferillinn hafi staðið síðan í ágúst í fyrra, en á þeim tíma hefur peningastefnunefndin lækkað stýrivexti bankans um 1,25 prósentur. „Hikar nefndin nú við að stíga fleiri skref í vaxtalækkunum aðallega vegna mikillar lækkunar gengis krónunnar undanfarið,“ segir hann.

Samtökin atvinnulífsins segja að í yfirlýsingu peningastefnunefndar sé sérstaklega tiltekið að vísbendingar séu um að breytingar gætu verið fram undan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði.„Ekki verður betur séð en að peningastefnunefndin sé að gefa til kynna að það sé að hægja á hagkerfinu. Ákvörðunin veldur vonbrigðum þar sem gott tækifæri var til staðar til að halda áfram lækkun vaxta, styðja við hagkerfið og draga úr vaxtamun við útlönd,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.

Greiningardeild Arion banka segir að miðað við nýlega þróun og spá Seðlabankans sé ólíklegt að bankinn lækki vexti á árinu. Aftur á móti telur greiningardeildin að peningastefnunefnd gæti lækkað vexti lítillega á næsta ári.

Seðlabankinn spáir minni hagvexti í ár en hann gerði í maí. Hagvaxtarspáin er lækkuð í 5,2% úr 6,3%. Það merkir að framleiðsluspennan minnki til skemmi tíma. Á næsta ári væntir Seðlabankinn að hagvöxtur verði 3,3% og 2,5% árið 2019.

„Er þetta spá um mjúka lendingu hagkerfisins eftir langt og á margan máta afar farsælt hagvaxtartímabil,“ segir Ingólfur. helgivifill@mbl.is