Axel Bóasson, Íslandsmeistari úr Golfklúbbnum Keili, fær í dag að reyna sig á stóra sviðinu í íþróttinni. Axel verður á meðal keppenda á Made in Denmark-mótinu sem fram fer á Himmerland-vellinum sem er um 50 km fyrir sunnan Álaborg.

Axel Bóasson, Íslandsmeistari úr Golfklúbbnum Keili, fær í dag að reyna sig á stóra sviðinu í íþróttinni. Axel verður á meðal keppenda á Made in Denmark-mótinu sem fram fer á Himmerland-vellinum sem er um 50 km fyrir sunnan Álaborg. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni, þeirri næststærstu í heiminum, og verður Axel fimmti íslenski karlinn sem keppir á móti á Evrópumótaröðinni.

Axel vann sig inn í mótið með góðum árangri á úrtökumóti, en það mót var raunar jafnframt hluti af Nordic League-mótaröðinni sem Axel leikur alla jafna á. Axel á teig klukkan 12.30 að íslenskum tíma ásamt tveimur Englendingum, Michael Hoey og Laurie Canter.

Merkileg tímamót verða í mótinu hjá kunnasta danska kylfingnum frá upphafi, Tomasi Björn, en mótið verður númer 500 á ferli hans á Evrópumótaröðinni. Fleiri kunnir kappar mæta til leiks og má þar nefna Martin Kaymer, Victor Dubuisson, Sören Kjeldsen, Nicolas Colsaerts og Thomas Pieters, að ógleymdri rokkstjörnu golfsins: John Daly frá Bandaríkjunum.

Birgir Leifur Hafþórsson er eini íslenski karlinn sem leikið hefur á Evrópumótaröðinni að staðaldri. Axel bætist hins vegar í hóp með Björgvini Sigurbergssyni, Heiðari Davíð Bragasyni og Guðmundi Ágústi Kristjánssyni yfir íslenska karlkylfinga sem leikið hafa á stöku móti á mótaröðinni.

Í kvennaflokki hafa þrjár íslenskar konur verið með fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni frá upphafi: Ólöf María Jónsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir.

Nýkrýndur stigameistari Eimskipsmótaraðarinnar, Vikar Jónasson, verður kylfuberi Axels í mótinu, en hann er einnig í Keili í Hafnarfirði. kris@mbl.is