Bjartsýnn Hjálmar Þorsteinsson, læknir og framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, segir það gríðarlega stórt skref fyrir Klíníkina að fá þennan úrskurð um niðurgreiðslu á BRCA-aðgerðum og segir hann fordæmisgefandi.
Bjartsýnn Hjálmar Þorsteinsson, læknir og framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, segir það gríðarlega stórt skref fyrir Klíníkina að fá þennan úrskurð um niðurgreiðslu á BRCA-aðgerðum og segir hann fordæmisgefandi. — Morgunblaðið/RAX
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Hjálmar Þorsteinsson, læknir og framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, segir það gríðarlega stórt skref fyrir Klíníkina að fá þennan úrskurð, um niðurgreiðslu á BRCA-aðgerðum.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Hjálmar Þorsteinsson, læknir og framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, segir það gríðarlega stórt skref fyrir Klíníkina að fá þennan úrskurð, um niðurgreiðslu á BRCA-aðgerðum. „Þetta er sigur kvenna sem hafa barist fyrir því um langt árabil að hafa meira um það að segja hvert þær sækja þjónustu. Nú eiga þær val og hafa þann möguleika að komast í aðgerð innan ásættanlegs biðtíma. Það getur ekki verið annað en andlega erfitt, bæði það að standa frammi fyrir þessari ákvörðun að láta fjarlægja bæði brjóstin, taka hana síðan og síðan þurfa að bíða óeðlilega lengi eftir aðgerð,“ segir Hjálmar.

Það er markmið Klíníkurinnar að sjúklingar bíði sem styst eftir að komast í aðgerð. „Við viljum ekki búa til biðlista heldur búa til pláss fyrir viðkomandi svo við getum bæði lagt upp okkar áætlanir og einstaklingurinn sínar áætlanir fyrir lífið. Við höfum reynt að hafa það markmið að þegar einstaklingurinn situr hérna fyrir framan okkur getum við bókað hann strax í aðgerð á ákveðnum tíma á ákveðnum degi.“

Vonast til aukinnar þátttöku

Hjálmar vonast til að úrskurðurinn varðandi BRCA-aðgerðirnar verði til þess að greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands í öðrum aðgerðum hjá Klíníkinni verði endurskoðuð.

„Meginmarkmið Klíníkurinnar er að allir sjúklingar njóti þeirra sjálfsögðu réttinda að geta valið um að geta komið í aðgerð hjá okkur en að Sjúkratryggingar greiði fyrir þær aðgerðir sem óhjákvæmilegt er að sjúklingurinn fari í heilsunnar vegna. Það á til dæmis við um liðskiptaðgerðirnar, en ég á mjög erfitt með að sjá að það standist stjórnsýslulög og tryggi réttindi sjúklinga eins og Alþingi hefur samþykkt að sjúklingur á biðlista fái ekki greidda aðgerð á Klíníkinni þegar sambærileg aðgerð er greidd fyrir viðkomandi fari hann til útlanda, en kostnaðurinn í kringum aðgerðina er tæplega tvöfaldur m.v aðgerð hér heima. Ég sé bara ekki að það sé þjóðhagslega hagkvæmt né réttlátt fyrir þegnana, því það eru alls ekki allir sem hafa tök á því að fara til útlanda í aðgerð.“

Langur biðlisti er í liðskiptaaðgerðir hér á landi og sækir fólk orðið í auknum mæli til Klíníkurinnar í slíkar aðgerðir þrátt fyrir að þurfa að greiða fyrir þær að fullu sjálft. 33 liðskipaaðgerðir hafa verið gerðar í Klíníkinni frá því í febrúar.

Hjálmar segir Klíníkina vel í stakk búna að taka á móti fleiri sjúklingum, t.d ef greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga yrði aukin enn frekar í aðgerðum hjá Klíníkinni. „Við höfum fjórar skurðstofur í húsinu sem eru afar fullkomnar og þær eru enn nýttar að takmörkuðu leyti þannig að við getum vissulega gert meira.“

Ánægjulegur vöxtur

Klíníkin hóf starfsemi sína í október 2015 og hefur Hjálmar verið framkvæmdastjóri í um eitt ár. Hann segir afar ánægjulegan vöxt hafa verið í fyrirtækinu á því ári sem hann hefur starfað þar. „Æ fleiri sækja til okkar í aðgerðir og aðgerðir það sem af er á árinu eru nú þegar fleiri en allt árið í fyrra. Reglulega bætast fleiri læknar við og nú erum við að nálgast 20 lækna.“

Stærsti hluti aðgerðanna sem eru framkvæmdar á Klíníkinni er lýtaaðgerðir og aðgerðir gegn offitu, sem er verulega að fjölga. „Þó að ekki sé langt síðan offituaðgerðirnar hófust á Klíníkinni er mikill og góður árangur að koma í ljós. Við gerum líka margar af brjóstakrabbameinsaðgerðir, en fáir vita að Klíníkin gerir allar brjóstakrabbameinsaðgerðir fyrir Færeyjar,“ segir Hjálmar.

Heildræn nálgun heilsuvanda

Klíníkin er í Ármúla 9, en í sama húsi eru starfrækt önnur fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, sem skapar ýmsa möguleika á heildrænni nálgun heilsuvanda, að sögn Hjálmars, en mikið samstarf er innan hússins. „Hérna er Karítas heimahjúkrun svo við getum boðið fyrsta flokks hjúkrun. Hér er Gáski í húsinu með sjúkraþjálfun svo við getum búið til meðferðarkeðju bæði fyrir og eftir legutíma, keðju þar sem boðleiðir eru stuttar og við tryggjum að viðkomandi sé að ná eins góðum árangri og hægt er. Töluverður hópur sem leitar sér lækninga er kominn á efri ár og þarf oft aukna hjálp tímabundið, Sinnum veitir heimaþjónustu hvort sem það eru þrif heima eða hjálp við innkaup eða annað slíkt. Hér er hægt að halda utan um einstaklinginn bæði innandyra og heima líka. Það skapar heild sem er til hagsbóta fyrir einstaklinginn sem þarf á þjónustunni að halda. En sjón er sögu ríkari og ég verð að nota tækifærið og hvetja alla áhugasama til að líta til okkar í Heilsumiðstöðina á laugardag, hlusta á fyrirlestra hjá læknunum og kynna sér þá þjónustu sem boðið er upp á í húsinu.“

Hugur heim í læknum

Hjálmar er bjartsýnn á komandi tíma, greiðsluþátttaka í BRCA-aðgerðunum gefi tilefni til bjartsýni og þá finni hann fyrir aukinni jákvæðni hjá læknum gagnvart því að starfa hér heima. „Það er þróun og við finnum það sem betur fer að það er hugur heim í læknum sem hafa verið langdvölum erlendis, sem ég held að sé ein besta frétt fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi í langan tíma. Á næstu mánuðum munu enn fleiri læknar bætast í hópinn hjá okkur í Klíníkinni og flestir þeirra hafa verið starfandi erlendis síðustu ár. Það er gott að fá þá aftur heim og við trúum því að starfsemi okkar sé liður í betri heilbrigðisþjónustu fyrir alla.“