Skattgreiðendur stýra því ekki með beinum hætti að sköttum þeirra sé ráðstafað í þá þjónustu sem þeir fá afhenta á hverjum tíma. Né að verðmætið sem þeir fá afhent sé jafnt skattgreiðslunni.

Alþjóðlega reikningsskilanefndin fyrir opinbera aðila, IPSASB (International Public Sector Accounting Standards Board) gefur út hágæða reikningsskilastaðla og annað efni sem þjónar almannahagsmunum. Tilgangur með útgáfunni er að bæta fjármálaupplýsingar, auka gagnsæi og stuðla að gagnsemi þeirra við fjármálastjórnun, upplýsingamiðlun og stefnumörkun. Staðlarnir eru sniðnir að starfsemi hins opinbera og þeirra aðila

- sem eru ábyrgir fyrir að útdeila fjármunum og veita þjónustu í almannaþágu eða hafa um það milligöngu

- sem fjármagna starfsemi sína að meginhluta beint eða óbeint með sköttum, framlögum eða tilfærslum frá opinberum aðilum

- sem hafa það ekki sem meginmarkmið að skila hagnaði.

Samsvörun er við reikningsskilastaðla sem settir eru fyrir viðskiptalífið, þ.e. IFRS (International Financial Reporting Standards) og reikningsskilanefndin leitast við að víkja ekki frá IFRS í efni og orðalagi ef kostur er. Nefndin leggur áherslu á víðtæka samræmingu í reikningsskilum hins opinbera og fær góðan stuðning til þess frá alþjóðastofnunum. En það er á valdi einstakra ríkja að ákveða fjármála- og reikningsskilareglur í sinni lögsögu.

Í október 2014 gaf reikningsskilanefndin út grundvallarreglur um reikningsskil hjá opinberum aðilum sem eru undirliggjandi við þróun og gerð staðlanna. Áhersla IPSAS er á almannahagsmuni og þjónustu við almenning en reikningsskil sem hafa hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi miðast við viðskiptalífið. Upplýsingakerfi opinberra aðila þurfa að veita fjármálaupplýsingar sem nýtast til ákvarðanatöku ásamt því að upplýsa um hvort starfsemin sé í samræmi við sett markmið og hafi náð tilætluðum árangri. Þau þurfa að geta stutt við mat á því hvort

- viðkomandi rekstrareining veiti þjónustu á skilvirkan og hagkvæman máta

- upplýst sé um kostnað sem nýtist til þjónustu í framtíðinni og hvort takmarkanir séu þar á

- upplýst sé um álögur vegna þjónustu sem búið er að veita en greitt verður fyrir á síðari tímabilum

- upplýst sé um breytta stöðu viðkomandi rekstrareiningar til að veita þjónustu í samanburði við fyrra tímabil.

Eitt af grundvallareinkennum hins opinbera er að sjaldnast er jafngildi milli þess endurgjalds sem notendur þjónustu leggja til og þjónustunnar sem afhent er. Skattgreiðendur stýra því ekki með beinum hætti að sköttum þeirra sé ráðstafað í þá þjónustu sem þeir fá afhenta á hverjum tíma. Né að verðmætið sem þeir fá afhent sé jafnt skattgreiðslunni. Sama á við um þjónustugjöld og þóknanir þar sem jafngildi er ekki á milli fjárhagslegs virðis þjónustunnar sem veitt er og gjaldtökunnar.

Samkvæmt stöðlunum ber að gera grein fyrir eignum og upplýsa um verðmæti þeirra í reikningsskilunum. Eignir fyrirtækja í atvinnurekstri þjóna þeim tilgangi að afla tekna en eignum hins opinbera er ætlað að veita þjónustu. Eignir sem ganga ekki til tekjuöflunar og skila engri arðsemi fyrir atvinnurekstur eru verðlausar í reikningsskilum þeirra en sambærilegar eignir geta verið mikilvægar til að standa undir þjónustu opinberra aðila og haft skráð verðmæti þar. Í reikningsskilum opinberra aðila þarf einnig að upplýsa um skuldir og skuldbindingar, en stjórnvaldsákvarðanir geta verið þess eðlis að þær fela í sér skuldbindingar sem leiða til fjárútláta á komandi árum. Því þarf að meta hvort þær séu þess eðlis að áhrifa gæti á fjárhagsstöðu viðkomandi aðila og upplýsa þurfi um það í reikningsskilunum.

Reikningsskil hins opinbera þjóna öðrum notendum og þörfum en reikningsskil sem sniðin eru að þörfum aðila í viðskiptalífinu, og þar með er framsetning og meðhöndlun upplýsinga mismunandi og regluverkið ekki það sama. Þar af leiðandi er mikilvægt að hafa samstætt og viðeigandi regluverk fyrir notendur reikningsskila opinberra aðila.