Á morgun verður landsliðshópur karla í knattspyrnu valinn fyrir næstu tvo leiki í undankeppni heimsmeistaramótsins næsta sumar. Ísland mætir þá Finnlandi ytra laugardaginn 2. september og tekur á móti Úkraínu á Laugardalsvelli þriðjudaginn 5. september.
Á morgun verður landsliðshópur karla í knattspyrnu valinn fyrir næstu tvo leiki í undankeppni heimsmeistaramótsins næsta sumar. Ísland mætir þá Finnlandi ytra laugardaginn 2. september og tekur á móti Úkraínu á Laugardalsvelli þriðjudaginn 5. september.

Eftir alveg hreint magnaðan sigur á Króatíu hér heima í júní var sterkt að heyra strákana strax tala um að sigurinn skipti engu máli ef þeir klúðra svo málunum í næstu tveimur leikjum. Sem er hárrétt. Ísland og Króatía eru efst og jöfn með 13 stig en þar á eftir koma Tyrkland og Úkraína með 11 stig. Þrátt fyrir að staðan sé góð má þó ekkert fara úrskeiðis.

Nánast allir þeir leikmenn sem hafa verið kjarninn í landsliðinu síðustu ár ættu að vera heilir heilsu svo það verður fróðlegt að vita hvort Heimir Hallgrímsson breytir eitthvað út af vananum. Aðrir leikmenn eins og Matthías Vilhjálmsson geta vart spilað betur með félagsliði sínu en það er erfitt að rugga landsliðsbátnum þegar vel gengur.

Og talandi um gott gengi, þá er afskaplega auðvelt að samgleðjast leikmönnum og forráðamönnum Þórs/KA sem eru sannarlega að nálgast Íslandsmeistaratitilinn. Eftir allt það rugl sem var í gangi í vetur og óvissu um framtíð liðsins hefur verið stórkostlegt að sjá hvernig leikmenn hafa staðið saman og látið verkin tala inni á vellinum.

Ástríðan hjá Donna þjálfara smitar einnig út frá sér og ég efast ekki um að hinir hlutlausu knattspyrnuáhangendur munu fagna því ef bikarinn fer norður. Sérstaklega eftir allt sem á undan er gengið.