Aðalsteinn Hjörvar Friðfinnsson fæddist á Siglufirði 25. mars 1930. Hann lést á LSH á Vífilsstöðum 19. ágúst 2017.
Foreldrar hans voru Sigurður Friðfinnur Níelsson, f. á Kálfsskinni í Árskógarhreppi 17. febrúar 1904, d. 5. febrúar 1974, og Jóný Þorsteinsdóttir, f. á Svínárnesi á Látraströnd 3. júní 1904, d. 22. desember 1997.
Aðalsteinn var elstur sjö systkina. Þau eru: Guðný, f. 8. október 1932, d. 8. mars 2015, Sveinn, f. 6. febrúar 1937, Kristín, f. 4. ágúst 1939, Friðfinnur, f. 15. júní 1941, Selma, f. 4. júlí 1943, og Níels, f. 28. september 1946, d. 12. maí 2007.
Aðalsteinn ólst upp á Siglufirði, þar vann hann á síldarplönunum og á sjó sem háseti, matsveinn og vélstjóri á ýmsum bátum. Sjómennskan leiddi Aðalstein fyrst til Grundarfjarðar þegar þar fór að veiðast síld. Hann lauk skipstjórnarnámskeiði á Akureyri árið 1958, þá var hann trúlofaður og flutti til heimabæjar unnustu sinnar, Grundarfjarðar, og stundaði þar sjómennsku.
Aðalsteinn kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Elsu Fanneyju Pétursdóttur, f. 23. júlí 1937, hinn 11. september 1960. Þau byggðu og bjuggu sér heimili á Grundargötu 20. Börn þeirra eru: 1) Olga Sædís, f. 11. febrúar 1961, gift Grétari Höskuldssyni, þau eiga þrjú börn, fjögur barnabörn og eitt barnabarnabarn. A) Elsa Fanney, f. 30. maí 1979, hennar maki er Markús Ingi Karlsson. Synir hennar eru: a) Hafþór Orri Harðarson, f. 5. júní 1997, sonur Hafþórs og Kolfinnu Mörtu Sigrúnardóttur er Róbert Aron, f. 22. júlí 2015. b) Gabríel Berg Rúnarsson, f. 15. mars 2006. Synir Elsu og Markúsar eru: c) Benjamín Æsir, f. 15. maí 2013, og d) Hilmir Hrafn, f. 6. janúar 2015. B) Aðalsteinn Valur, f. 7. mars 1985. C) Sigþór Fannar, f. 31. júlí 1993. 2) Anna Jonny, f. 26. júní 1964, gift Þorkeli Inga Þorkelssyni, þau eiga fjögur börn: A) Guðmund, f. 11. ágúst 1990, d. 11. ágúst 1990. B) Pétur Hjörvar, f. 8. júlí 1991, unnusta Fanney Benjamínsdóttir, og C) Guðbjörn, f. 4. febrúar 1998, d. 4. febrúar 1998. D) Maríanna Sól, f. 19. júní 2000. 3) Bjarki Sæþór, f. 9. janúar 1967, giftur Silvönu M. Oliveira, hans börn eru: A) Helga Rún, f. 1. mars 1996, móðir Tinna Arnardóttir, B) William Sindri, f. 18. desember 2007, móðir Silvana.
Aðalsteinn var stýrimaður á Grundfirðingi um nokkurra ára skeið, síðan var hann skipstjóri á Ingjaldi og Blíðfara. Um miðjan sjöunda áratuginn fór hann í land og vann sem verkstjóri við Fiskverkun Soffaníasar Cecilssonar í 16 ár. Á árunum 1977 til 1990 var Aðalsteinn kaupfélagsstjóri Kaupfélags Grundfirðinga. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var t.d. formaður sóknarnefndar Eyrarsveitar og sat í hreppsnefnd í 12 ár. Aðalsteinn starfrækti Hótel Bjarkalund um nokkurra ára skeið ásamt eiginkonu sinni, Önnu dóttur sinni og tengdasyni. Árið 1990 tók hann við sem rekstrarstjóri hjá Olíufélaginu á Þyrli í Hvalfirði til ársins 1996, en þá fluttu þau hjónin í nýja íbúð við Funalind 1 í Kópavogi og bjuggu þar síðan.
Útför Aðalsteins fór fram frá Lindakirkju 25. ágúst 2017.

Elsku pabbi okkar hann Aðalsteinn Hjörvar var iðulega kallaður Alli Finna eða bara Alli, hann ólst upp á Siglufirði ásamt systkinum sínum, fyrst við Lækjargötu en síðan við Hverfisgötu. Móðir hans annaðist heimilið og barnauppeldið þar sem faðir hans var sjómaður og mikið að heiman, hann sigldi m.a. á stríðsárunum með fisk til Bretlands og Skotlands, til baka komu skipin heim aftur með kol og annan varning, mörg íslensk skip og bátar urðu fyrir grimmilegum árásum á siglingum sínum yfir Atlantshafið og áttu margir ekki afturkvæmt heim. Pabbi byrjaði ungur að vinna á síldarplönunum og seinna fór hann á sjó með föður sínum á Gróttu EA-364. Það var sjómennskan sem leiddi pabba fyrst til Grundarfjarðar, hann var þá á bát frá Sandgerði, með Valla á Steinunni gömlu. Það hafði fréttst að síld væri farin að fiskast í Grundarfirði og þangað stefndi flotinn um miðjan nóvember 1953. Pabbi lýsir í bók nr. 4 í bókaflokknum ,Fólkið, fjöllin, fjörðurinn hvernig hans fyrsta upplifun var af Grundarfirði. Hann sagði Grundarfjörð hafa tekið vel á móti sér, blankalogn og fallegt veður, en um nóttina skall á sá versti veðurofsi sem hann hafði upplifað, þarna breyttist sá fallegasti fjörður sem hann hafði nokkurn tíma séð og er í skjóli tignarlegra fjalla og á nokkrum klukkutímum á sama sólahringnum fékk hann að sjá þann heiftarlegasta veðurofsa sem hann hafði orðið vitni að. Þessa nótt varð sá hörmulegi atburður að Eddan frá Hafnarfirði fórst rétt upp við landsteinana innan um fjölda skipa sem börðust við veðurhaminn og urðu ekki varir við slysið fyrr en morguninn eftir. Þarna fórust níu ungir röskir sjómenn en átta komust lífs af, það voru því blendnar tilfinningar sem Alli átti til fyrsta sólarhringsins sem hann átti á Grundarfirði um borð í Steinunni gömlu. 30-40 skip háðu baráttu við suðvestanfárviðri á Grundarfirðinum þessa nóvembernótt. Alli Finna sagði seinna að þótt Grundarfjörðurinn hafi verið með slíkar móttökur þá hafi Grundfirðingar tekið honum frábærlega. Pabbi starfaði á þessum árum sem ungur maður á norðanbátum en einnig á vertíðarbátum frá Keflavík og Reykjavík sem háseti, matsveinn og vélstjóri. Barnabarnabarnið hans, hann Hafþór Orri, spurði hann hvernig hann hefði náð í ömmu á sínum tíma og það stóð ekki á svarinu, en það fylgdi með að amma myndi nú örugglega þræta fyrir það. Þannig var að ég var þá á Grundfirðingi með Hinna Elbergs og það datt bara stelpa frá Svansskála niður um lúkarinn hjá mér sagði hann glottandi, amma þrætti ekkert fyrir þetta og samstiga gengu þau í gegnum ævina eftir þetta. Þau störfuðu hlið við hlið nánast frá fyrstu kynnum og það sem eftir var starfsævinnar, á sjónum, í fiskvinnslu og við verslunar- og þjónustustörf. Pabbi lauk skipstjórnarnámskeiði á Akureyri árið 1958, en þau mamma voru þá trúlofuð og á meðan hann stundaði nám sitt á Akureyri var hún við nám í Kvennaskólanum á Blönduósi. Eftir að pabbi flutti til Grundarfjarðar var hann stýrimaður á Grundfirðingi um nokkurra ára skeið en síðan skipstjóri á Ingjaldi og Blíðfara. Foreldrar okkar giftu sig þann 11. september árið 1960, þegar athöfnin hófst var súldarveður úti við en meðan á henni stóð létti til svo hjónin ungu gengu út í glaðasólskin úr kirkjunni. Pabbi og mamma byggðu húsið sitt á Grundargötu 20, Grundarfirði, en byggingameistari var móðurbróðir pabba, Gísli Þorsteinsson frá Siglufirði. Þegar síldin hvarf frá Siglufirði í upphafi sjöunda áratugarins fluttu einnig foreldrar pabba og flest systkini hans til Grundarfjarðar sem þá var að byggjast upp og tóku þau eins og foreldrar okkar þátt í uppbyggingu samfélagsins á þeim tíma og festu þar rætur. Sú starfsstétt sem pabba þótti mest til koma voru sjómenn og var hann ákaflega stoltur af að tilheyra þeirri stétt, en á fertugsaldri kom hann í land, höfðu gömul meiðsl mikið um það að segja, því sem barn að aldri hafði hann fótbrotnað illa við að detta fram af þaki Alþýðuhússins á Siglufirði, seinna slasaðist hann við vinnu sína á síldarplaninu þegar hann varð á milli síldarvagna. Hann náði sér aldrei líkamlega eftir þessi slys og gekk haltur æ síðan. Það var því um miðjan sjöunda áratuginn sem pabbi kom í land, hann var fyrst verkstjóri við Fiskverkun Soffaníasar Cecilssonar í 16 ár, síðar var hann kaupfélagsstjóri við Kaupfélag Grundfirðinga í rúm 12 ár, eða til ársins 1990. Í Grundarfirði gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum, t.d. var hann formaður sóknarnefndar Eyrarsveitar um langt árabil og sat í hreppsnefnd í 12 ár. Eftir að pabbi hætti sem kaupfélagsstjóri starfræktu þau mamma Hótel Bjarkalund í Reykhólasveit um nokkurra ára skeið yfir sumartímann ásamt Önnu Jonny og Þorkeli Inga, um svipað leyti og hótelreksturinn hófst tók  pabbi einnig við sem rekstrarstjóri Veitinga-og bensínsölu hjá Olíufélaginu á Þyrli í Hvalfirði og starfaði þar til ársins 1996. Eftir að þau hættu rekstri Þyrils fluttu foreldrar okkar í nýja íbúð við Funalind 1 í Kópavogi og bjuggu þar síðan.

Já, elsku pabbi, við börnin þín og afkomendur þökkum að leiðarlokum fyrir allt, fyrir alla ástina, umhyggjuna og hjálpina í gegnum árin. Þú varst alltaf tilbúinn til að skutlast og redda og ekki bara okkur heldur samferðamönnum í gegnum tíðina og þá helst þeim sem minna máttu sín eða bara þurftu á aðstoð eða hvatningu að halda þá varstu mættur og oft mamma líka en þið gerðuð ykkar góðverk svo lítið bar á því það er hugurinn og hjartað sem skilgreina góðar manneskjur. Þau voru ófá skiptin sem þú fórst niður í Kaupfélag til að aðstoða fólk utan vinnutíma og við munum hvað þér var ljúft að afgreiða sjómennina  með kostinn um borð í bátnna hvenær sem kokkurinn þurfti afgreiðslu. Það var fjör þegar vertíð var í gangi og norðan bátarnir bættust við okkar flota, þá var mikið spjallað og gaman að fylgjast með aflabrögðum. Þú varst svo mannblendinn og flinkur í samskiptum við fólk og því svo sannarlega á réttri hillu á Þyrli og í Bjarkalundi. Þú hafðir gaman af að vinna og vildir gera viðskiptavinum eins vel til hæfis og hægt var án tillits til fjárhagslegs ávinnings, því ávinningur af góðum mannlegum samskiptum er ekki metinn til fjár, hann situr eftir í hjartanu og verður að góðum minningum. Anna man eftir einu af mörgum skiptum þegar það mátti ekki loka alveg strax þótt komið væri að lokunartíma því það sáust bílljós hinumegin í Hvalfirði og fólkið í bílnum gæti þurft aðstoð þegar það kæmi að Þyrli. Einnig man hún eftir atviki í Bjarkalundi þegar Pétur Hjörvar kom hlaupandi inn og sagði: mamma, mamma komdu og sjáðu afa, hann hleypur svona, síðan haltraði hann hratt áfram, málið var að enginn var í bensínskúrnum og bíll að renna upp að sem vantaði afgreiðslu svo afi hljóp og auðvitað hljópstu svona. Við erum ákaflega stolt af að heyra hvað þú varst góður starfskraftur bæði til sjós og lands. Þú sinntir þeirri ábyrgð sem þér var falin sem yfirmaður af sérstakri trúmennsku og umhyggju rétt eins og þú værir að reka þitt eigið fyrirtæki. Svo var nú aldrei langt í húmorinn, Grétar man þegar hann barði að dyrum heima í fyrsta skipti, óttalegur unglingur, og þú komst til dyra og spurðir: hvern djöfulinn vantar þig? Svarið var: bara að tala við hana Olgu og auðvitað bauðstu hann þá velkominn og ekki nóg með það, næstu árin komstu honum af stað í eldamennskunni með því að þegar hann kom snemma heim af sjónum þá sendirðu hann heim með kartöflur til að sjóða, síðan bættist við kjöt eða fiskur og næsta stig var að úrbeina og saga skrokka í kaupfélaginu. Olga og Grétar bjuggu síðan hjá ykkur mömmu með elsta afabarninu henni Elsu Fanneyju á meðan þau voru að byggja og eru þau innilega þakklát fyrir alla aðstoðina við húsbygginguna og barnauppeldið, því þið tókuð stóran þátt í uppeldinu á öllum barnabörnunum, það er ómetanlegt að eiga að slíka bakhjarla sem alltaf voru til staðar fyrir okkur öll. Barnabörnin eiga fallegar minningar um samverustundir og ferðalög, og alltaf var gott að spjalla við þig um alla heima og geima því minni þitt var alla tíð svo gott og eftir á að hyggja bjó í þér bæði sagnfræðingur og heimspekingur, umræðurnar spönnuðu frá barnæsku þinni í Siglufirði til þjóðmála líðandi stundar og allt þar á milli. Þú varst einstaklega tónelskur og spilaðir eftir eyranu á meðan heilsan leyfði enda varstu kominn af tónelskandi fjölskyldu frá Siglufirði þar sem flestir léku á hljóðfæri og sungu. Alli, Sigþór og Hafþór gátu talað um sína tónlist við þig því öll tónlist var góð, hver á sinn hátt. Við völdum að kveðja þig með fallegri tónlist þér til heiðurs og okkur til huggunar, tónlist sem var samofin ævisögu þinni, elsku pabbi. Þú signdir þig á hverju kvöldi og þegar þú fórst í nýja skyrtu eins og þér hafði verið kennt í æsku, því var við hæfi að velja ,Drottinn er minn hirðir fyrir sjómanninn sjóferðarbænina ,Ég er á langferð um lífsins haf. Við börnin þín og barnabörnin munum hvað þér þótti gaman að hlusta á og syngja með Óbyggðirnar kalla. Þú spilaðir á orgelið Litla hvíta eyjan og þið Hinni Elbergs sunguð það fyrir ball hér í den svo það varð fyrir valinu, Siglufjarðarlagið Sem lindin tær eftir Bjarka Árnason er mikið uppáhaldslag og var oft spilað á gamla segulbandið þitt þegar við vorum lítil, fallega röddin hans Guðmundar Gauta hljómaði þá um allt húsið. Mamma valdi Nú sefur jörðin sumargræn enda eftir eitt af þínum uppáhalds skáldum, Davíð Stefánsson, að lokum var tekið Ísland er land þitt.
Elsku pabbi, þú misstir alltaf meiri og meiri líkamlegan mátt síðastliðin ár en við gátum öfundað þig af þínu góða minni, þú fylgdist alltaf vel með hvað við vorum að bralla, starfa og nema og þú sýndir því mikinn áhuga. Þú elskaðir barnabörnin, barnabarnabarnið og langalangafastrákinn og fylgdist vel með þeim, þú hringdir í okkur öll þótt það væri bara eins og þú sagðir til að heyra hljóðið. Í mars á þessu ári vonuðumst við öll til að heilsan þín færi að batna og reynd var endurhæfing á Landakoti sem bar engan árangur, þú varðst meira veikur og varst í nokkrar vikur á Borgarspítalanum þar sem kom í ljós nú í vor að illvígur sjúkdómur væri búinn að taka sér bólfestu og hefði dreift sér það mikið að varnarbarátta var ekki í boði heldur aðeins líknandi meðferð. Þú tókst þessu með miklu æðruleysi og enn áttir þú nóg af kærleik og húmor þannig að þeir sem komu að umönnun höfðu orð á, Bjarki og mamma komu með sjónvarp til þín á Vífilsstaði þar sem þú dvaldir síðustu vikurnar þínar í þessu lífi, fjarstýringin var eitthvað að stríða þér en Bjarki kom þá við og reddaði málunum. Svenni bróðir þinn kom líka hérumbil á hverjum degi og honum fygldi eins og ávallt hressleiki sem þú og við þurftum á að halda. Síðustu vikurnar áttum við systkinin með þér og mömmu á Vífilsstöðum og að lokum voru engin símtöl frá þér til að heyra hljóðið, mátturinn var að hverfa. Það er sárt að kveðja þig, elsku pabbi, og það gerum við með sorg og söknuði í hjarta, en það er huggun harmi gegn að við áttum öll saman gott líf sem ber að þakka fyrir og minningarnar lifa áfram. Hvíl í friði elsku pabbi, blessuð sé minning þín, nú ertu búinn að hitta fyrir í Sumarlandinu alla þá sem fyrri urðu þangað heim og elska þig líka.


Olga, Anna og Bjarki.