Seigur Logi Gunnarsson skoraði 12 stig fyrir Njarðvík.
Seigur Logi Gunnarsson skoraði 12 stig fyrir Njarðvík. — Morgunblaðið/Golli
Njarðvíkingar héldu Grindvíkingum í tuttugu og sjö skoruðum stigum í síðari hálfleik þegar liðin mættust í gærkvöld í Dominos-deild karla í körfuknattleik í Njarðvík.

Njarðvíkingar héldu Grindvíkingum í tuttugu og sjö skoruðum stigum í síðari hálfleik þegar liðin mættust í gærkvöld í Dominos-deild karla í körfuknattleik í Njarðvík.

Að loknum fyrri hálfleik var staðan 48:44 fyrir Grindvíkinga en Njarðvíkingum tókst að snúa taflinu við svo um munaði í síðari hálfleik.

Dagur Kár Jónsson lék ekki með Grindavík og sjálfsagt hefur það haft sitt að segja enda lykilmaður í liðinu. Engu að síður eru yfirburðir Njarðvíkinga í síðari hálfleik athyglisverðir. Þeir unnu þriðja leikhluta 30:14 og þann fjórða 23:13.

Oddur Rúnar Kristjánsson var stigahæstur hjá Njarðvík með 22 stig, Terrell Vinson gerði 19 og þeir Logi Gunnarsson og Maciej Baginski skoruðu 12 stig hvor.

Ólafur Ólafsson var atkvæðamestur hjá Grindavík með 19 stig og Jóhann Árni Ólafsson var með 13. Sigurður Þorsteinsson tók 13 fráköst og skoraði 12 stig.

Munurinn á liðunum lá meðal annars í þriggja stiga nýtingu, en Njarðvík hitti úr 12 af 19 skotum sínum sem gerir 63% nýtingu á meðan Grindavík hitti úr 17% sinna skota.

Njarðvík er nú með 10 stig eins og Keflavík og ÍR og er tveimur stigum á eftir toppliði Tindastóls. Hefur liðið byrjað vel og unnið fimm af fyrstu sjö leikjunum. Grindavík er með 8 stig og liðin því á svipuðu róli í deildinni. sport@mbl.is