26. maí 2018 | Minningargrein á mbl.is | 1104 orð | 1 mynd

Ragnheiður Guðmundsdóttir

Ragnheiður Guðmundsdóttir var fædd að Mýrargötu 1 í Reykjavík, hinn 24. janúar árið 1929 og lést á Hrafnistu í Hafnarfirði hinn 18. apríl 2018. Foreldrar hennar voru Steinunn Anna Sæmundsdóttir, f. 26.11. 1901, d. 28.9. 1980 og Guðmundur Þórarinn Tómasson, f. 31.1. 1903, d. 2.12. 1945. Ragnheiður var elst fimm systkina, tvíburabræður hennar voru Sæmundur, f. 14.12. 1930, d. 1.11. 2001, og Tómas, f. 14.12. 1930, d. 15.11. 1993, Guðmundur Ingi Guðmundsson, f. 22.10. 1932, d. 14.06. 2006, og Guðbjörg, f. 7.11. 1942, d. 10.11. 1942. Ragnheiður var gift Gunnlaugi Hjartarsyni sem fæddist 15. apríl 1928 að Þingnesi í Borgarfirði og lést 16. maí 2014 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðný Magnúsdóttir, f. 17. ágúst 1908, d. 14.03. 1999 og Hjörtur Vilhjálmsson, f. 4.10. 1895, d. 23.09. 1958. Ragnheiður og Gunnlaugur áttu dótturina Steinunni Önnu Gunnlaugsdóttur, f. 23.06. 1965. Eiginmaður Steinunnar Önnu er Leifur Björn Björnsson, f. 28.10. 1965, börn þeirra eru; Ragnheiður Harpa f. 11.02. 1988, Rakel Mjöll f. 16.12. 1989, Viktor Már, f. 09.09 .1991 og Íris María, f. 14.07. 1993.
Ragnheiður stundaði ýmsa vinnu. Hún vann í leðurgerðinni Merkúr á Fálkagötu og við afgreiðslu í Kjötbúðinni Klein á Baldursgötu og í fiskbúðinni Sæbjörgu á Nönnugötu. Hún flakaði fiskinn og raðaði honum snyrtilega í borðið og lagði sig fram við að halda búðinni hreinni. Hún vann við hlið móður sinnar í hraðfrystihúsinu Ísbirninum, þar sem þær flökuðu í akkorði og um tíma vann hún á síldartogara og saltaði síld í tunnur. Hún vann í námsflokkunum í Miðbæjarskólanum, í ávaxtadeild í Nóatúni í JL-húsinu en hætti þar þegar hún var rúmlega 60 ára og eftir það gætti hún barna í heimahúsi um skeið. Hún vann einnig í veitingasölunni Adlon og þar hitti hún mann sinn Gunnlaug. Þau tengdust ævilöngum böndum og bjuggu í 35 ár í Miðstræti 10, uppi á kvisti og sáu yfir Tjörnina og Vesturbæinn, síðar fluttu þau að Boðagranda 6, þar sem þau bjuggu saman í 14 ár. Útförin fór fram frá Garðakirkju 23. apríl 2018.

Ragnheiður Guðmundsdóttir fæddist hjónunum Steinunni Önnu Sæmundsdóttur og Guðmundi Þórarni Tómassyni árið 1929 þegar þau bjuggu í Vesturbæ Reykjavíkur en þau fluttu oft þegar að hagstæðara húsnæði bauðst. Steinunn Anna var harðdugleg verkakona sem flakaði á við hraustustu karlmenn og maður hennar var röskur kyndari á sjó en kom í land, keypti sér vörubíl og ók honum. Hann dó þegar Ragnheiður var 16 ára og Steinunn stóð ein uppi með fjögur börn, sem stóðu bak í bak, til að ná endum saman. Ragnheiður hélt áfram skólagöngu það árið og varð gagnfræðingur á meðan bræður hennar unnu og síðar lagði hún sitt af mörkum til að tveir bræðra hennar gætu farið í Stýrimannaskólann. Tómas varð stýrimaður og Ingi skipstjóri í Vestmannaeyjum en Sæmundur varð verkamaður í Reykjavík. Ragnheiður gegndi ýmsum störfum m.a vann hún við fiskverkun í Ísbirninum, afgreiðslu í Sæbjörgu og þjónustu á veitingasölunni Atlon.
Ragnheiði var margt til lista lagt, hún var glögg á tölur og listræn í huga og höndum. Hún var mikil reikningskona og tók eftir tölum í kringum sig og lék sér með bílnúmerin sem urðu á vegi hennar. Hún lærði að mála í Myndlistaskóla Reykjavíkur og sótti síðar málaratíma hjá Aðalheiði á Rauðarárstígnum, jafnframt tók hún þátt í félagsstarfi aldraðra á Aflagranda þar sem hún málaði myndir á striga og postulín. Hún málaði fagrar landslagsmyndir með olíulitum og heimili þeirra hjóna var prýtt fossum, fjöllum og blómum. Stundum málaði hún eftir póstkortum og myndum úr blöðunum, sem hún las af gaumgæfni og klippti oft út greinar þar sem var sagt frá fólki sem hún mat mikils. Hún safnaði líka steinum og skeljum úr fjörunni. Hún var náttúruunnandi og notaði þau tækifæri sem gáfust til að ferðast um landið.
Ragnheiður var mikil hannyrðakona. Hún prjónaði fyrir Rauða krossinn og var þar í prjónaklúbbi. Hún saumaði sér upphlut og á 17. júní fóru hún og vinkonur hennar í þjóðbúningum til hátíðahalda í bænum, stoltar og glaðar. Barnabörnin fengu handunnar flíkur frá ömmu sinni, þar á meðal handprjónaða bleika kjóla og bláa peysu, en blátt var uppáhaldsliturinn hennar. Þau gengu að því vísu að fá trúðaís og kókómjólk og að spilað yrði við þau. Það gerði hún, þar sem afi Gulli var mikill spilamaður, hún spilaði við þau þótt henni þætti annars verulega leiðinlegt að spila. Hún ræktaði blóm sem hún vökvaði á hverjum degi og tók myndir af þeim þegar þau blómstruðu. Hún hafði gaman af að taka myndir og gaf barnabörnunum sínum myndavélar.
Ragnheiði fannst gaman að hlaupa. Á yngri árum hljóp hún 100 metrana á 11,4 sekúndum. Það var ekki skráð en var Íslandsmet á þeim tíma. Þegar hún var fimmtug hljóp hún í Maraþonhlaupi og vann til verðlauna en á þeim tíma voru ekki margar konur á hennar aldri sem tóku þátt í Maraþoni. Hún tók jafnframt oft þátt í Kvennahlaupinu.
Hún var selskapskona. Á afmælunum var mikið tilstand, afmælisbollarnir voru dregnir fram og á kvistinum á Miðstræti 10 ilmaði allt af pönnukökubakstri. Hún dreif sig í kjólinn á síðustu stundu, svo birtist fjölskyldan og vinkonurnar og það var oft glatt á hjalla.
Svo gerðist það einn daginn í Miðstrætinu að síminn hringdi sem oftar. En nú hljómaði ókunn rödd sem tilkynnti Ragnheiði að hún hefði fengið hæsta vinninginn í Happdrætti Háskólans, og þá fór boltinn að rúlla. Ragnheiður keypti sér bíl og lærði að keyra. Hún hafði áður tekið bílpróf en aldrei keyrt. Nú gat hún keyrt hvert sem henni sýndist um bæinn. Hún gat boðið Gulla í ferðalög og þau keyrðu tvisvar kringum landið.
Hún ferðaðist út um heiminn. Þegar hún var fertug fór hún með Steinunni móður sinni til Danmerkur til að heimsækja ættfólk sitt og hún fór til dóttur sinnar til Sviss þegar hún var skiptinemi þar. Tvisvar heimsótti hún hana og fjölskyldu hennar til Bandaríkjanna. Hún talaði fína ensku en hafði lært hana í Námsflokkunum. Og þegar dóttirin varð fertug bauð hún mömmu sinni til Danmerkur og endurtók sama leikinn.
Ragnheiður var hreinskilin, heiðarleg og ákveðin. Hún hafði skemmtilega framkomu og var oft snögg uppá lagið. Hún vildi vera kvitt við allt það fólk sem hún umgekkst. Í hennar uppvexti tileinkaði fólk sér nægjusemi og hún kunni þá list alla ævi en hún var gjafmild við aðra og vildi allt gera fyrir sitt fólk. Skapgerðin hélst þótt hún gleymdi ýmsu undir það síðasta en hún var glöð og sátt, og stutt var í kímnina. Á Hrafnistu fylgdist hún með því að sambýlisfólkið fengi þá aðstoð sem það þurfti og lagði til það sem henni fannst að betur mætti fara, enda dugnaður hinnar sívinnandi húsmóður henni afar tamur.
Ég kveð með þakklæti yndislega móður sem með ástúð og hlýju umvafði mig og mína fjölskyldu.

Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem um er að ræða efni sem einungis birtist á netinu en ekki í Morgunblaðinu.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.