Soffía Sigurðardóttir fæddist 29. apríl 1933 á Landspítalanum í Reykjavík. Hún lést 29. maí 2018 á hjúkrunarheimilinu Sólvangi.

Hún var dóttir hjónanna Fjólu Pálsdóttur húsfreyju, f. 22.11. 1909, d. 1.8. 2007, og Sigurðar Eiðssonar sjómanns, f. 29.10. 1908, d. 15.11. 1989. Þau bjuggu allan sinn hjúskap á Suðurgötu 39 í Hafnarfirði. Soffía var elst fimm systkina, en næstur er Eiður, f. 1.5. 1936, þá Hrafnhildur, f. 2.8. 1937, svo tvíburarnir Páll og Ragnar, f. 9.11. 1946.

Soffía giftist 2.10. 1952 Markúsi Bergmann Kristinssyni vélstjóra, f. 2.10. 1930, d. 21.6. 2008. Þau bjuggu lengst af í Hafnarfirði, þar af lengst á Háabarði 11 og Miðvangi 108 og svo sex ár á Siglufirði þar sem Markús var verksmiðjustjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins.

Soffía og Markús eignuðust sjö dætur, þær eru: 1) Helga grunnskólakennari, f. 10.3. 1951, fv. maki Rúnar Ketill Georgsson hljómlistarmaður, f. 1943, d. 2013, dóttir þeirra er Elfa Björk Rúnarsdóttir, f. 1978; 2) Fjóla, f. 19.6. 1952, hennar börn eru Konráð Viðar Konráðsson, f. 1972, Berglind Soffía Blöndal, f. 1977, Heidi Runner, f. 1989; 3) Hulda leikskólakennari, f. 11.6. 1954, maki Páll Eyvindsson véliðnfræðingur, f. 1954, sonur Huldu frá fyrra hjónabandi er Freyr Bergsteinsson, f. 1975, synir Huldu og Páls eru Jón Pálsson, f. 1995, og Sindri Pálsson, f. 1999; 4) Svala læknaritari, f. 18.8. 1955, maki Leifur Jónsson símsmiður, f. 1954, d. 2012, börn þeirra eru Ragnhildur Leifsdóttir, f. 1976, d. 1977, Markús Bergmann Leifsson, f. 1980, Sonja Leifsdóttir, f. 1985; 5) Lilja, f. 2.6. 1962, synir hennar eru: Kristinn Bergmann, f. 1981, Andri Hrafn Deal, f. 1985, Atli Sigurðsson, f. 1998, d.1998; 6) Árdís tækniteiknari, f. 11.10. 1964, börn hennar eru: Gunnar Sveinsson, f. 1981, og Katrín Sveinsdóttir Bates, f. 1991; 7) Sædís sjóntækjafræðingur, f. 9.2. 1975, maki Einar Friðriksson, f. 1974, börn hennar frá fyrra hjónabandi eru: Alexander Orri Rafnsson, f. 1995, Sveindís Auður Rafnsdóttir, f. 1998, Soffía Erla Rafnsdóttir, f. 2001, Sóley Sara Rafnsdóttir, f. 2003. Langömmubörnin eru orðin 18.

Soffía lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1949. Hún starfaði á St. Jósepsspítala sem gangastúlka stuttan tíma, síðan tóku við barneignir og heimilishald næstu áratugina. Hún vann við afgreiðslu í sjoppunni á Hvaleyrarholti um tíma, hún vann í Norðurstjörnunni í Hafnarfirði í stuttan tíma, en vann í nokkur ár á Sólvangi í Hafnarfirði við umönnun aldraðra en lengst af vann hún hjá heimaþjónustu á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Soffía starfaði í fjölda ára innan Oddfellow-reglunnar í Hafnarfirði. Soffía var einnig mikil hannyrðakona.

Útför Soffíu fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 6. júní 2018, klukkan 13.

Elskuleg móðir okkar hefur nú kvatt þetta jarðlíf.
Margar hugsanir streyma í gegnum hugann á svona stundu og minningarnar hellast yfir.
Þegar við systur hugsum til baka þá var mamma alltaf kletturinn og fasti punkturinn í okkar lífi. Hún var alltaf blíð og góð og við höfum verið að rifja það upp, að við munum eiginlega aldrei eftir því að hún hafi skipt skapi.  Hún hafði aðdáunarvert jafnaðargeð og lét ekki áföll og storma í lífsins ólgusjó setja sig út af laginu. Því miður getum við systurnar ekki státað af eins miklu jafnaðargeði og æðruleysi og móðir okkar, en vildum óska að við hefðu erft þann eiginleika hennar í meira magni. Ævistarf mömmu fólst í barnauppeldi og umönnun. Mamma var bara húsmóðir og var stolt af því ævistarfi sínu og hún lagði sig alla fram við að vinna það af alúð. Hún var húsmóðir eins og þær gerðust bestar á tímum þegar það var ekki fundið konum til foráttu að hugsa um fjölskyldur sínar og heimili. Mamma var húsmóðirin sem var alltaf til staðar. Hún var heima þegar við komum úr skólanum og hafði matinn tilbúinn á réttum tíma. Hún var hagsýn húsmóðir og eldaði og bakaði allt frá grunni eins og það heitir núna og er nú voða mikið í tísku, en í þá daga var það bara þannig sem húsmæður gerðu hlutina. Heimilið var alltaf opið öllum hennar afkomendum, hvort heldur sem var dætrum, barnabörnum eða langömmubörnum, og ekki síður tengdasonum og fjölskyldunni allri hver svo sem tengslin annars voru. Mamma var aðeins 17 ára þegar hún eignaðist fyrstu dótturina og þegar hún var 22 ára voru dæturnar orðnar fjórar. Það hefði eflaust einhverri vaxið móðurhlutverkið í augum svona ungri að aldri, en ekki mömmu. Hún lagði metnað sinn í að sinna barnauppeldinu af kostgæfni, oft við aðstæður sem í dag mundu teljast erfiðar, eins og til dæmis að hún var langtímum saman ein með dæturnar fjórar, þar sem pabbi okkar var vélstjóri í þá daga hjá Eimskip og var í millilandasiglingum. Það var enginn sími á heimilinu, húsið hafði kolakyndingu og það þurfti að sækja kol í útiskúr og kveikja upp í miðstöðinni, sem gat verið erfitt sérstaklega á köldum vetrardögum. Það var ekki heitt vatn í húsinu svo að það þurfti að hita vatn í stórum potti til að vaska upp og baða öll börnin. Það var stór suðupottur til að sjóða þvottinn og svo mætti lengi telja. En mamma vann sína vinnu og stóð sig eins og hetja, dæturnar alltaf hreinar og stroknar og höfðu alltaf nóg og gott að borða. Seinna byggðu mamma og pabbi hús að Háabarði 11 í Hafnarfirði og þegar þangað var flutt bættust tvær dætur enn í hópinn og þá voru þær orðnar sex dömurnar. Á Háabarðinu varð lífið þó talsvert auðveldara fyrir mömmu þrátt fyrir fjölgun dætranna, bæði var það að elstu stelpurnar gátu nú aðeins aðstoðað hana við heimilistörfin og við að passa litlu systurnar og svo komu ýmis nútíma þægindi til sögunnar svo sem heitt vatn í krönum, olíukynding og síðar hitaveita að ekki sé nú talað um sjálfvirka þvottavél, síma og margt fleira, auk þess sem pabbi hætti á sjónum um þetta leiti. Lífið á Háabarðinu var harla gott og dæturnar uxu úr grasi. Þegar elstu fjórar voru um tvítugt og yngra hollið um tíu ára fékk pabbi vinnu sem verksmiðjustjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, þannig að mamma og pabbi ásamt tveimur yngstu dætrunum fluttu til Siglufjarðar þar sem þau bjuggu í sex ár. Mömmu leið ekki sérlega vel á Siglufirði, en að sjálfsögðu kvartaði hún ekki og vann sína vinnu eins og venjulega. Á þessu tímabili fæddist fyrsta ömmubarnið hennar og móðir og barn fluttu til Siglufjarðar þar sem mamma hjálpaði til við að passa litla ömmudrenginn, hvað annað! En svo gerðist eitt kraftaverkið enn, mamma sem hélt að hún væri nú ábyggilega komin úr barneign, eignaðist þar sjöundu dótturina. Eldri dæturnar voru mjög ánægðar með að fá þessa litlu systur svona óvænt, en stríddu mömmu með því að loksins hefði hún nú eignast dótturina sem hana langaði alltaf svo til að eignast! Ein af dætrunum eignaðist líka son það sama ár og svo vildi svo skemmtilega til að sú var líka samferða yngstu systurinni þegar hún átti sitt fyrsta barn. Svona er lífið oft skrítið og skemmtilegt. Eftir sex ára veru á Siglufirði fluttust mamma og pabbi aftur til Hafnarfjarðar þar sem þau bjuggu það sem eftir var ævinnar. Þega dæturnar voru vaxnar úr grasi fór mamma að vinna úti og vann lengst af við umönnun sjúkra og aldraðra bæði á Sólvangi í Hafnarfirði og svo hjá heimilisþjónustunni hjá Hafnarfjarðarbæ. Síðustu tíu árin bjó hún að Hjallabraut 33 en þangað höfðu þau pabbi ætlað að flytja saman og búa í ellinni, en því miður greindist pabbi með Parkinsonsveiki og þegar mamma flutti á Hjallabrautina flutti pabbi á Sólvang þar sem hann lést 2008.
Það sem mamma elskaði mest í lífinu var að vera með fjölskyldunni sinni. Þegar henni var boðið að koma í afmæli eða hvað sem var, þar sem fjölskyldan var samankomin, sagði hún alltaf já. Hún vildi helst koma fyrst og fara síðust. Hún naut þess að vera innan um börnin og nýtti hvert tækifæri til að vera þar sem þau voru. Núna í vor þegar heilsa hennar var farin að bresta átti hún sér eitt markmið en það var að mæta í allar þrjár fermingarveislurnar hjá langömmubörnunum sem fermdust nú í vor. Henni tókst að ná því markmiði sínu og hún var svo glöð og stolt af sjálfri sér að hafa tekist þetta ætlunarverk sitt. Það er okkur systrum huggun að síðasta mánuðinn sem hún lifði fór hún í sex veislur hjá fjölskyldunni, þar sem ein var sameiginleg afmælisveisla hennar og Soffíu nöfnu hennar og svo fór hún í afmæli Eiðs bróður síns og frændsystkinahitting í Hafnarfirði. Hún mætti á alla tónleika, leikrit, útskriftir og allt sem börnin okkar voru að gera og var stolt og ánægð með hvert einasta þeirra. Henni fannst dætur sínar góðar og var mjög ánægð með þær, en barnabörnin og barnabarnabörnin þau voru dásamleg í hennar augum. Hún sagði oft að hún skyldi bara ekkert í því hvernig gæti staðið á því að hún ætti svona fallega, glæsilega, góða og hæfileikaríka afkomendur þar sem hún hefði nú aldrei verið neitt skjönnhed sjálf. En það var nú óþarfa hæverska hjá henni mömmu því hún var gullfalleg bæði að innan sem utan, en hún var aldrei að berja sér á brjóst eða hreykja sér af neinu, hún hafði ekki þörf fyrir það. Hún vann sín verk í hljóði á bak við tjöldin, en hún var ómissandi máttarstólpi í lífi okkar dætranna og okkar barna.
Hvíl í friði elsku mamma þú munt alltaf lifa í hjörtum okkar, hafðu þökk fyrir allt!
Þínar elskandi dætur

Helga, Fjóla, Hulda, Svala, Lilja, Árdís og Sædís.