Ingibjörg Jóna Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 21. mars 1944. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 28. maí 2018. Foreldrar hennar voru hjónin Jón M. Þorvaldsson, skipstjóri í Reykjavík, f. 24.4. 1900 á Rauðstöðum í Arnarfirði, d. 30.1. 1965, og Ingibjörg Þórðardóttir, húsfreyja í Reykjavík, f. 22.4. 1903, frá Laugabóli í Ísafirði, Ísafjarðardjúpi, d. 26.5. 1977.
Systkini Ingibjargar Jónu eru: Þór Halldórsson viðskiptafræðingur, f. 12.10. 1932 í Reykjavík, d. 18.5 1970, maki Svava Davíðsdóttir bankastarfsmaður, Halla Jónsdóttir tanntæknir, f. 13.12. 1936 í Reykjavík, d. 12.1. 2018, og Kristrún Jónsdóttir tannsmiður, f. 9.12. 1941, maki Njörður Tryggvason byggingaverkfræðingur, d. 18.6. 2010.
Ingibjörg Jóna giftist 17.9. 1966 Ingjaldi Bogasyni tannlækni, f. 18.9. 1940. Börn þeirra eru: 1) Jón Þorvaldur, dr. í sálfræði, f. 28.3. 1967, d. 27.4. 2004, maki Guðríður Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 17.8. 1965. Synir þeirra eru Ingjaldur Bogi tæknifræðingur, f. 17.6. 1990, og Ásmundur Logi stúdent, f. 10.4. 1996. 2) Ingibjörg Steinunn, rekstrarfræðingur og atvinnurekandi, f. 20.4. 1968, maki Guðmundur Ragnar Guðmundsson, rekstrarfræðingur og atvinnurekandi, f. 18.8. 1967. Börn þeirra eru Guðmundur Heiðar lögfræðingur, f. 26.6. 1991, Inga Björk stúdent, f. 6.6. 1994, og Arnaldur Þór stúdent, f. 9.7. 1998. 3) Sólborg Þóra hjúkrunarfræðingur, f. 17.3. 1971, maki Einar Geir Hreinsson lyfjafræðingur, f. 11.12. 1963. Börn þeirra eru Marvin Ingi iðnaðarverkfræðingur, f. 7.2. 1991, maki Birgitta Steingrímsdóttir líffræðingur, f. 28.9. 1991, sonur þeirra er Einar, f. 14.4. 2018, Ingibjörg Rut stúdent, f. 19.12. 1997, Snædís Halla menntaskólanemi, f. 21.12. 1999, og Steinunn Marín grunnskólanemi, f. 21.3. 2007.
Ingibjörg lauk stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands 1965 og síðan kennaraprófi frá Kennaraskólanum. Síðar bætti hún við sig sérkennaranámi og námi í kynjafræðum við Háskóla Íslands.
Á námsárunum vann hún ýmis störf, meðal annars hjá Búnaðarbankanum og sem flugfreyja hjá Flugleiðum. Að kennaranámi loknu kenndi hún einn vetur við Landakotsskóla. Þau hjón fluttust til Akraness í nóvember árið 1967, þar sem Ingjaldur hóf störf sem tannlæknir. Ingibjörg starfaði við Brekkubæjarskóla, fyrst sem bekkjarkennari og síðar sem sérkennari, samtals í um þrjátíu ár.
Ingibjörg Jóna helgaði líf sitt starfi sínu og fjölskyldu. Hjónin byggðu fallegt hús í Jörundarholti 174 á Akranesi og bjuggu þar í um 35 ár þar til þau fluttust í Garðabæ í febrúar 2016.
Útför Ingibjargar Jónu fer fram frá Akraneskirkju í dag, 6. júní 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma mín, það er komið að kveðjustund. Við horfum á eftir þér inn í eilífðina með djúpum söknuði. Þangað sem við öll einhvern tímann förum, friður frá þjáningum, friður í hjarta, sátt við lífdaga þína og allt það sem þú stóðst fyrir og skildir eftir þig. Við höldum áfram að lifa og vanda okkur við hvern dag. Pabbi er hér með okkur og við njótum þess að fá að hugsa um hann.
Þú reyndist mér hlý og góð móðir. Með faðminn þinn opinn og hlýjan tókstu ávallt á móti mér fagnandi. Með hlýlegu röddinni dróstu fram eitthvað jákvætt í fari mínu eða útliti. Ég leyfði mér að efast um innistæðuna fyrir svo uppörvandi orðum sem við grínuðumst með og kölluðum Hrós-vítamínin hennar mömmu. Það var þín leið til að næra okkur með ást og væntumþykju, fá okkur til þess að vera sátt í eigin skinni. Sama hvernig dagsform þitt var varstu alltaf til staðar tilbúin að hlusta og styðja. Þú sást alltaf eitthvað gott í öllum. Eftir að þið pabbi fluttust í bæinn urðu samverustundir okkar fleiri og dýrmætari, þú hafðir meiri tíma og við næði til að styrkja tengsl okkar. Þú hafðir mikla trú á hjónabandinu og lagðir mikið upp úr því að fólkið þitt legði rækt við sín sambönd.
Þú varst fjölskyldumanneskja mikil, ræktaðir garðinn þinn vel, umhugað um velferð okkar allra. Þráðir ekkert heitar en að afkomendur þínir fyndu sér hillu í lífinu, lifðu sátt og hamingjusöm. Ef verkefnin voru stjór stappaðir þú í okkur stálinu og studdir við með hlýju. Fjölskyldan hafði forgang í lífi þínu og þú hafðir væntingar til þess að við gerðum slíkt hið sama. Sem fullorðin manneskja velur maður þau gildi sem manni þykir eftirsóknarverð frá uppvexti sínum og eru samverustundir með fjölskyldunni eitt af þessum góðu gildum sem ég fer með út í lífið. Eftir að við börnin fluttum að heiman lagðir þú mikið upp úr að við héldum þeim sið að hittast um helgar í Jörundarholtinu, með mökum okkar og börnum. Oftast var kátt á hjalla en stundum gat fólk tekist á við matarborðið í líflegum umræðum s.s. um pólitík eða önnur álitamál. Þrátt fyrir ástríkt uppeldi erum við ekki skaplaust fólk og eigum erfitt með að liggja á skoðunum okkar þegar eitthvað kemur við okkur varðandi menn eða málefni. Þú kaust að umbera ólík sjónarhorn, viðhorf og lífssýn. Þráðir ekkert heitar en að við fjölskyldan gætum lifað saman í sátt og samlyndi. Þú gast þó verið seinheppin í vali á umræðuefni og ljáð máls á einhverju sem gat hitt á viðkvæma strengi. Það var þín leið til að brjóta upp þögn og kannski þín leið til að kalla fram lífleg viðbröð. Viðbrögð okkar voru þó oftast hlátrasköll enda vissu allir að þú varst vel meinandi. Í þínum huga var fólk ekki að rífast, aðeins að rökræða hlutina. Þú lagðir áherslu á að reyna að sætta ólík sjónarhorn og vera sammála um að vera ósammála. Þú kaust að horfa á kosti fólks fremur en að galla þess. Vildir horfa fram hjá leiðindum og höfða til máttar fyrigefningarinnar. Þú elskaðir okkur öll og fátt gaf þér eins mikið að vita af okkur lifa saman í sátt og samlyndi.
Þú sýndir mikið baráttuþrek og lífsvilja í veikindunum þínum, leyndir þeim ekki né barmaðir þér yfir örlögum þínum. Þú hafðir mikið að lifa fyrir eins og þú sagðir sjálf. Sjúkdómurinn tók yfir, þú sýndir æðruleysi, sættir þig við það sem þú fékkst ekki breytt, gerðir það besta úr stöðunni og nýttir tímann vel. Studdir við okkur og hvattir áfram með einlægni þinni og ást. Notaðir húmor sem styrk í seinni tíð og elskaðir fátt eins mikið og fá okkur til þess að hlæja. Þjáningum þínum er lokið og þú kvaddir okkur með frið í hjarta. Minningin lifir um einstaka móður, móður sem ég er svo stolt af að hafa getað kallað mömmu mína. Móður sem hlúði að mér, veitti ást, hvatti mig áfram, nærðisál mína, kenndi mér að elska og umbera. Á stundum sorgarinnar verða tilfinningar manns sterkari en nokkru sinni og skilningur á ástinni og því sem mestu máli skiptir í lífinu blasir við. Að hafa tíma til að vera, hlusta og gefa. Að elska og vera elskaður.
Á kveðjustundinni var ekkert ósagt, þú vissir af ást okkar til þín og við af þinni. Líf þitt var gott, þú hreyfðir við mörgu til hins betra, sást alltaf það góða í öllum og varst stolt af arfleifð þinni. Svo kvaddir þú okkur svo fallega og blíðlega. Horfðir stolt yfir hópinn þinn, smelltir á hann fingurkossi með orðunum sem þú áttir svo auðvelt með að segja: Ég elska ykkur. Kossinn sem við sjáum áfram fyrir okkur í hugskotssjónum, ein af mörgum dýrmætu minningum sem munu lifa áfram í hjörtum okkar allra.
Þú ert styrkur minn, fjársjóður minn og vinur minn - kletturinn sem hefur ekki haggast öll þessi ár. Mín kæra ástkæra móðir.
Þakka þér.
Hvíl í friði elsku mamma.
Þín,

Sólborg.