Sigursteinn Sigurðsson fæddist í Reykjavík 18. júlí 1958. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 15. maí 2018.

Foreldrar Sigursteins eru hjónin Sigurður S. Magnússon, yfirlæknir og  prófessor, f. 16. apríl 1927, d. 21. október 1985, og Audrey Magnússon hjúkrunarkona og húsfreyja, f. 5. janúar 1932.

Systur Sigursteins eru Ingibjörg, f. 21. júlí 1957, hún á fimm börn og fimm barnabörn, m. Þorleifur Stefán Guðmundsson d. 1. september 2016. Anna María, f. 4. júlí 1960 bús. í Svíþjóð, hún á þrjú börn, m. 1 Niki Langhammer, d. 27. september 1999, m. 2 Janusz Gross. Snjólaug Elín, f. 27. ágúst 1962, hún á þrjú börn, m. Ragnar Hrafnsson. Hjördís, f. 13. október 1964, hún á einn son með fyrrverandi sambýlismanni, Þórarni Kristjánssyni, og eitt barnabarn.

Dóttir Sigursteins er Alva Líney Audrey Sigurdsson, f. 25. apríl 2000 bús. í Svíþjóð og er móðir hennar Annica Pettersson.

Þegar Sigursteinn var tveggja ára flutti fjölskylda hans til Edinborgar í Skotlandi og þaðan til Svíþjóðar þar sem hún bjó í Köping og lengst af í Umeå. Hann lauk grunnskólagöngu í Sofiehemsskolan og Mimerskolan í Umeå og flutti fjölskyldan aftur til Íslands árið 1974, þegar hann var 16 ára gamall. Sigursteinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1979 og vann sem innkaupafulltrúi og deildarstjóri hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga á árunum 1980 - 1991. Þá flutti hann til Stokkhólms í Svíþjóð þar sem hann bjó í 17 ár en hann stundaði einnig nám um tíma við Hälsohögskolan í Jönköping. Sigursteinn flutti aftur til Íslands árið 2008 og bjó í Reykjavík. Frá árinu 2013 vann hann í Seljahlíð, heimili aldraðra, í Reykjavík, og starfaði hann þar til dauðadags. Aðal starfsvettvangur hans síðustu áratugina var við liðveislu og aðhlynningu.

Útför Sigursteins fór fram í kyrrþey frá Háteigskirkju 4. júní 2018.

Í dag, þann 18. júlí, hefði bróðir okkar og mágur, Sigursteinn Sigurðsson, orðið sextugur en hann varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 15. maí sl. Steini, eins og hann var jafnan kallaður, var eini strákurinn í fjölskyldu okkar og umkringdur okkur fjórum systrunum.

Steini fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 18. júlí 1958. Vegna sérnáms og starfa föður, flutti hann árið 1960 ásamt foreldrum og eldri systur, Ingibjörgu, til Edinborgar í Skotlandi. Þar fæddist systir númer tvö, Anna María. Þaðan lá leiðin til Svíþjóðar, þar sem fjölskyldan bjó í Köping um tíma og þar bættist Snjólaug Elín í systkinahópinn. Lengst af var fjölskyldan búsett í Umeå, í norðurhluta Svíþjóðar, og þar fæddist yngsta systirin, Hjördís.

Æskuárin í Svíþjóð liðu við leik og störf. Steini lék knattspyrnu og þótti efnilegur sundmaður en hann æfði sund hjá Umeå simsällskap í mörg ár. Á veturna var farið á skíði og spilað íshokkí. Hann hafði mikið keppnisskap og mætti samviskusamlega á allar íþróttaæfingar. Steini var duglegur að vinna sér inn aura,  var óþreytandi við að selja happdrættismiða og gekk í hús og seldi sunnudagsútgáfu Dagens Nyheter snemma á sunnudagsmorgnum ásamt eldri systur sinni. Ekki voru allir íbúar blokkanna kátir með að dyrabjöllunni væri hringt á ókristilegum tíma um helgar og gafst systir upp á sölumennskunni löngu áður en Steini hætti. Steini og vinur hans ákváðu að bjóða upp á barnapössun á kvöldin og um helgar og auglýstu þeir um allt hverfið og innan tíðar blómstruðu viðskiptin. Þeir vinirnir neyddust þó til að hætta þessu starfi þegar ein móðirin hafði ekki skilað sér heim næsta morgun eftir djammið og litla barnið hennar var svangt og hætti ekki að gráta. Þá sagði mamma Audrey stopp, hingað og ekki lengra! Steini var einnig í hlutastarfi hjá kaupmanninum á horninu, Farbror Karlsson. Þar sinnti hann verslunarstarfinu samviskusamlega og af natni og tók hann sig vel út í bláa kaupmannssloppnum við afgreiðsluborðið og við að raða vörum  í hillurnar.

Lífið gjörbreyttist sannarlega árið 1974 þegar fjölskyldan flutti til Íslands, en Steini var þá að verða 16 ára gamall. Nýtt umhverfi, nýtt tungumál, nýir vinir, ný áhugamál, engir hjólastígar, nýr skóli og nýtt veðurfar, það var að minnsta kosti töluvert öðruvísi en það sem við vorum vön í Svíþjóð: allt voru þetta aðstæður sem þurfti að aðlagast og læra inn á. Það allt tók sinn tíma en Steini var ávallt bjartsýnn og jákvæður. Hann hélt ótrauður áfram í verkefnum dagsins og leitaði lausna þegar okkur systrum hans fundum allt til foráttu í nýja heimalandinu.

Steina gekk vel að eignast vini enda var hann félagslyndur, forvitinn og léttur í lundu, geðgóður, mikill brandarakarl og pínu stríðinn. Hann sinnti námi sínu vel og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1979 eftir nokkur fjörug menntaskólaár. Á þessum árum eyddum við elstu systkinin einnig löngum stundum á kaffihúsi Norræna hússins sötrandi óteljandi kaffibolla, drekkandi í okkur skandinavískt yfirbragð og andrúmsloft hússins og lúslásum sænsku dagblöðin, kannski til að viðhalda tengslin við gamla landið og fá að fylgjast með því sem var að gerast þar og úti í hinum stóra heimi. Það var líka bara svo gaman að vera saman, hann var góður félagi og húmoristi og gott var að eiga hann að.

Næstu ár liðu við leik og störf og vann Steini m.a. í nokkur sumur sem sjúkraliði á Nacka sjukhus í Stokkhólmi í Svíþjóð. En svo tók alvara lífsins við og hann stefndi út í atvinnulífið. Á árunum 1980-1991 vann hann sem innkaupafulltrúi og deildarstjóri hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga SÍS. Hann ferðaðist oft til útlanda vegna vinnunnar og naut mikils trausts og vinsældar meðal samstarfsmanna sinna. Þegar hann hætti að vinna hjá SÍS tók útþráin við og árið 1991 flutti hann til Stokkhólms. Eins og gengur og gerist minnkuðu samskiptin okkar en Steini hringdi þó reglulega og vildi fá fréttir af fjölskyldunni, systrabörnunum og vinum. Næstu árin vann hann m.a. við liðveislu og aðhlynningarstörf hjá Stockholms Stad, Nacka kommun og Riksbyggen. Um tíma stundaði hann nám við Hälsohögskolan í Jönköping. Hann var í sambúð með Annica Pettersson í nokkur ár og eignaðist með henni dótturina Alva sem fæddist 25. apríl árið 2000 og er hún því rétt nýorðin 18 ára. Annica og Steini slitu samvistum.

Leiðin lá aftur til Íslands árið 2008 með þáverandi sambýliskonu, Marika Inger Andersdotter Ollén, en þau slitu síðar samvistum. Á þessum tíma fór allt á  hvolf  á Íslandi, eins og flestum er kunnugt, og fór Steini ekki varhluta af erfiðleikunum. Steini sinnti þá m.a. störfum hjá Landspítalanum og Reykjavíkurborg. Hann var síðar í sambúð með Katrínu Guðjónsdóttur til ársins 2018 er þau slitu samvistum. Frá árinu 2013 vann Steini í Seljahlíð, heimili aldraðra, í Reykjavík og starfaði hann þar til dauðadags. Hann var ánægður í vinnunni, vinsæll og vel liðinn hjá samstarfsmönnum sem og skjólstæðingum öllum.

Alva dóttir hans hefur komið reglulega til Íslands til að hitta og dvelja hjá pabba sínum og einnig skrapp Steini stundum til Stokkhólms til samfunda við stelpuna sína.

Í dag viljum við minnast Steina bróður sem góðs drengs sem var góðum mannkostum búinn. Hann reyndi á sinn hátt að breyta rétt í þau skipti sem hlutirnir gengu ekki upp en þótt honum tækist það ekki alltaf, þá reyndi hann ætíð sitt besta. Það geisuðu stormar í lífi Steina og hann barðist við skugga sem lituðu ævi hans. Hann er nú kominn í var.

Nu är du fri gode broder. Vila i frid. (Núna ertu frjáls góði bróðir. Hvíldu í friði)

Ingibjörg, Anna María, Snjólaug Elín og Ragnar.