Magnea Jenny Guðmundardóttir fæddist á Ísafirði 2. apríl 1963. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 6. ágúst 2018.

Magnea ólst upp á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hennar voru Guðmundur Kristján Magnússon, f. 1927, d. 2018, og Kristín Steinunn Þórðardóttir, f. 1928, d. 2005, bændur á Melgraseyri. Bróðir Magneu er Snævar, f. 1956, giftur Önnu Guðnýju Gunnarsdóttur, f. 1969. Systir Magneu var Þórunn Helga, f. 1959, d. 2012.

Magnea var í sambúð með Finnboga Kristjánssyni, f. 1958, frá 1984 til 2004. Eignuðust þau saman dótturina Ragnheiði Kristínu, f. 1991, sem er í sambúð með Gilad Peleg, f. 1988.

Magnea gekk í Reykjanesskóla við Ísafjarðardjúp og lauk þar námi 1979. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1984. Þaðan lá leið hennar í Háskóla Íslands þar sem hún lagði stund á lögfræði og mannfræði, þar til hún fann sinn farveg í landfræði sem hún lauk með B.Sc.-gráðu árið 1995. Hún kláraði einnig diplómanám í viðskipta- og rekstrarfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands, sem og nám í fjárhagsbókhaldi hjá Navision. Þar að auki stundaði Magnea mastersnám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í landnýtingu.

Magnea starfaði m.a. sem gjaldkeri hjá HHÍ, á fasteigna- og lögfræðistofu, og einnig sem hótelstýra hjá Hótel Eddu. Síðast vann hún við bókhald hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Kveðjuathöfn Magneu fer fram í Áskirkju í dag, 17. ágúst, og hefst athöfnin kllukkan 13. Útför verður frá Melgraseyrarkirkju 18. ágúst, og hefst athöfnin klukkan 14.

Ég kynntist Magneu fyrst fyrir um það bil 34 árum, hún 21 árs og ég 25 ára. Það var eftir ball verslunarmannahelgina 6. ágúst 1984 í Birkimel á Barðaströnd.
Þessa helgi hafði flugstjóri á Ísafirði boðið mér flugfar austur í Atlavík, en ég var þá fréttaritari og blaðaljósmyndari á Vestfjörðum. Vildi síður yfirgefa mitt svæði þessa helgi. Þann sama dag komu 18 ára stelpur úr Bolungarvík og vildu fá mig sem bílstjóra yfir helgina, en þær ætluðu einmitt á ball í Birkimel. Þetta var meira spennandi, þar sem ég hafði áður haft samskipti um vorið við starfsfólkið á hótelinu í Flókalundi, í sömu sveit, þar sem ég var að ferja bíl suður um vorið í svarta þoku og þurfti bensín að næturlagi og kvaddi út næturvörðinn, sem var hótelstýran Birna Jónasar, ein besta vinkona Magneu. Ég hafði áður tekið eftir Magneu á götu á Ísafirði, ásamt bestu vinkonu hennar Jóhönnu, sem fylgdi henni eins og skugginn.
Við Birna tókum spjall saman í bensínskúrnum í Flókalundi um blaðamennsku, pólitík og menningarleg málefni en talið barst oft að þessari vinkonu hennar, sem ég var forvitinn um. Birna seldi mér alveg þessa hugmynd að ég þyrfti að hitta Magneu, við tækifæri. Það gerði ég svo síðar. Það atvikaðist þannig eftir ballið í Birkimel að ég hafði forræði yfir þessum bolvísku stelpum, að koma þeim í háttinn, og ók inn í skóg í Vatnsfirði. Bíllinn var þannig að hægt var að sofa í honum, þær sváfu aftur í en ég frammi í. Um nóttina var dyrum lukt upp og inn kom myndarleg kona sem vildi tryggja að hún fengi koss frá mér. Hún tjáði mér svo síðar að hún hefði ásamt vinnufélögum hennar gert að mér leit og svo fundið mig í skóginum inni við vatnið. Þetta var fyrsti kossinn. Eftir það réðu örlögin því að við fórum að hittast oftar, þá í Flókalundi fyrst og síðar varð það ákvörðun hjá mér, með hjartanu, að hún yrði minn vinur og ástkona. Magnea var glæsileg kona, vel klædd, smekkleg og vinur vina sinna.

Eftir þetta vorum við í föstu sambandi, í sambúð næstu tuttugu árin. Það samband var mjög gefandi og gaf af sér hamingju, ást og erfingja. Fyrsta árið vorum við í hálfgerðri fjarbúð, þar sem ég var í skóla á Bifröst í Borgarfirði en hún í lögfræði í Reykjavík. Annað árið fluttist hún með mér upp á Bifröst og okkar fyrsti búskapur var í sumarbústað nærri Hreðavatni um vetur.

Síðan fluttum við suður en unnum sumarvinnu fyrir vestan, hún við Hótel Eddu en ég við búskap, sjómennsku og byggingarvinnu. En við festum frekar ráð okkar og fengum vinnu í höfuðborginni. Leigðum íbúð fyrst en fórum svo að huga að fasteignakaupum. Magnea vildi hafa allt planað, öruggt og með vissu. Við höfðum allan heiminn að fótum okkar og vorum opin fyrir hverju sem var, hvort sem það var vinna, frekari menntun, eitthvert spennandi verkefni eða tengt fjölskyldunni.

Heimili okkar var einfalt, til að byrja með, eitt gamalt retro sófasett, plastpoki út um gluggann til að kæla mat og dýnur á gólfinu. En Technics-græjur sem Magnea átti, með plötuspilara með segulbandi, ásamt heddfóni. Þarna var spiluð öll eitís- og næntísmúsík sem til var í heiminum. Það var gaman, heimilið fullt af hamingju. Magnea lagði upp úr því að eiga gott plötusafn og góðar græjur til að heyra sándið vel.

Síðar útbjuggum við heimilið betur þegar hagur okkar vænkaðist. Heimili okkar var opið hverjum sem var og var oft gestkvæmt á því og buðum við í veislur. Við byggðum okkar síðar fallega íbúð með öllum þeim helsta búnaði sem hugsast gat á þeim tíma. Margir öfunduðu okkur hvað við vorum samhent við það og smekkleg.

Við sóttum bæði menntun í háskóla, hvort við okkar hæfi og áhuga. Þetta stunduðum við ýmist með vinnu eða alveg 24 tíma á dag. Það var ekki bara ein háskólagráða heldur nokkrar.

Við vorum mikið náttúrufólk og komum okkur upp ferðabúnaði. Tókum allt á bakið og lögðumst í útilegur. Allur búnaður keyptur af bestu sort, úr Skátabúðinni á Snorrabraut, sem er enn í fullu gildi. Ein slík ferð sem við fórum var gangandi með allt á bakinu, snemmsumars, út Snæfjallaströnd, yfir í Grunnavík þar sem við tjölduðum. Daginn eftir farið inn í Leirufjörð að Dynjanda en þá var veðrið farið að versna talsvert. Það var ekki hægt að tjalda vegna hvassviðris. Lögðum við í það að fara yfir Dynjandisheiði um kvöldið.

Það var allt á móti vindi, við með um 20 kg á bakinu á móti storminum og grýtt leið að fara yfir. Við hrufluðum okkur til blóðs á grjótnibbunum, hrösuðum í hlíðunum og jafnvægið ruglaðist við þungann á bakinu og hengiflugið handan við sylluna í fjallshlíðinni. Þetta var varla stætt en við höfðum það af um nóttina og vorum komin heim að Melgraseyri um morgun, ósofin og svöng. Þetta var erfitt en gaman að takast á við. Þannig fórum við í gegnum sambúð okkar, sem var oft átak við eitthvert verkefni eða njóta þess sem lífið og umhverfið hafði upp á að bjóða. Við þurftum oft að ganga á móti vindi í lífinu en með seiglunni tókst það. Magnea var töffari, hörð af sér enda eftirsótt í vinnu.

Næst fórum við um Jónsmessu, frá Hesteyri í Jökulfjörðum yfir í Aðalvík, með allt á bakinu. Gistum í risi á húsi á Hesteyri sem var reimt í, draugur á vappi á neðri hæðinni alla nóttina, við að skara í eldstæði og ganga um. Það var ekkert við því að gera en þannig er það stundum í lífinu, að víða leynist draugagangur í samfélaginu.

Um morguninn, þegar við komum upp á heiðina, fór að fenna og á skall blindbylur svo varla sást niður að sjó í Aðalvík. Við óðum fönnina upp í miðja leggi, um hásumar, og heim mýrarnar svo vall í skónum okkar. Við enduðum niður að sjó og tókum næturstað í slysavarnaskýli. Um morguninn hafði sólinn af skóm Magneu losnað frá yfir kabyssunni og hékk á lyginni við tána. Þá voru góð ráð dýr, skellti ég þeim saman meðan þeir voru heitir og þannig voru þeir næstu 12 árin. Svona ráð dugðu okkur oft, við hvaðeina í okkar sambúð, síðar meir. Við höfðum alveg gleymt því að Magnea var komin þarna um fjóra mánuði á leið en krafturinn og eljan í okkur, áhuginn á náttúrunni leiddi hugann frá því.

Við ferðuðumst víða um landið, komum okkur upp góðum ferðabíl og þá var fjölskyldan orðin aðeins stærri og var með í för, hvert á land sem var. Einkum voru tíðastar ferðir okkar vestur á Melgraseyri í öllum veðurfærðum ársins og þá oft aðstoðuðum við við búskap þar, hvort sem var að vori, sumri eða að hausti. Hagur okkar vænkaðist og við fjárfestum í jörðum á heimahögum okkar, öllum að óvörum, sem átti að vera okkar lífeyrir. Við fjárfestum líka í fasteignum í Reykjavík og rákum saman fasteignasölu, sem gekk mjög vel.

Við aðstoðuðum fjölskyldumeðlimi okkar, vini eða samstarfsfólk með einum eða öðrum hætti. Hvort sem það var fjárhagslega, vinnulega eða hvað annað sem bjátaði á. Magnea var fórnfús og hugsaði meira um aðra en sjálfan sig. Við treystum öllum. Þetta gekk vel í flestum tilfellum, sérstaklega með foreldrum hennar, sem voru sómafólk. En það var ekki alltaf sem hægt var að treysta fólki, hvort sem það var samstarfsfólk eða fjölskyldumeðlimir. Þegar á reyndi skilaði fólk ekki alltaf peningum og það var erfitt þegar við þurftum á því að halda. Það var auðvelt að svíkja okkur, við stóðum ekki í miklum málaferlum við fólk og við fórum flatt á því að treysta öðrum, því miður, sem hafði með sér skelfilegar afleiðingar fyrir okkur einkum fjárhagslega, sem tók mörg ár að vinna úr. Þetta reyndi því á sambandið og ákváðum við að slíta sambúð okkar að borði og sæng og harka á eigin fótum í sitt hvoru lagi og læra af reynslunni. Við vorum allaf vinir. Sennilega meiri vinir en mörg pör eftir skilnað. Við þurftum að standa saman, áttum barn sem við vildum hafa hag fyrir og komum til manns. Hún er mjög lík móður sinni en samt á sinn hátt öðruvísi.

Magnea var mjög traustur vinur, held að flestir séu sammála mér í því sem þekktu hana. Ég man eftir ummæli sem f.v. vinnuveitandi gaf Magneu. Þau voru einföld og stutt: Þú ert heppinn ef þú færð hana! Stuttu seinna hringdi þessi sami vinnuveitandi í hana og bauð henni starf aftur með meiri ábyrgð, sem Magnea þáði.

Veikindi Magneu voru grýttur vegur að fara yfir fyrir hana, mikill mótvindur í því og á brattann að sækja. Engin nokkur úrræði að fá þrátt fyrir góðan vilja hjá heilbrigðisstarfsfólki. Ég vakti yfir henni eina síðustu nóttina sem hún lifði. Hún var afar veik, orðin mállaus en skynjaði mig með augunum í rökkrinu í sjúkrastofunni. Heyrði hvað ég sagði og gat gefið mér merki með svipbrigðum sem ég þekkti.

Ég var heppinn að hafa kynnst henni og hafa haft hana í þau ár sem við áttum saman. Hún gaf mér kærleika og skilning á lífinu og fyllti mig æðruleysi.

Finnbogi Kristjánsson