Sigríður í Brattholti og Gullfoss Eftir EYRÚNU INGADÓTTUR Sigríður hafði hótað að fleygja sér í fossinn þegar fyrsta skóflustungan vegna virkjunarframkvæmdanna yrði tekin. Barátta hennar fyrir fossinum tók á sig ævintýrablæ.

Sigríður í Brattholti og Gullfoss Eftir EYRÚNU INGADÓTTUR Sigríður hafði hótað að fleygja sér í fossinn þegar fyrsta skóflustungan vegna virkjunarframkvæmdanna yrði tekin. Barátta hennar fyrir fossinum tók á sig ævintýrablæ. Almenningur dáðist að átthagaást og áræði Sigríðar, en peysuföt frá Reykjavíkurkonum leit hún á sem ölmusu og fór aldrei í þau.

m síðustu aldamót var Gullfoss leigður til 150 ára en kaupsýslumenn voru þá í óða önn að tryggja sér rétt yfir fossum í von um skjótfenginn gróða þegar virkjunarframkvæmdir hæfust. Annar eiganda fossins, Tómas Tómasson í Brattholti, fékk bakþanka og upp frá því hófust málaferli þar sem hann reyndi að fá samninginn ógiltan. Dóttir Tómasar, Sigríður, lagði á sig ómælt erfiði til þess að það tækist þau sex ár sem málaferlin stóðu. Þegar dómur féll í málinu, Brattholtsfeðginum í óhag, hótaði hún að henda sér í fossinn þegar fyrsta skóflustungan yrði tekin vegna virkjunarframkvæmda. Sigríður varð þekkt meðal samtíðarmanna vegna málaferlanna og sýndu þeir henni margvíslegan heiður. M.a. gáfu sveitungar Sigríðar henni mynd af Gullfossi er hún varð sjötug. Sigríði líkaði ekki myndin og henti henni í Hvítá.

Sigríðar hefur jafnan verið minnst vegna baráttu hennar fyrir Gullfossi og árið 1978 var reistur minnisvarði um hana við fossinn. Hinn 19. júní sl. var opnuð upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn hjá Gullfossi sem nefnd er Sigríðarstofa.

"KARLMANNSHUGUR Í KONUBRJÓSTI"

Sigríður fæddist í Brattholti í Biskupstungum hinn 24. febrúar 1871 og var dóttir Margrétar Þórðardóttur húsfreyju og Tómasar Tómassonar bónda. Af þrettán börnum þeirra hjóna komust sjö til fullorðinsára og var Sigríður næst elst.

Sigríður var stórbrotin kona sem fór sínar eigin leiðir og mundu sumir hafa kallað hana sérlundaða. Víst er að hún hafði sterk skapgerðareinkenni sem komu fram í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var listfeng og það bar við að útlendingar sem voru á leið til Gullfoss keyptu af henni myndir sem hún hafði teiknað. Einnig var hún lagin við að sauma í undirdekk en það er klæði sem breitt var undir reiðverið á baki hests. Sigríður var einnig vel að sér í grasafræði og þekkti nöfn á flestum þeim blómum og grösum sem uxu í heimahögum hennar.

Sigríður var lítið fyrir mannfagnaði og fór sjaldan að erindisleysu að heiman. Á yngri árum fór hún í réttir sér til skemmtunar en af ókunnum ástæðum hætti hún því um skeið. Oft var réttardagurinn eini dagur ársins þar sem öllum sveitungum gafst tækifæri til að hittast. Konur mættu þá yfirleitt prúðbúnar en karlar drógu fé í dilka. Systur Sigríðar fóru alltaf í réttir á meðan þær voru heimasætur en hún fór ekki aftur fyrr en nauðsyn bar til. Þá dró hún í sundur fé ásamt körlunum. Sigríður hætti einnig að sækja kirkju á meðan slíkar ferðir voru enn almennar.

Sigríður var víkingur til allra verka og vann framanaf að mestu við útistörf. Hún gekk í öll karlmannsverk, sló með orfi og ljá og batt. Eftir lát Guðrúnar, systur Sigríðar, árið 1918 þurfti hún að taka við innanhússtörfunum og eftir það vann hún jöfnum höndum úti og inni. Á meðan faðir hennar lifði réð Sigríður miklu um búskapinn en eftir lát hans árið 1926 og móður hennar árið 1928 tók Einar fóstursonur þeirra við búinu og voru valdahlutföllin önnur eftir það. Í manntali sem tekið var árið 1930 er Einar titlaður bóndi í Brattholti en Sigríður ráðskona þótt hún hafi erft jörðina eftir foreldra sína.

Sigríður þótti fríð á sínum yngri árum og hafði mikið og fagurt ljóst hár. Jóhann Kr. Ólafsson, nágranni hennar, lýsti henni svo árið 1955:

Hún er fremur toginleit, með fallegt hátt enni en dálítið kúpt, dökk augu og beint fallegt nef, slétt á kinn og frekar blökk í andliti, þó ekki rjóðleit. Stillt í framgöngu, ekki beint djarfleg og eins og hálf bæld á svip. Talar hægt og skýrt og leggur oft sérkennilega áherslu á orð og setningar. Mjög yfirlætislaus og dýravinur eins og það fólk allt. Listfeng var hún talin til handanna, en hefur víst lítið æft það.

Jóhann var nágranni Sigríðar í sjö ár og fékk mikið álit á henni. Hann getur þess að hún hafi verið traust og viljasterk, hjálpfús og ágætur nágranni:

Frekar var hún fátöluð, en þó alúðleg og fyrir kom að hún talaði af mælsku, en væri henni andmælt hafði hún ekki mörg orð, en þó duldist ekki að því fór fjarri að hún léti af sinni skoðun, því að þras eða deilur munu henni ekki hafa verið að skapi, en greind vantaði hana ekki, en mér fundust skoðanir hennar svo rígbundnar stundum og þröngsýnar að mér var ómögulegt annað en að mótmæla þeim. Ég heyrði hana t.d. segja eitt sinn, að það liti svo út, að hver maður, sem í hreppsnefnd kæmist yrði að versta manni þó að hann hefði verið besti maður áður. Átti þetta að koma fram í störfum þeirra fyrir sveitarfélagið.

Hannes Þorsteinsson segir í minningum sínum að Sigríður hefði erft skaplyndi föður síns og bæri "karlmannshug í konubrjósti". Víst er að Sigríður stóð fast á sannfæringu sinni og lét ekki í minni pokann baráttulaust. Árið 1908 kom upp sérkennilegt mál þegar þrír sveitungar Sigríðar kærðu hana fyrir sýslumanni en hún hafði unnið skemmdarverk á girðingu sem "Girðingarfélag Eystri Tungna" var byrjað að leggja. Girðingin átti að koma í veg fyrir strok fjár til afréttar á vori og verja heimalönd bændanna fyrir framrennsli afréttarfjár á sumri. Sigríður og Tómas voru mjög andsnúinn uppsetningu girðingar á fyrirhuguðum stað en þau óttuðust að strokfé á leið til afréttar að vori myndi safnast við girðinguna og gera usla í Brattholti. Ekki náðist samkomulag milli Tómasar og félagsins en þar sem land Brattholts náði einungis að Tunguheiði var byrjað að leggja girðinguna án samþykkis hans.

Sigríður þóttist ekki geta setið hjá aðgerðalaus og ásetti sér að rífa niður eða skemma girðinguna í þeirri von að hætt yrði við hana fyrir fullt og allt. Eitt sinn er hún var í smalamennsku á þessum slóðum, braut hún 3­4 girðingarstaura og stuttu síðar, er hún var þar stödd í sömu erindagjörðum, braut hún 13­14 staura. Í þriðja skipti fór Sigríður að heiman í þeim erindagjörðum að skemma girðinguna. Hún kippti upp 30­40 girðingarstaurum og varð það til þess að hætt var að girða í bili.

Fljótlega komst á sá kvittur að Sigríður væri viðriðin skemmdirnar og er hún var spurð játaði hún á sig verknaðinn umyrðalaust. Faðir hennar bauðst til að bæta skemmdirnar með því skilyrði að hætt yrði við framkvæmdir og lét á sér heyra að hann myndi ekki verða á móti girðingunni ef hún yrði lögð á öðrum stað, fyrir framan Brattholtsland, og bauðst jafnvel til að styrkja þær framkvæmdir. Girðingafélagið hélt fund til að ræða þá tillögu og voru félagsmenn jákvæðir þótt ljóst væri að um mun dýrari framkvæmd væri að ræða. Fundinum bárust þá skilaboð frá Sigríði um að hún myndi ekki hika við að rífa niður girðinguna þótt hún yrði reist á öðrum stað. Varð það til þess að fundarmenn höfnuðu tillögunni og ákváðu að kæra Sigríði fyrir sýslumanni.

Sigríður sagði við yfirheyrslur sýslumanns að hún væri þeirrar skoðunar að Brattholt yrði óbyggilegt ef girðingin kæmist upp en þá yrði faðir hennar að flæmast burt frá Brattholti, þar sem hann hefði dvalið nær allan sinn aldur. Hún sagði einnig að ef ekki hefði verið hætt við framkvæmdir girðingarinnar hefði hún haldið áfram skemmdarverkum. Sigríður hafði talið líklegt að athæfi sitt varðaði við lög og forðaðist því að láta heimilisfólk í Brattholti vita. Sýslumaður gerði Sigríði ljóst að það mætti búast við að sakamál yrði höfðað gegn henni. Hann gaf henni kost á að fá sér skipaðan talsmann en hún hafnaði því.

Guðríður Þórarinsdóttir segir í ritinu Inn til fjalla að málinu hafi lokið með því að Sigríður hafi gengið með skjal á milli bænda og óskað eftir að málið yrði látið falla niður. Flestir bændanna skrifuðu undir það og ekki var meira hreyft við því.

GULLFOSS SELDUR

Um síðustu aldamót fóru ferðamenn að venja komur sínar að Gullfossi og lá leiðin í gegnum hlaðið í Brattholti en fossinn var að hálfu í landi þess. Árið 1907 falaðist Englendingur nokkur eftir fossinum til kaups eða leigu í nafni erlends félags. Tómas, faðir Sigríðar, vildi ekki leigja eða selja fossinn og því bauð Englendingurinn 50.000 krónur í alla jörðina sem var gríðarmikið fé. Tómas bóndi neitaði að selja og er sagt að hann hafi svarað því til að hann seldi ekki vin sinn. Samkvæmt vátryggingamati árið 1908 var íbúðarhúsið í Brattholti metið á rúmlega 1.000 krónur. Það má því nærri geta að boð Englendingsins hafi verið margfalt virði jarðarinnar.

Kauptilboðið vakti mikla athygli og varð til þess að landstjórnin tók fossinn á leigu til 5 ára, frá 1. september 1907 til 1. september 1912, gegn 300 króna árgjaldi. Leigan skiptist jafnt á milli eigenda fossins, Tómasar í Brattholti og Halldórs Halldórssonar á Vatnsleysu í Biskupstungum, en hann átti þá Tungufellstorfuna.

Það voru fleiri en stjórnvöld sem höfðu áhuga á Gullfossi. Skömmu eftir að landstjórnin tók fossinn á leigu falaðist Þorleifur Guðmundsson kaupmaður, Stóru-Háeyri á Eyrarbakka, eftir fossinum til leigu. Hinn 20. febrúar 1909 gerðu Tómas í Brattholti og Halldór á Vatnsleysu samning við Þorleif um leigu á Gullfossi til iðnreksturs. Samningurinn, sem var til 150 ára, gilti frá 1. september 1912 og átti Þorleifur að greiða 300 króna ársleigu fyrstu fimm árin. Leigan átti að greiðast í einu lagi við gildistöku samningsins, alls 1.500 krónur, en síðan var gert ráð fyrir áfangahækkunum.

Tveimur vikum síðar, hinn 9. mars, gerðu Þorleifur, Tómas og Halldór með sér nýjan samning. Þar var ákvæði fyrri samnings, um að landsjóði yrði gefinn kostur á að ganga að samningnum ef leigurétturinn yrði framseldur, fellt út. Eftir því sem Tómas sagði síðar, við réttarhöld í málinu, vissi hann ekki betur en að seinni samningurinn hafi verið samhljóða þeim fyrri. Þorleifur hafi gefið þá ástæðu fyrir gerð seinni samningsins að hann yrði ekki þinglesinn þar sem hann hefði verið ritaður á ómerkilegt blað. Tómas treysti orðum Þorleifs og skrifaði undir samninginn án þess að lesa hann fyrst yfir.

Ætla má að árið 1909 hafi verið fjárhagslega erfitt fyrir Tómas í Brattholti. Í september 1909 fór Landsbanki Íslands fram á uppboð á jörðinni vegna vanskila. Tómas hafði ekki greitt af láni hjá bankanum í tæpt ár og var skuldin komin í 313 krónur auk vaxta og dráttarvaxta. Skömmu síðar dró Landsbankinn uppboðsbeiðnina til baka þar sem Tómas hafði gert upp skuldina. Það er sennilegt að vanskil þessi hafi hvatt Tómas til að taka tilboði Þorleifs um langtímaleigu á fossinum. Samningurinn gat þó ekki gengið í gildi fyrr en haustið 1912, þegar samningurinn við landstjórnina yrði laus, en þá var gert ráð fyrir fyrstu greiðslu. Það mun því ekki hafa verið tilhugsunin um skjótfenginn gróða sem lokkaði Tómas en hafa ber í huga að Þorleifur var mikilsvirtur og valdamikill kaupmaður sem betra hefur verið að hafa með sér en á móti.

Ellefu dögum eftir seinni samningsgerðina, hinn 20. mars 1909, framseldi Þorleifur Sturlu Jónssyni kaupmanni í Reykjavík samninginn. Eftir því sem Gils Guðmundsson segir í ævisögu Einars Benediktssonar, Væringjanum mikla, var Sturla erindreki Einars og má því ætla að réttindanna hafi beinlínis verið aflað til að fá þau síðar í hendur fossafélögunum Skjálfanda eða Íslandi. Skömmu eftir að Sturla öðlaðist umráðaréttinn yfir Gullfossi varð Einar viðskila við félaga sína í fyrrnefndum félögum. Samkvæmt Dómsmálabók Árnessýslu lofaði Sturla félaginu Mendel og Cooper í London leiguréttinum yfir Gullfossi en prófessor Einar Arnórsson var umboðsmaður þess. Þessu loforði var þinglýst á manntalsþingi fyrir Biskupstungnahrepp hinn 26. júní 1913. Ári síðar var hins vegar þinglesin yfirlýsing frá Sturlu að loforð hans til Mendel og Cooper væri fallið úr gildi en ástæður þessa eru ekki tilgreindar. Samkvæmt Dómsmálabók Árnessýslu árið 1917 var hlutafélagið Skjálfandi eigandi að leiguréttindum Gullfoss.

GRIPIÐ TIL AÐGERÐA

Sigríður harmaði að Tómas skyldi upphaflega leigja Þorleifi fossinn. Eftir að þeim feðginum varð ljóst að Þorleifur hefði selt Sturlu leiguréttinn tóku þau þá afstöðu að síðari samningurinn væri ógildur og því væri framsal Þorleifs til Sturlu ekki marktækt.

Lítið var hægt að aðhafast í málinu að sinni og því var ekki hreyft fyrr en 30. ágúst 1912. Þá áttu leigutakar Gullfoss að greiða leigu fyrir fyrstu fimm árin samkvæmt samningnum. Friðrik Jónsson kaupmaður, bróðir Sturlu, fór ásamt Einari Arnórssyni prófessor í Brattholt til að greiða Tómasi helming leigunnar, 750 krónur. Tómas neitaði að taka við peningunum og lýsti því yfir að hann tæki einungis við þeim frá þeim manni sem hann hafði leigt fossinn í upphafi, þ.e. Þorleifi. Tveimur dögum síðar komu Einar og Friðrik aftur að Brattholti í sömu erindagjörðum og var þá þriðji maður með þeim, Stefán Stephensen frá Hróarsholti. Tómas var ekki heima en Sigríður neitaði að taka við leigunni fyrir hans hönd. Mælti hún á þá leið að hvorki hún né faðir hennar tækju við peningum fyrir fossinn nema frá þeim sem fyrstur hefði tekið hann á leigu.

MÁLAFERLI

Sturla höfðaði mál fyrir Gestarétti Árnessýslu til að fá úr því skorið hvort kaup hans á samningi Þorleifs hafi verið lögleg og einnig til að fá viðurkennt að tilboð hans um greiðslu á leigu fyrir fossinn frá 30. ágúst og 1. september 1912 hafi verið löglegt.

Sýnt var að Tómas þyrfti á lögfræðingi að halda og tók Sigríður sér ferð á hendur til Reykjavíkur til að útvega einhvern sem vildi taka málið að sér. Hún þekkti aðeins einn lögfræðing af afspurn, Einar Benediktsson skáld, og þá meira af skáldskap hans en lögfræðistörfum. Er hún kom í höfuðstaðinn fór hún á Laugaveginn og litaðist um til að spyrja einhvern hvar Einar byggi. Áður en hún fékk ráðrúm til þess vatt sér að henni kona nokkur og spurði hvers hún leitaði. Sigríður sagði henni erindi sitt og ástæðu þess að hún sóttist eftir lögfræðingi. Kona þessi var Elísabet Sveinsdóttir, móðir Sveins Björnssonar málafærslumanns og síðar forseta. Hún bauðst til að biðja Svein um að taka málið að sér og varð úr að hann gerði það.

Hinn 25.febrúar 1916 var gefin út stefna og fyrsta réttarhald var 9. mars sama ár. Af óþekktum ástæðum mætti Tómas ekki fyrir réttinn, né heldur nokkur á hans vegum. Næst var réttað í málinu hinn 26. apríl og var Tómas þá mættur. Eiríkur Einarsson sýslumaður leitaði eftir sáttum milli aðila en án árangurs. Hinn 29. ágúst 1917 var réttað í Brattholti og Páll Lýðsson bóndi í Hlíð viðstaddur fyrir hönd hlutafélagsins Skjálfanda en það var gefið upp sem eigandi að leigurétti Þorleifs. Hinn 3. nóvember 1917 var enn réttað og samþykktu báðir aðilar að leggja málið í dóm.

Hinn 21. febrúar 1918 kvað Gestaréttur Árnessýslu upp þann dóm að leigusamningurinn frá 9. mars 1909 væri fullgildur og bindandi fyrir Tómas og tilboð um greiðslu leigunnar löglegt. Tómasi var gert að greiða Sturlu 100 krónur í málskostnað.

Tómas og Sigríður vildu ekki una dómnum og ákváðu að áfrýja honum til landsyfirréttar. Þar byggði Sveinn Björnsson málflutning sinn fyrst og fremst á því að dómari í héraði hefði ekki tekið mark á vitnisburði tveggja manna sem sáu Tómas skrifa undir seinni samninginn, frá 9. mars, í þeirri trú að um sama samning væri að ræða og hann hafði áður skrifað undir. Þessi málflutningur bar ekki árangur og hinn 21. október 1918 lauk málinu með því að yfirréttur dæmdi dóm Gestaréttar Árnessýslu gildan og var Tómasi gert að greiða Sturlu 30 krónur í málskostnað.

Á meðan málaferlin stóðu yfir var árleg leiguupphæð lögð inn í banka og beið niðurstöðu dómsins. Samkvæmt Jóhanni Kr. Ólafssyni notaði Tómas féð til að greiða málskostnað eftir að dómur landsyfirréttar var upp kveðinn. Eftir það tók Tómas við leigunni og fór Jóhann sjálfur eitt sinn með peningabréf til hans. Í því voru 350 krónur sem var hálf ársleiga.

EFTIRMÁLI MÁLAFERLANNA

Þótt Sigríðar sé sjaldan getið í sjálfum málaferlunum er ljóst að það var hún sem stóð bakvið aðgerðir Tómasar í málinu. Hún fór margar ferðir til Reykjavíkur vegna þeirra en hver ferð tók að meðaltali vikutíma. Eitt sinn á útmánuðum gekk Sigríður af stað til Reykjavíkur og lagði að heita mátti nótt við dag. Á heimleið fór hún yfir Mosfellsheiði og er hún kom af Lyngdalsheiði, fór hún beinustu leið austur mýrar milli bæjanna Austureyjar og Úteyjar í Laugardal. Tíð hafði verið góð en þennan dag var komið norðanrok og frost. Á leið Sigríðar var Hólaá sem var jafnan hættulítil. Þennan dag hafði bóndi í Austurey komið að ánni milli klukkan 16­17 og talið hana með öllu ófæra en hún var þá farin að ryðja sig og í henni talsverður jakaburður. Um klukkan 19 var Ingvar bóndi í Laugardalshólum staddur útivið er hann sá hvar kona var á leið að Hólavaði sem er fyrir neðan bæinn. Ingvar hljóp fram á bæjarhólinn og kallaði til hennar að áin væri ófær. Taldi hann að heyrst hefði til sín þar sem farið var að lygna. Konan skeytti ekki um aðvörun hans og óð hiklaust út í uns vatnið náði henni í mitti. Í miðri ánni stefndi jaki beint á hana en hún stjakaði honum til hliðar með hendinni og komst klakklaust yfir. Sigríður kom ekki við á næstu bæjum heldur hélt rakleiðis áfram að Brekku en þangað er fullur tveggja tíma gangur. Má geta nærri hversu erfið gangan hefur verið þar sem pilsin voru blaut.

Barátta hennar fyrir fossinum tók á sig ævintýrablæ og varð hún vel þekkt vegna þessa. Almenningur dáðist að átthagaást og áræði sveitakonunnar og m.a. gekkst Þorsteinn Erlingsson skáld fyrir því að Sigríði var boðið til Reykjavíkur til tímabundinnar dvalar. Þorsteinn hugði að Sigríður gæti nýtt tímann til fræðslu og skemmtunar og ætlaði hann að leiðbeina henni eftir föngum. Sigríður dvaldi aðeins stuttan tíma í Reykjavík en hún var þá komin á fimmtugsaldur og hafði engan hug til náms. Konur í höfuðstaðnum höfðu þá slegið saman í gjöf handa Sigríði og fært henni peysuföt. Eiríkur Tómasson í Miðdalskoti, frændi Sigríðar, telur að það hafi gert útslagið að Sigríður dvaldi ekki lengur í Reykjavík en raun varð á. Sigríður var þannig skapi farin, að hún leit á þetta sem ölmusu og það átti ekki við hana. Hún gekk aldrei í þessum peysufötum svo hann vissi til.

Sigríður virðist hafa verið reiðubúin til að leggja allt í sölurnar til að varðveita Gullfoss ef marka má frásagnir um að hún hafi heitið því að kasta sér í fossinn þegar fyrsta skóflustungan yrði tekin vegna virkjunarframkvæmda. Á það heit reyndi þó aldrei og er Gullfoss enn á sínum stað.

Árið 1928 hætti leigugjald að berast fyrir fossinn og gekk leigusamningurinn því til baka.

AÐ LOKUM

Sigríðar hefur jafnan verið minnst sem eins af fyrstu náttúruverndarsinnum á Íslandi vegna baráttu hennar fyrir Gullfossi. Sveitungar hennar, sem og aðrir landsmenn, kunnu að meta ást hennar á fossinum og á sjötugsafmæli hennar færðu þeir henni málverk af Gullfossi að gjöf. Ekki líkaði Sigríði myndin en hún henti henni í Hvítá. Sigríður lést á Sólvangi í Hafnarfirði hinn 17. nóvember 1957 eftir stutta legu. Hún hafði einungis dvalið þar í mánuð er hún fékk inflúensu sem leiddi hana til dauða. Hún var jörðuð hjá foreldrum sínum og systkinum í kirkjugarðinum í Haukadal.

Sem fyrr segir var reistur minnisvarði um Sigríði hjá Gullfossi árið 1978 og var það gert að tilhlutan Menntamálaráðuneytisins, Árnesingafélagsins og Sambandi sunnlenskra kvenna. Á minnisvarðanum er vangamynd af Sigríði eftir Ríkharð Jónsson. Ríkharður hafði komið til Brattholts, ásamt Þorsteini bónda á Vatnsleysu, í þeim tilgangi að teikna Sigríði. Eftir að Ríkharður hafði lokið við myndina skrapp hann frá og þegar hann kom til baka var myndin horfin. Hann spurði Sigríði hvar hún væri og fékk það svar að það yrði ekki auðsótt sem eldurinn geymdi. Sigríði hafði ekki líkað teikningin en hún var sjálf listhneigð eins og fyrr er getið. Ríkharður teiknaði aðra mynd af Sigríði eftir minni er hann var farinn frá Brattholti. Það er sú mynd sem er á minnisvarðanum en hún þykir ekki mjög lík Sigríði, heldur er einungis sterkur svipur.

Sigríður leit á sig sem jafningja karla, gekk í sömu störf og þeir, gerði sömu kröfur til sín og þeirra og taldi sig hafa sama rétt til að segja skoðanir sínar. Í stað þess að feta í fótspor formæðra sinna, gekk hún fáfarinn stíg sjálfstæðis og kjarks.

Það má segja um Sigríði eins og svo ótal margar konur, að afrek hennar eru hvergi skjalfest. Hennar er fyrst og fremst getið vegna Gullfossmálaferlanna þó að í dómsskjölum komi nafn hennar aðeins einu sinni fyrir. Hún stjórnaði að mestu á bak við tjöldin og beitti áhrifum sínum án þess að vera sýnileg.

Þó að barátta Sigríðar fyrir Gullfossi hafi tapast í réttarsalnum vannst hún útávið. Sigríður opnaði augu almennings fyrir gildi Gullfoss og þar með annarra dýrmætra perla í íslenskri náttúru. Það verður seint ofmetið og hennar verður því minnst um ókomna tíð sem verndara Gullfoss og fyrsta náttúruverndarsinna á Íslandi.

Höfundur er með BA próf í sagnfræði.

Helstu heimildir:

Gils Guðmundsson: Væringinn mikli. Rvík 1990.

Guðríður Þórarinsdóttir: "Sigríður í Brattholti". Inn til fjalla. Rvík 1953.

Hannes Þorsteinsson: Endurminningar. Rvík 1962.

Héraðsskjalasafn Árnesinga: "Jóhann Kr. Ólafsson" Nokkur greinagerð um ábúendur í Biskupstungnahreppi í sambandi við manntalið 1901. Óútg.

Skjöl frá Sýslumanni Árnessýslu.

Skjöl úr Héraðsskjalasafni Árnesinga.

Skjöl úr Þjóðskjalasafni Íslands.

Sýslumaður Árnessýslu: Dómsmálabækur Árnessýslu 1915-1918. og Gestaréttur Árnessýslu 1918. Óútg.

Viðtal við Eirík Tómasson, Miðdalskoti, Laugardal. f. 1921.

Þjóðskjalasafn Íslands: Manntal Árnessýslu 1930 og Skjöl landsyfirréttar 1918. Óútg.

SIGRÍÐUR Tómasdóttir í Brattholti. Þessi mynd af henni er í Sigríðarstofu við Gullfoss.

GULLFOSS í vetrarbyrjun. Svo hörð var Sigríður í afstöðu sinni til verndunar fossins, að hún kvaðst fleygja sér í hann þann dag sem virkjunarframkvæmdir hæfust.

MINNISVARÐI um Sigríði við Gullfoss. Andlitsmynd Ríkarðs Jónssonar er byggð á minni því sjálf brenndi Sigríður frumteikninguna.

SIGRÍÐARSTOFA er í tengslum við áningarstað og snyrtingu fyrir ferðamenn við Gullfoss. Þar er aðgengilegur fróðleikur um Hvítá, Gullfoss og gljúfrið og þar er í stuttu máli sagt frá baráttu Sigríðar.

ENGJARÓS - uppdráttur Sigríðar, sem ein systra hennar skatteraði í sessu.

TEIKNING Sigríðar af íslenzkum fálka.