Hulda Long Gunnarsdóttir fæddist 18. janúar 1919. Hún lést 7. október 1980.

Í dag, 18. janúar, eru 100 ár frá fæðingu móður minnar Huldu Long á Norðfirði.
Móðir hennar var Ingibjörg Stefánsdóttir, f. 18. apríl 1900 á Strönd í Neskaupstað, d. 27. des. 1968 í Reykjavík. Hún var verkakona í Neskaupstað en veiktist seinna og varð að láta dótturina frá sér. Foreldrar Ingibjargar voru Stefán Bjarnason, f. 9. jan. 1853 í Seldal í Norðfirði, d. 3. feb. 1915 á Norðfirði, og Guðbjörg Matthíasdóttir, f. 11. nóv. 1865 á Eskifirði, d. 11. jan. 1947 í Hnefilsdal á Jökuldal. Stefán var bóndi og sjómaður í Norðfirði en Guðbjörg var húsfreyja í Norðfirði. Þeim var alls 15 barna auðið en Hulda ólst upp hjá Guðbjörgu móðurömmu sinni vegna veikinda Ingibjargar. Guðbjörg varð ekkja fjórum árum áður en þá var yngsta barn þeirra Stefáns einungis sex ára. Hún lét sig samt ekki muna um að bæta við sig einu barninu enn. Faðir Guðbjargar var Matthías Matthíasson Long, f. 9. des. 1837 í Áreyjum í Reyðarfirði, d. 6. apríl 1867, en hann var vinnumaður á Eskifirði.
Faðir Huldu var Gunnar Jónsson, f. 12. mars 1904 á Skorrastað í Norðfirði, d. 6. des. 1995 á Hellu. Hann var bóndi í Nesi á Norðfirði, síðar á Hellu. Foreldrar Gunnars voru Jón Bjarnason, f. 22. okt. 1858, d. 27. júní 1943, bóndi á Skorrastað í Norðfirði  og Halldóra Bjarnadóttir, f. 20. júlí 1879, d. 17. apríl 1920, húsfreyja í Efri-Miðbæ í Norðfirði. Faðir Jóns var Bjarni Sveinsson, f. 24. maí 1829 í Viðfirði, d. 25. jan. 1892 í Stakkahlíð í Loðmundarfirði. Hann var bóndi í Viðfirði við Norðfjörð. Faðir hans var Sveinn Bjarnason, f. 1798, og var einnig bóndi í Viðfirði.
Hulda var ein fárra kvenna sem gekk menntaveginn á þessum tíma, fór í Samvinnuskólann 1935-1936, sem þá var í Reykjavík, en gat einungis lokið einum vetri vegna fjárþurrðar.
Árið 1939 (14.10.) giftist hún Sigurði Eiríkssyni Þórarinssyni, f. 7. nóv. 1915 á Akureyri, d. 29. juní 1941. Hann var sjómaður í Reykjavík, fórst með e.s. Heklu þegar skipið var skotið niður af Þjóðverjum. Vegna þessa fékk mamma ekknabætur sem hún notaði til þess að kaupa hluta af húsinu Sólhól í Neskaupstað. Faðir Sigurðar var Benedikt Þórarinn Dúason, f. 19. maí 1895 á Oddeyri, d. 19. ágúst 1976 á Siglufirði. Benedikt var skipstjóri í Reykjavík til 1939, síðan skipstjóri á Siglufirði, og hafnarstjóri frá 1950. Móðir Sigurðar var Sigrún Sigurðardóttir, f. 14. júní 1887, d. 1. jan. 1966. Hún var alla tíð búsett á Akureyri.
Þeim varð einnar dóttur auðið, Guðbjargar Bryndísar Sigurðardóttur, f. 15.11. 1940. Hún eignast fimm börn með Birgi Þór Sveinbergssyni, f. 14. febr. 1941 á Blönduósi: Rúnar Sigurð 1960, Ingu Láru 1961, Huldu Jónu 1965, Birgi Þór 1971 og Sveinberg Þór 1976.
15. janúar 1945 eignast Hulda Sigrúnu Sigríði með Skúla Norðfjörð Jónssyni, f. 6. júlí 1915 í Neðri-Miðbæ í Norðfirði, d. 4. okt. 1980 í Neskaupstað. Sigrún Sigríður var með hjartagalla og dó rúmum fjórum mánuðum seinna, 27. maí 1945.
Árið 1947 kynnist Hulda Guðjóni Bjarnasyni, f. 6. nóv. 1898 á Óseyrarnesi í Eyrarbakkahreppi. Faðir hans var Bjarni Símonarson, f. 28. júlí 1864 í Hallstúni, d. 28. apríl 1940 í Reykjavík. Hann var bóndi í Hallstúni 1892-98 í Holtahr., Rang. og víðar, síðast trésmiður í Reykjavík. Móðir Guðjóns var Kristgerður Oddsdóttir, f. 1. júní 1863 í Hvammi í Holtum, d. 10. nóv. 1936 í Reykjavík. Guðjón var þá landsfrægur sem fyrrverandi kórstjóri barnakórsins Sólskinsdeildin, hafði séð um barnatímann í útvarpinu og ferðast með kórinn vítt og breitt um landið.  Þau hittust á skemmtun á Eyrarbakka en hann vann þar við múrverk á þessum tíma. Þau giftust 1948 og eignuðust saman tvö börn: Sigurð Rúnar, f. 8.8. 1949. Hann eignast Huldu 1993 með Hildi Eggertsdóttur, f. 30.11. 1954 á Kvennabrekku.  Huldu Kolbrúnu, f. 21.9. 1952, sem eignast Sigurlaugu 1971 með Siggeiri Ingólfssyni, f. 17.9. 1952 í Syðra-Seli, Stokkseyrarhreppi.
Guðjón og Hulda bjuggu síðan saman í hamingjuríku hjónabandi allt þar til Hulda lést í október 1980. Þau bjuggu fyrst á Grettisgötu 36 í Reykjavík, en keyptu svo húsið Sólvang á Stokkseyri sem þau fluttu í 1949. Þar voru þau þó ekki nema hálft annað ár því litla vinnu var þar að hafa. Þau bjuggu svo í Laugarneskampi 12, bragga sem breski herinn hafði byggt. Hann stóð í flæðarmálinu þannig að sjórinn gekk hálfpartinn yfir braggann þegar þannig stóð á átt og sjávarföllum. Þaðan fluttu þau um 1953 í Hólmgarð 38 í Bústaðahverfi og í Hæðargarð 50 í sama hverfi árið 1966 þar sem þau áttu heimili síðan.
Skömmu fyrir 1960 fengu þau hjónin bæði frímerkjabakteríu" sem var í því fólgin að þau keyptu flest þau frímerki og frímerkjasöfn sem þau gátu og unnu við þau öllum stundum. Fyrir utan að leysa af og flokka var gengið frá merkjunum í pakka sem voru aðgengilegir útlendingum og þannig gátu þau haft svolítið upp úr þeim. Ég sé mömmu enn fyrir mér þar sem hún situr bograndi við borð þakið frímerkjum; hún á fullu við að raða í pakka.
Guðjón og Hulda voru mjög samrýnd og ærsluðust oft sem unglingar væru. Þau köstuðu oft fram vísum enda bæði vel hagmælt. Hin seinni ár eða upp úr 1972 fóru þau hjónin að dæmi farfuglanna og héldu árlega til heitari landa að hausti. Þau bjuggu þannig flesta vetur eftir það á Suður-Spáni og undu sér vel en komu svo heim á vorin. Þetta var ekki hvað síst vegna veikinda mömmu sem var með krónískan astma. Það bar ekki mikið á aldursmun á þeim þótt ein 20 ár skildu þau að, enda fór það svo að mamma dó á undan pabba, 7.10. 1980, en hann dó svo þremur árum seinna, 11.9. 1983.
Mamma var hvers manns hugljúfi og ég minnist hennar ætíð með hlýju. Rúnar,  dóttursonur hennar, skrifaði í minningargrein á sínum tíma: Ömmu Huldu þekkti ég eingöngu sem góða manneskju sem allt vildi fyrir alla gera. Ég þekkti hana aðeins sem ömmubarn, ég naut þeirrar hlýju frá henni sem hún gaf öllum sem vildu." Ég tek líka undir orð systur minnar sem skrifaði um móður okkar fyrir réttum tveim árum: Hún var hæfileikarík, glaðlynd, réttsýn, skynsöm og góð móðir. Blessuð sé minning hennar.


Sigurður R. Guðjónsson.