Sigurður J. Sigurðsson
Sigurður J. Sigurðsson
Eftir Sigurð J. Sigurðsson: "Með þeim hætti væri komið í veg fyrir að óhóflegar breytingar á fasteignamati hefðu áhrif á útgjöld heimila og fyrirtækja."

Víðtæk umræða hefur verið um húsnæðismál, breytingar á fasteignamati og fasteignagjöld. Umræðan hefur snúist um ófullnægjandi lóðaframboð og hátt söluverð nýrra íbúða, sem endurspeglast síðan í verði á notuðu húsnæði, gríðarlegri hækkun húsaleigu og háum fasteignagjöldum.

Einn þáttur þessa máls eða afleiðing er gríðarleg hækkun fasteignagjalda. Fjölmörg framboð hafa lýst því yfir að þau vilji lækka fasteignagjöld. Með hvaða hætti slíkt á að gera er hins vegar mun óljósara.

Fasteignagjöld eru samheiti yfir fasteignaskatt, lóðarleigu, sorphirðu, auk vatns- og fráveitugjalda, sem hafa víða verið sett í sérstaka innheimtu veitufyrirtækja. Tekjur sveitarfélaga af fasteignagjöldum hafa skilað sveitarfélögunum gríðarlegum tekjum frá íbúðareigendum og atvinnulífi á þessum síðustu árum, hækkunum sem eru langt umfram almenna verðlagsþróun í landinu. Þessi þróun hefur leitt til mikillar útgjaldaaukningar fyrir heimili og fyrirtæki. Vert er þó að benda á að breytingar þessara tekna geta líkað orðið á hinn veginn ef fasteignamat lækkar.

Sveitarstjórnir þurfa tekjur til að standa undir sínum rekstri og um þá tekjustofna þurfa að gilda skýrar reglur, sem tryggja sveitarfélögum stöðugleika í rekstri. Fasteignaskattur, lóðarleiga, vatnsskattur og fráveitugjald hafa fylgt breytingum á fasteigna- og lóðamati. Á síðustu árum hafa nokkur sveitarfélög og veitufyrirtæki í þeirra eign verið að færa gjaldtöku vatns- og fráveitu yfir í það fyrirkomulag að í stað þess að fylgja fasteignamati eru gjöld lög á húsnæði í formi fastagjalds fyrir hverja eign að viðbættu gjaldi fyrir hvern fermetra eignar og gjaldskrá látin fylgja þróun vísitölu neysluverðs milli ára. Með þessum hætti greiða allar fasteignir gjald í samræmi við stærð, óháð aldri eða fasteignamati.

Því varpa ég inn í umræðuna þeirri hugmynd að slíkri aðferð verði einnig beitt við álagningu fasteignaskatts. Með þeim hætti væri komið í veg fyrir að óhóflegar breytingar á fasteignamati hefðu áhrif á útgjöld heimila og fyrirtækja, en tryggðu stöðugleika í tekjum sveitarfélaganna. Sveitarfélögunum yrði sett gjaldskrá sem tæki þá mið af eðlilegum tekjugrunni, sem hlýtur að verða verulega lægri en núverandi fyrirkomulag er að skila, enda sveitarstjórnarmenn nokkuð sammála um nauðsyn þess að fasteignagjöld lækki. Með þessu fyrirkomulagi yrðu fasteignagjöld sambærilegri milli sveitarfélaga, ólíkt því sem nú er. Auðvelt er af finna út hvert fastagjald og fermetrametragjald þyrfti að vera til að skapa sveitarfélögum eðlilegar tekjur. Breyting sem þessi kallar á breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Það getur ekki verið ásættanlegt að sú þróun sem verið hefur á liðnum árum haldi áfram og sveitarsjóðir gildni á kostnað fasteignaeigenda.

Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er gjaldskrá fasteignaskatts, sem byggist á fasteignamati, þessi:

a) Allt að 0,5% af íbúðarhúsnæði ásamt lóðaréttindum, af erfðafestulöndum í dreifbýli og jarðeignum, útihúsum og mannvirkjum á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öllum hlunnindum og sumarbústöðum ásamt lóðaréttindum.

b) Allt að 1,32% af fasteignamati og lóðaréttindum af sjúkrastofnunum, skv. lögum um heilbrigðisþjónustu, skólum, heimavistum, leikskólum, íþróttamannvirkjum og bókasöfnum.

c) Allt að 1,32% af fasteignamati og lóðaréttindum af öðrum eignum s.s. iðnaðar- skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirkjum, veiðihúsum og mannvirkjum sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Sveitarstjórnum er síðan heimilt að hækka um allt að 25% fasteignaskatt á eignir sem tilgreindar eru í a- og c-liðum. Undanþegnar fasteignaskatti eru kirkjur og bænahús, safnahús og hús erlendra ríkja, eftir ákveðnum reglum. Þá er í núverandi lögum heimild til að lækka eða fella niður fasteignaskatt af tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum.

Ástæða er til að benda á að fjölmargar eignir eru látnar falla undir ákvæð c-liðar þó að þær séu ekki reknar í atvinnuskyni heldur sem húsnæði félagasamtaka og stofnana sem hafa ekki aðrar tekjur en félagsgjöld til að standa undir kostnaði við aðstöðu sína. Réttlátara væri að slíkar eignir féllu undir a-lið

Hvert hlutverk og framtíð Fasteignamats ríkisins yrði eftir slíka breytingu þarf líka að skoða, ef þessu ákvæði yrði breytt. Markaðurinn mótar söluverðmæti eigna og tryggingafélögin tryggingarverðmæti eigna.

Sjálfsagt eru til fleiri leiðir til að komast út úr þeim vítahring sem áhrif fasteignamats hafa á þessa tekjustofna, en þessi hugmynd er sett fram til að benda á aðra möguleika en þá sem ráðið hafa ferðinni til þessa.

Höfundur er áhugamaður um fjármál sveitarfélaga.