Haraldur Valgarður Haraldsson fæddist í Reykjavík 3. ágúst 1932. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 16. janúar 2019.

Foreldrar hans voru hjónin Valgerður Steinunn Gísladóttir, f. 2.1. 1907 á Sölvabakka, Engihlíðarhreppi, Húnaþingi, d. 3.6. 1975, og Haraldur Valdimar Ólafsson, f. 3.6. 1901 í Reykjavík, d. 18.9. 1984, forstjóri Fálkans hf. í Reykjavík.

Systkini Haralds samfeðra eru: Ólafur Haraldsson, f. 15.7. 1946, kona hans er Gerður Baldursdóttir, f. 26.1. 1953; Kolbrún Björk Haraldsdóttir, f. 13.1. 1948, maður hennar er Hubert Seelow, f. 3.9. 1948.

Haraldur kvæntist 1957 Vigdísi Ragnheiði Garðarsdóttur, f. 24.1. 1936 í Hafnarfirði. Dóttir þeirra var Sigríður Vala Haraldsdóttir, f. 1.8. 1958, d. 29.6. 2012. Börn Sigríðar Völu eru: a) Katla Rós Völudóttir, f. 5.10. 1980, barn Kötlu Rósar er Áróra Alba Ragnarsdóttir, f. 1.12. 2016; b) Síta Björk Rúnarsdóttir, f. 1.2. 1987; c) Una Valrún Rúnarsdóttir, f. 10.9. 1988, og d) Sigtryggur Ómi Freyr Völuson Hansen, f. 15.2. 1999. Haraldur og Vigdís Ragnheiður skildu 1961.

Haraldur kvæntist 1965 Elsu Lene Hoe Hermannsdóttur, f. 2.5. 1938 í Reykjavík. Synir þeirra eru: 1) Haraldur Christian Hoe Haraldsson, f. 14.5. 1964. Kona hans er María Sædís Baldursdóttir, f. 12.3. 1974. Sonur þeirra er Hermann Christian Hoe Haraldsson, f. 5.2. 2004. 2) Hermann Valur Hoe Haraldsson, f. 9.1. 1966. Kona hans er Toril Haraldsson, f. 28.6. 1968. Börn Hermanns eru: a) Magnus Haraldsson, f. 16.6. 1994, b) Malene Haraldsson, f. 25.3. 1998, c) Freya Haraldsson, f. 12.10. 2006. Hermann og fjölskylda búa í Danmörku. 3) Hörður Valdimar Hoe Haraldsson, f. 29.10. 1970. Dóttir hans er Hilda Elsa Viktoria Haraldsson Hagerman, f. 9.5. 2011. Hörður býr í Svíþjóð. 4) Hinrik Hoe Haraldsson, f. 19.4. 1972. Dóttir hans er Agnes Hinriksdóttir, f. 12.3. 2002. Haraldur og Elsa skildu 1983.

Haraldur varð stúdent frá MR 1954. Hann nam arkitektúr við Technische Hochschule í Stuttgart í Þýskalandi 1954-1963. Hann starfaði hjá skipulagsdeild borgarverkfræðings 1964, og rak eigin teiknistofu 1965-1967. Sem arkitekt starfaði hann hjá Íslenska álfélaginu við framkvæmdir í Straumsvík 1967-1972. Hann starfaði eftir það sem arkitekt í Stuttgart 1972-1974. Hann var forstöðumaður tæknideildar Húsnæðismálastofnunar ríkisins 1974-1977 og rak teiknistofu á Akureyri árin 1977-1982 ásamt Svani Eiríkssyni og Davíð Arnljótssyni. Hann starfaði aftur í tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins 1983-1985. Hann var í samstarfi við Hauk Viktorsson 1987-1990 og við arkitekta í Þýskalandi 1990-1997. Að lokum starfaði hann sem byggingarfulltrúi á Hvammstanga 1997-2002.

Helstu verk Haralds eru: Hús Fálkans hf. við Suðurlandsbraut 8 í Reykjavík; Áskirkja í Reykjavík, ásamt Helga og Vilhjálmi Hjálmarssonum; miðbæjarskipulag á Akureyri, ásamt Svani Eiríkssyni; Sparisjóður Ólafsfjarðar; fjölbýlishús í Nürnberg í Þýskalandi. Auk þess teiknaði Haraldur fjölda íbúðar- og atvinnuhúsa víðs vegar um landið.

Haraldur starfaði um árabil í Frímúrarareglunni og var einnig mjög áhugasamur laxveiðimaður.

Útför Haralds fer fram frá Áskirkju í dag, 6. febrúar 2019, klukkan 13.

Haraldur Valgarður Haraldsson bróðir minn er látinn. Við Haraldur erum samfeðra, en hann var sonur föður okkar, Haralds Valdimars Ólafssonar, og fyrri konu hans, Valgerðar Gísladóttur. Valgerður veiktist alvarlega þegar Haraldur var í frumbernsku og var honum þá komið í fóstur – fyrst til móðursystur sinnar Rakelar Sigríðar og manns hennar en síðan til föðurforeldra sinna, Þrúðar Guðrúnar Jónsdóttur og Ólafs Magnússonar, kaupmanns í Fálkanum. Á heimili þeirra Ólafs bættist Haraldur við stóran hóp föðursystkina sinna, en hin yngri voru þá enn í foreldrahúsum. Ólst hann þar upp uns Þrúður lést árið 1949. Síðla sama ár fluttist hann til föður síns og síðari konu hans, Þóru Finnbogadóttur, í nýbyggt hús þeirra í Skaftahlíð 5, en þau Þóra höfðu gengið í hjónaband fjórum árum áður og eignast okkur systkinin, Ólaf, f. 1946, og undirritaða Kolbrúnu, f. 1948. Á bernskuárum mínum var Haraldur unglingurinn á heimilinu, sem hlustaði bæði á dægurtónlist, klassík og djass og spilaði sjálfur á fiðlu; litum við litlu systkinin heldur betur upp til hans.

Að loknu stúdentsprófi 1954 hélt Haraldur til Þýskalands til náms í arkitektúr við Tækniháskólann í Stuttgart og lauk þaðan prófi 1963. Þótt fjarlægðin hafi þá verið mikil milli okkar systkina þótti okkur Haraldur aldrei vera langt í burtu: Hann skrifaði okkur reglulega; í Íslandsheimsóknum á sumrin sýndi hann litskyggnur á tjaldi með myndum af mannlífinu í Þýskalandi; loks flutti hann okkur kveðjur í útvarpinu á jóladag, eins og þá tíðkaðist. Á háskólaárunum kvæntist Haraldur Vigdísi Ragnheiði Garðarsdóttur og eignuðust þau eina dóttur; þau hjónin skildu eftir skamma sambúð.

Heimkominn frá námi starfaði Haraldur fyrst við aðalskipulag Reykjavíkur, rak síðan eigin teiknistofu og vann í fimm ár hjá Ísal við framkvæmdir í Straumsvík. Á þessum árum kvæntist Haraldur Elsu Hermannsdóttur og eignuðust þau fjóra syni.

En hugur Haralds leitaði aftur til Þýskalands: Árið 1972 tók hann sig upp með fjölskyldu sinni og réðst til starfa á teiknistofu í Stuttgart. Dvöldust þau þar í tvö ár. Eftir það var Haraldur forstöðumaður tæknideildar Húsnæðismálastofnunar í þrjú ár, en fluttist þá ásamt fjölskyldu sinni til Akureyrar. Rak hann þar teiknistofu um fimm ára skeið í félagi við tvo starfsbræður sína.

Og enn á ný hélt Haraldur til Þýskalands, í þetta sinn fráskilinn og einn síns liðs: Haustið 1990, þegar Þýskaland var nýsameinað, réðst Haraldur til starfa á teiknistofu sem sinnti verkefnum í Austur-Þýskalandi. Ári síðar færði hann sig um set á stofu í Nürnberg og varð þar með nágranni minn. Á Nürnberg-árunum kom hann oft til okkar hjónanna og var hrókur alls fagnaðar á góðra vina fundum, enda mannblendinn og sögufróður, og hélt skemmtilegar tækifærisræður, hvort sem var í stórafmælum eða stúdentsveislu systursonarins. Á þeim árum kynntist hann konu að nafni Elisabeth Dussl, og héldu þau tryggð hvort við annað til hans hinsta dags. Eftir að hann fluttist heim til Íslands 1997 dvöldust þau langdvölum hvort hjá öðru, hann hjá henni í Þýskalandi eða hún hjá honum – fyrst á Hvammstanga og síðar í Reykjavík.

Ég minnist Haralds bróður míns með hlýju og virðingu. Við Hubert Seelow bóndi minn og synir okkar vottum sonum Haralds og öðrum aðstandendum innilega samúð.

Kolbrún Haraldsdóttir,

Erlangen, Þýskalandi.

Nú þegar Valli vinur hefur kvatt kemur upp í hugann minning um góðan vin, skólafélaga frá árunum í Stuttgart, samstarfs- og veiðifélaga. Eins og sjá má höfum við Valli brallað ýmislegt saman, en Valla kölluðum við vin okkar Harald Valgarð Haraldsson. Fyrstu kynni okkar hófust í Stuttgart þar sem við stunduðum nám í arkitektúr. Valli hóf nám nokkrum árum fyrr og var öllum hnútum kunnugur og því gott að leita til hans og fá leiðsögn um gang mála innan skólans. Strax tókst með okkur góður vinskapur, sem hélst alla tíð síðan þó að nokkuð hafi dregið úr samverustundum hin síðari ár. Í skólanum var m.a. námsefni sem var fólgið í því að mæla upp gamlar byggingar. Á þessum tíma höfðum við kynnst frábærum þýskum og skemmtilegum skólafélaga, Ulrich Stahr, sem við kölluðum þá og alla tíð síðar Ulla og tók hann þátt í þessu verkefni með okkur. Ulli gerðist síðar íslenskur ríkisborgari, sem var happafengur. Nú spurðum við prófessor Hanson hvort kæmi til greina að mæla upp og teikna byggingu á Íslandi og lögðum til að Bustarfell í Vopnafirði yrði fyrir valinu og tók hann vel í það. Ferð okkar félaga í Vopnafjörð var ógleymanleg og félagsskapur við Methúsalem bónda og heimilisfólk hans. Þegar stund gafst frá mælingunum skruppum við Valli til veiða í Hofsá, en við vorum báðir haldnir mikilli veiðidellu. Í þessari ferð okkar lögðum við Valli með Guðmundi Sigtryggssyni vini mínum, sem slóst í ferðina með okkur, grundvöll að Veiðiklúbbnum Streng, sem stofnaður var svo formlega með 16 félögum árið 1959. Þá minnumst við félagar á Teiknistofunni góðs samstarfs með Valla í þátttöku í samkeppnum, sem var gefandi og skemmtilegt. Þetta samstarf leiddi til þess að okkur félögum á Teiknistofunni Óðinstorgi og Valla var falið að teikna kirkju í Ásprestakalli og tók Valli að sér að leiða innanhússfrágang kirkjunnar, sem hann leysti með vandvirkni og alúð. Á starfsferli sínum sinnti Valli mörgum stærri verkefnum, m.a. uppbyggingu ÍSAL í Straumsvík. Þá vann hann mörg ár í Þýskalandi hjá þekktum arkitektastofum. Þá er ljúft að minnast félagsskapar okkar Maí með Elsu konu hans, en við vorum frumbyggjar í Fossvogi og var þá oft glatt á hjalla. Valli og Elsa slitu svo sambúð síðar. Að leiðarlokum kveðjum við góðan vin og minnumst ánægilegra samverustunda. Við vottum sonum Haraldar og fólkinu hans samúð við fráfall hans.

Maí og Helgi Hjálmarsson.

Ógleymanlegar veiðiferðir eru mér efst í huga þegar ég minnist vinar míns og veiðifélaga til margra ára, Haralds Valgarðs Haraldssonar, eða Valla, eins og hann var oftast kallaður meðal veiðifélaganna. Það var ávallt á vísan að róa ef hann var með í veiðihópnum, að eitthvað óvænt og skemmtilegt myndi gerast í veiðiferð þeirri sem fram undan var. Veiðiferðirnar urðu margar, vítt um land, um margra ára skeið og alltaf var Valli hrókur alls fagnaðar, með skemmtilegum frásögnum eða skondnum vísnastúfum og frásagnargáfu hans var við brugðið.

Meðlimur var hann í veiðiklúbbunum Streng og Þistlum, og best leið honum á bökkum stórfljótanna þar sem von var á þeim stóra og lýsingarnar voru oft mergjaðar eftir stórlaxaviðureignirnar. Sá stærsti sem ég vissi um að hann landaði var 28 punda hængur úr Sandá.

Þá var hann ekki síður áhugasamur um skotveiði og var í félagsskap sem kallaði sig „Landsliðið“, vel skipað stórskyttulið með Adda Barðdal í Seglagerðinni Ægi í fararbroddi. Nokkuð oft gengum við saman til rjúpna. Holtavörðuheiðin heillaði, enda er þar mjög skemmtilegt og krefjandi rjúpnaland. Mér er minnisstæður einn dagur þar, þar sem öll skilyrði voru hin bestu og í birtingu ákváðum við að ganga hátt, sem við gerðum og náðum upp í Tröllakirkju um hádegi. Þarna var líka gnótt af fugli og höfðum við nálægt 50 rjúpur á tiltölulega skömmum tíma. Skall nú skyndilega á ofankoma með muggu sem knúði okkur til brottfarar. Héldum við sem leið lá niður heiðina í bílinn og beint í Fornahvamm, þar sem aðsetur okkar var.

Margar eru þær minningarnar sem ég á með Valla og fyrnast þær seint, en þakklæti ber ég í brjósti fyrir að hafa fengið að eiga samleið með þessum einstaka og skemmtilega manni sem við kveðjum nú. Handan árinnar er annar heimur.

Blessuð sé minning góðs vinar.

Hilmar Hafstein

Svavarsson.

Fundum okkar Haraldar bar fyrst saman þegar ég var við nám í Stuttgart, en á þeim árum var töluvert um Íslendinga við nám þar. Menn hittust gjarnan í mötuneyti stúdenta í hádeginu og þar heyrði ég fyrst af Valla, eins og hann var oft kallaður meðal félaga sinna og vina. Fyrsta vísbending um manninn var að greifinn hefði komið í gær. Þegar ég spurði hvaða greifi það væri var mér sagt að hann væri Íslendingur, héti Haraldur og væri að læra arkitektúr. Þetta með greifann væri að vísu svolítill misskilningur, tilkominn frá prófessornum sem kenndi honum. Haraldur hét fullu nafni Haraldur Valgarður Haraldsson, en skrifaði sig Haraldur V. Haraldsson. Prófessorinn skildi þetta svo að V væri stytting fyrir „von“ (sem á þýsku er lesið „fon“ og er ávarpsorð fyrir greifa) og ávarpaði prófessorinn hann því von Haraldsson, og sá Haraldur enga ástæðu til að flækja málið. Við töluðum gjarnan um greifann til að undirstrika við hvern væri átt.

Það kom fljótt í ljós að við Haraldur áttum gott skap saman, sér í lagi varðandi gamanmál. Heim komnir, með nám að baki, héldum við síðan góðu sambandi þótt oft væri langt milli okkar sakir búsetu.

Ef ég ætti að lýsa mannkostum Haraldar í fáum orðum þá er mér efst í huga að hann var mannblendinn og átti gott með að umgangast fólk, laus við fordóma og hroka, orðvar, glaðvær og hafði næmt auga fyrir því spaugilega í lífinu, bjartsýnn, áræðinn og hafði gott hjartalag. Úttekt á honum sem fagmanni eftirlæt ég öðrum, enda ekki fagmaður á hans sviði. Persónulega fannst mér hann bjóða upp á fallegar og mjög praktískar lausnir varðandi þau verkefni sem ég hef séð og gott dæmi þar um er Áskirkja, þar sem útför hans fer nú fram. Það þurfti áræðni til að taka sig upp með lítil börn og sækja atvinnu erlendis, eins og Haraldur gerði, en hann átti alla tíð auðvelt með að laga sig að aðstæðum. Prúðmennska var honum í blóð borin og kom það sterkt í gegn í hans erfiða sjúkdómi.

Haraldur var fæddur veiðimaður og lunkinn sem slíkur. Gilti þá einu hvort bráðin var fiðruð eða hreistruð. Sjálfur á ég margar góðar minningar varðandi hreistraða flokkinn, og sumar hverjar afar spaugilegar. Af nógu er að taka en ég læt nægja að minnast á eina slíka, þar sem ég var nú reyndar ekki þátttakandi. Veiðiferðin hófst með flugferð frá Reykjavík og skyldi síðan haldið áfram með bíl frá Akureyri. Allt var á síðustu stundu þegar þeir veiðifélagar renndu í hlað flugstöðvarinnar, rifu upp skottlokið á bílnum og ruddust inn með farangurinn. Það stóð á endum að allt var frágengið þegar kallað var út í flugvélina.

Alsælir og afslappaðir lentu þeir félagar síðan á Akureyri, en þá uppgötvaðist að bíllyklarnir væru „týndir“. Menn horfðust í augu. Enginn kannaðist við að hafa gengið frá bílnum og símtal við flugafgreiðsluna í Reykjavík staðfesti að við aðalinnganginn stæði bíll, með opið skott og vélina í gangi!

Kæri vinur. Ég kveð þig með þakklæti fyrir allar þær ánægjulegu stundir sem við áttum saman. Ættingjum votta ég innilega hluttekningu.

Kolbeinn Pétursson.