— Ljósmynd/Hönnunarsafn Íslands/Þóra Sigurbjörnsdóttir skráði
Hlutverk Hönnunarsafns Íslands er að safna og varðveita þann þátt íslenskrar menningarsögu sem lýtur að hönnun, einkum frá aldamótunum 1900 til samtímans.

Hlutverk Hönnunarsafns Íslands er að safna og varðveita þann þátt íslenskrar menningarsögu sem lýtur að hönnun, einkum frá aldamótunum 1900 til samtímans. Safnið á og geymir um 900 íslenska og erlenda muni, sem margir hafa mikla menningarsögulega þýðingu. Safnkosturinn fer sístækkandi, enda æ fleiri hönnuðir sem hasla sér völl og koma fram með vandaða gripi sem standast alþjóðlegan samanburð og eru hvort tveggja nytjamunir og/eða skrautmunir. Í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands setti safnið upp sýninguna 100 ár100 hlutir á Instagram þar sem 100 færslur eru birtar á jafnmörgum dögum af hönnunargripum í eigu safnsins frá árunum 1918 til 2018.

1945

HELGI HALLGRÍMSSON

Snyrtiborð í módernískum stíl sem er hluti af svefnherbergishúsgögnum eftir Helga Hallgrímsson (1911-2005) frá því um 1945.

Helgi var ásamt Skarphéðni Jóhannssyni (1914-1979) fyrstur Íslendinga starfandi húsgagnateiknari og innanhússarkitekt. Hann og Skarphéðinn lærðu við Kunsthaandværkerskolen í Kaupmannahöfn og útskrifuðust þaðan árið 1938. Við heimkomu vöktu þeir athygli og fengu sterk viðbrögð við greinaskrifum í Morgunblaðið þar sem þeir gagnrýndu þann stíl íslenskra húsgagna sem þá var ríkjandi og þótti þeim hann fremur ósmekklegur. Húsgögn Helga bera sterk einkenni frá módernismanum og norrænni hönnun eftirstríðsáranna þar sem notagildi, efnisnotkun og tímalaus stíll skiptu höfuðmáli.