Klausturþingmennirnir svokölluðu segja skýringar Báru Halldórsdóttur á upptökum hennar af samtali þingmannanna 20. nóvember sl.

Klausturþingmennirnir svokölluðu segja skýringar Báru Halldórsdóttur á upptökum hennar af samtali þingmannanna 20. nóvember sl. ótrúverðugar og fara fram á að Persónuvernd afli myndefnis sem sýni mannaferðir fyrir utan hótelið Kvosina og veitingastofuna Klaustur.

Þetta kemur fram í bréfi Reimars Péturssonar, lögmanns fjögurra þingmanna Miðflokksins, til Persónuverndar sem mbl.is hefur undir höndum. Telja þingmennirnir að myndefni geti varpað nánara ljósi á atburðarásina umrætt kvöld og vilja þeir að rannsakað verði til hlítar hversu einbeitt Bára gekk til aðgerða sinna og eftir atvikum hvort um samverknað hafi verið að ræða. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að næstu skref í meðferð málsins hjá Persónuvernd verði kynnt á vefsíðu stofnunarinnar. Persónuvernd tók málið ekki formlega til umfjöllunar fyrr en það kom í ljós að ekki væri hægt að kæra niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar.

Brá sér í gervi ferðamanns

Þá segir í bréfinu til Persónuverndar að Bára hafi brugðið sér í gervi erlends ferðamanns og gert sér far um að haga sér sem slíkur, m.a. með því að hafa með sér ferðamannabæklinga um innanlandsferðir og vinsæla ferðamannastaði.

Lögmaður Báru gerir kröfu um að Persónuvernd vísi málinu frá.