Reynir Carl Þorleifsson fæddist 25. september 1952 í Vestmannaeyjum. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 25. apríl 2019.Foreldrar hans voru Þorleifur Bragi Guðjónsson, f. 23. júlí 1922, d. 9. nóvember 2010, og Erika Minna María Guðjónsson, f. 22. mars 1912, d. 10. ágúst 2007. Reynir Carl var eina barn þeirra.

Hinn 25. september 1976 giftist Reynir Jenný Þóru Eyland atvinnurekanda, f. 10. ágúst 1955. Foreldrar hennar voru Henry Juul Eyland, f. 21. júní 1922, d. 21. febrúar 1984, og Þórey Gunnlaug Petra Þorsteinsdóttir, f. 11. desember 1924, d. 26. desember 1974. Börn þeirra eru: 1) Þorleifur Karl, bakari, f. 29. september 1974, maki Helena Rós Hafsteinsdóttir snyrtifræðingur. Börn þeirra eru Sylvía Mist, Aníta Sif og Daníel Darri. 2) Anna María, kennari, f. 12. ágúst 1977, maki Kristinn Þór Ingvason kerfisfræðingur, börn þeirra eru: Alex Leó, Reynir Elí og Ingvi Þór. 3) Henrý Þór, bakari, f. 17. febrúar 1980, maki Elísa Örk Einarsdóttir hársnyrtir, barn þeirra er Reynar Erik. 4) Einnig á Reynir soninn Magnús Þór, f. 13. janúar 1987, maki Erna Dís Eriksdóttir og á hann tvær dætur, Lilju Marý og Ylfu Rún. Bára Millard, systir Jennýjar, ólst upp hjá þeim hjónum frá 13-18 ára aldurs árin 1974-1979.

Reynir ólst upp í Vestmannaeyjum og flutti í gosinu 1973 til Reykjavíkur, bjó þar til 1979 og flutti þá í Kópavog. Í rúm tuttugu ár bjó Erika móðir Reynis hjá þeim í kjallaranum.

Reynir hóf nám í bakaraiðn árið 1969 hjá Sigmundi Andréssyni bakarameistara í Magnúsarbakaríi. Hann kláraði námið í Snorrabakaríi í Hafnarfirði árið 1973. Hann starfaði ætíð við bakaraiðnina, á tímabili sem sölumaður og bakari hjá Efnagerð Laugarness og einnig til margra ára bakari í Bernhöftsbakaríi. Þá gegndi hann störfum til margra ára hjá Landssambandi bakarameistara og var þar formaður 2004-2007. Reynir var einnig félagi í Kiwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi.

Reynir og Jenný stofnuðu fyrirtækið Reynir bakari ehf. árið 1994 á Dalvegi 4 og síðar opnuðu þau útibú í Hamraborg 14. Eru bakaríin starfandi enn í dag.

Útför Reynis fer fram frá Digraneskirkju í dag, 7. maí 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku afi minn er látinn og er það mikil sorg. Ég man vel eftir því þegar ég var í heimsókn hjá þér þegar ég var yngri og ég var svo heillaður af bassahæfileikunum þínum.Ég hef síðan stundum fengið að koma í bakaríið til þín að hjálpa til, til dæmis á bolludögum. Ég mun ekki geta fengið tækifæri til þess að sýna þér fyrsta bílinn minn, menntaskólann sem ég fer í og fleira sem ég geri í framtíðinni og það eru sorgleg tíðindi.

Ég mun varðveita minningarnar sem við áttum saman, t.d. þegar þú hjálpaðir mér við að skreyta piparkökuhús um jólin og allar bústaðaferðirnar um Verslunarmannahelgarnar.

Ég er stoltur af því að litli bróðir minn hafi verið skírður í höfuðið á þér þótt það særi mig að hann muni ekki geta kynnst þér betur.

Ég tek því persónulega ábyrgð á að passa upp á að litlu bræður mínir gleymi þér ekki. Þín verður sárt saknað afi.






Alex Leó Kristinsson.