Rúnar Heiðmar Guðmundsson fæddist á Húsavík 11. mars 1972. Hann lést 8. júní 2019.
Hann var sonur hjónanna Bertu J. Einarsdóttur, f. 17.9. 1941, frá Húsavík og Guðmundar Heiðmars Gunnlaugssonar, f. 25.9. 1935, d. 14.8. 2005, frá Skógum í Reykjahverfi.
Rúnar var yngstur í systkinahópnum, eldri eru Arna Heiðmar, f. 22.4. 1965, og Harpa Heiðmar, f. 19.5. 1966, báðar búsettar á Akureyri.
Rúnar kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Rannveigu Hansen Jónsdóttur, 3.8. 2006, dóttur Ruthar Hansen, f. 28.2. 1944, d. 11.6. 2014, og Jóns Dans Jóhannssonar, f. 22.1. 1943. Dætur Rannveigar eru Dana Ruth Hansen Aðalsteins, f. 27.5. 1985, gift Andra Rúnarssyni, f. 13.7. 1982. Börn þeirra eru Júlía Hrund, f. 13.1. 2009, Bjarki Snær, f. 16.1. 2012, og Valur Elí, f. 11.10. 2018. Þau búa á Húsavík. Karen Ruth Hansen Aðalsteins, f 28.2. 1994, unnusti hennar er Ragnar Már Arnfinnsson Heinesen, f. 6.9. 1990, þau búa á Akureyri.
Rúnar var fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann vann hjá Byggingavörudeild KÞ, Bílaþjónustu Húsavíkur hjá frænda sínum þangað til hann fór í meiraprófið og hóf að keyra hjá Alla Geira, síðar Flytjanda. Árið 2005 flutti hann til Akureyrar með eiginkonu sinni, starfaði um tíma hjá Eimskip, en fór mjög fljótlega í útkeyrslu hjá Vífilfelli þar sem hann starfaði í tíu ár. Þá lá leiðin til Ferro Zink þar sem hann vann í fjögur ár á lager og síðar í verslun, fyrir ári síðan hóf hann störf hjá Straumrás.
Rúnar átti fjölmörg áhugmál, hann stundaði skotveiði, rjúpnaveiði hér áður en aðallega gæsaveiði hin síðari ár. Hann var félagsmaður í Skotfélagi Akureyrar, stangveiði var hans yndi, hvort sem það var silungaveiði í ám eða vötnum eða í gegnum ís, hann var einnig félagsmaður í Stangveiðifélagi Akureyrar.
Í æsku var Rúnar löngum stundum fram í Reykjahverfi með föður sínum í Skógum í ýmsum sveitastörfum. Hann réð sig meðal annars 16 ára gamall sem fjósamann að Hnjóti í Örlygshöfn. Hann var einnig kaupamaður hjá Siggu og Davíð í Glæsibæ.
Rúnar og Rannveig keyptu sér sumarhús haustið 2008 í landi Laxamýrar.
Útför Rúnars fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 25. júní 2019, klukkan 13.30.

Ástin ber umbun sína í sjálfri sér.

Elsku besti Rúnar minn, af hverju þú fórst svona snöggt og alltof ungur á ég erfitt með að sætta mig við, en því get ég ekki breytt og framundan er leiðin að læra að lifa við breyttar aðstæður, ég á svo margt annað til að lifa fyrir, það mun hjálpa, en fyrst af öllu mun það hjálpa mér að rifja upp allar góðu stundirnar okkar, og það er ekki lítið af þeim þó að ég hafi bara fengið þig að láni í 15 ár.

Ég get fullseint þakkað forlögunum sem leiddu okkur saman árið 2004, fyrst sem traustur vinur sem þróaðist í annað og meira.  Á þeim tíma varstu ósköp feimin og óframfærin, með brotna sjálfsmynd, ég skil ekki hvað þú sérð við mig? var spurning sem ég þurfti ansi oft að svara fyrstu árin, en það eru mörg ár síðan þú komst yfir það... og skilja og njóta þess sem ástin og lífið hefur upp á að bjóða.  Ég var líka orðin fertug og fannst mér ég vera barnaræningi að taka saman við 32 ára gamlan mann, og auðvitað hreinskilin að venju, ég ætlaði ekki að fara byrja upp á nýtt í barneigunum, þannig að ef þinn draumur væri að eignast þín eigin börn væri ég ekki sú rétta fyrir þig, en svarið var auðvitað í þínum anda, ég eignast dætur þínar ef ég má eiga þær með þér  auðvitað tókstu það hlutverk 100% eins og allt annað, þú tókst við Karen 10 ára og Dönu 19 ára, strax kom í ljós að þú sannarlega ætlaðir að vera pabbi, foreldrafundið og allt slíkt, alltaf mættur fyrstur. Karen á eftir að saknað faðmlaganna þinna og hvatningarorða þegar hún var í kvíða og klemmu í náminu sínu og auðvitað lífinu sjálfu, og það sem þú varst stoltur yfir útskrift hennar sem kennara, sem þú náðir ekki að vera viðstaddur, nema í anda. Karen og Ragnar bjuggu hjá okkur þangað til fyrir ári síðan, það er ekki sjálfgefið að sambúð 2 fullorðinna para gangi snurðulaust í lítilli íbúð, en öll eigum við góðar minningar frá þeim tíma þótt ótrúlegt sé... með eitt baðherbergi !! Dana flutti suður um það leiti sem við vorum að taka saman, en þegar hún kom heim, festi rætur með Andra sínum á Húsavik og fóru að eignast börnin sín 3, þá kom í ljós að auðvitað varð þú afi á sama hátt og þú varst pabbi, gafst þig 100% í allt með þeim, aldrei held ég að dætrum okkar og barnabörnum hafi ekki fundist þau velkomin til okkar og það er bara alls ekki sjálfgefið í blönduðum fjölskyldum.  Bjarki gat elt þig á röndum heilu dagana hér í sveitinni og þið spjölluðuð um heima og geima, og Bjarki ætlaði sko að fara í veiði með afa gat ekki beðið eftir að verða nógu stór til að fá felulitabúning svo hann gæti farið með.  Við keyptum felulitabol handa honum í Cabelas fyrir nokkrum árum og sá var sæll afi, ég get komið með þér að veiða, ég á skógarpeysu  Júlía sem alltaf gat platað afa í allt sem hana langaði að gera og fá aaafi?  já ... og já, alveg sama hvað hún bað um.  Valur litli sem vildi frekar vera í þínu stóru örmum en mínum ( ég var nú oft móðguð), hann fær því miður ekki að kynnast gæsku þinni, nema í gegnum minningar systkina sinna, sem ég veit að þau munu halda á lofti ásamt okkur fullorðna fólkinu

Elsku Rúnar, núna streyma fram minningarnar og þær eru svo góðar, það var nefnilega alltaf svo gott samband á milli okkar,við  rifumst aldrei á þessum 15 árum, auðvitað skiptumst við á skoðunum en rifumst aldrei, aðallega um Miðflokkinn síðustu ár og svo hlógum við bara, vorum sammála um að við myndum aldrei ná saman í pólitík.  En það að eiga innihaldsríkt líf með besta vini sínum þar sem við sinntum okkar áhugamálum í sátt við hvort annað og gerðum svo restina saman, það er svo mikils virði, það voru engir sparidagar þar sem við vönduðum okkur í samskiptum, hversdagsdagarnir voru allir eins, hlaðnir væntumþykju og virðingu fyrir hvort öðru. Þú gerði óspart grín af skósýkinni í mér, en það var ekki dýpra á því en að þú keypti síðustu skó sem ég eignaðist, það birtist pakki frá skor.is núna í maí, mjög vel valið hjá þér  og auðvitað í réttu númeri.  Rúnar minn var dellukall, betra að eiga en vanta var mottóið hans, ég stríddi þér auðvitað óspart á öllum græjukaupnum, því svo þegar áhugamálin liggja svona víða, þá er þetta ekki lítið magn af græjum sem ég þarf að læra á, ég þarf að taka mótorhjólapróf, því ekki fer hjólið af stað með mig bara aftaná ! skotvopnaleyfi, myndavélanámskeið, drónanámskeið, sjósetja bátinn og ræsa mótorinn og síðast en ekki síst, snjóblásarakennslu, reikna með að ég þurfi hreinlega að minnka við mig vinnu til að komast yfir þetta.

Á ekki lengri tíma en við fengum gerðum við margt sem þig hafði dreymt um, eitt það fyrsta var að fara til útlanda í fyrsta skipti og hvert lá leiðin, auðvitað í Mekka veiðimanna Cabelas, ég er í himnaríki Rannveig  fórum svo auðvitað fleiri ferðir þangað, og þú naust þeirra allra í botn, ég vona svo innilega að það sé  alvöru Cabelas í Himnaríki.

Í örmum mínum óxt þú, öðlaðist aukið sjálfstraust,  tókst fram hamarinn og smíðagræjurnar og gerðir bústaðinn okkar sem við keyptum fyrir 11 árum að okkar dásamlega hreiðri sem það er í dag.  Við erum ekkert að fara kaupa bara iðnaðarmenn, þú getur þetta alveg sjálfur, og það sem var gaman að fylgjast með þér frá því að spyrja fagmann um hvert einasta viðvik sem lá fyrir í það að labba bara keikur út, í skúrinn þinn sækja verkfæri og dunda svo með spýturnar þínar. Margir vinirnir hafa lagt hönd á plóg, þú áttir marga trausta vini sem þú sannarlega ræktaðir sambandið við, með símhringingum, og alltaf gafstu þér tíma til að  stoppa við, spjalla, knúsa fólk og fá fréttir þegar þú hittir einhvern, hvort sem það var í vinnunni, á götu eða í búð, seinnipartinn fékk ég vanalega skýrslu um hverja þú hafðir hitt og báru fyrir kveðjur til mín.  Óteljandi matarboð í Skógum á ég minningar af, þú elskaðir að bjóða fólki í mat og veita vel, það fór engin svangur frá okkur.  Í öllum undirbúningi og vinnu okkar, unnum við sem eitt, það þurfti ekki að tala, hnífurinn bara réttur á milli.  Mikið á ég eftir að sakna þín þegar ég fer heim úr Skógum, þar var bara gengið í frágang án orða, þú gerðir þitt og ég oftast mitt en mjög oft varstu búin  með mitt líka, hjartagullið mitt.

Elsku sveitastrákurinn minn, þú eyddir síðasta sólahringnum í allt sem þú lifðir fyrir, stöngin handleikin, byssan eldsnemma um morguninn niður í björgum í vargi, náðir 4 svartbökum frétti ég og fann 5 skothylki í vasanum þannig að höndin var styrk, girðingarvinna, matur hjá mömmu og Sif... og síðast en ekki síst kúrðir þú hjá mér og knúsaðir mig bless um morgun og sagðir sjáumst um hádegisbil  auðvitað fékk ég sms rétt fyrir 12 til að láta vita að þér seinkaði aðeins, ég kem á milli 2 og 3 elskan tillitsemin sem var þér í blóð borin.

Ég skil sátt við þig, hefði auðvitað viljað fá að hafa þig mörg ár í viðbót, en þér var ætlað eitthvað annað og meira. Það sem heldur í mér lífinu núna er að samband okkar var svo gott að ég á engar slæmar minningar, engin eftirsjá í neinu.  Ég elska þig  love you too love you three love you four love you more  var grínið okkar, sá sem byrjaði átti að fá love you more en hann var farin að svindla til að geta endað á love you more  og svo sannarlega sýndir þú það í verki að þú elskaðir mig út af lífinu alla daga.

Hjarta mitt er fullt af söknuði en líka ást.

Þangað til við hittumst á ný

Ps. Ég passa mömmu.


Þín Rannveig.