Steinn Jónsson
Steinn Jónsson
Eftir Stein Jónsson: "Ef aðlögun að regluverki ESB í orkumálum heldur áfram er lagning sæstrengs milli Íslands og Evrópu aðeins tæknilegt viðfangsefni."

Fyrir rúmum 10 árum samþykkti Alþingi að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Þetta var gert með atkvæðum þingmanna Samfylkingar og Vinstri-grænna og var líklega skilyrði fyrir myndun vinstristjórnar þessara flokka af hálfu Samfylkingarinnar. Þingmenn VG greiddu atkvæði með aðildarumsókn þrátt fyrir að vera yfirlýstir andstæðingar ESB-aðildar. Í umræðunni á þessum tíma var reynt að telja þjóðinni trú um að umsóknarferlið væri aðeins viðræður og síðan gæti þjóðin tekið ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Annað kom þó á daginn því ESB lítur á aðildarviðræður sem aðlögun að aðild en ekki fyrirspurn um aðild. Viðræðurnar sigldu í strand þegar átti að fara að ræða um auðlindamál og sjávarútvegsmál sem fyrirfram var vitað að yrðu erfiðustu viðfangsefnin.

Margt hefur skýrst á þeim 10 árum sem liðin eru og nú dettur fáum í hug að það geti verið skynsamlegt fyrir Ísland að gerast aðili að ESB. Fjöldamörg mál koma þar til, ekki síst hegðun sambandsins gagnvart smáríkjum og þróun evrusamstarfsins sem nú virðist vera aðalvandamálið í ESB-ríkjunum fremur en lausnin á þeim. Margt bendir til þess að ESB geti liðast í sundur vegna sívaxandi tilhneigingar til miðstýringar sem mikil andstaða er við og Brexit er gott dæmi um. Margt er líkt með eyþjóðum og sjálfstæðisvitund þeirra er sterk. Kjarninn í afstöðu andstæðinga ESB-aðildar hér á landi hefur verið sá grundvallarásetningur að við höldum forræði yfir auðlindum okkar en séum ekki háð ákvörðunum annarra þjóða. Þetta á svo sannarlega við um sjávarauðlindina sem hefur verið styrkasta undirstaða hagsældar á Íslandi.

Nú stöndum við frammi fyrir annarri ákvörðun sem snertir auðlindamálin þar sem er frekari innleiðing á reglugerðum ESB í orkumálum. Orkuauðlindin hefur vaxandi þýðingu fyrir efnahagslega framtíð Íslands. Á sama hátt og 2009 er nú reynt að gera lítið úr þeim hættum sem felast í frekari innleiðingu regluverks ESB í orkumálum á Íslandi. Sagt er að einungis muni þær taka gildi ef lagður verði sæstrengur milli Íslands og Evrópu. En það er aðeins ein leið til að vera viss um að þetta gerist ekki og það er að hafna innleiðingu 3. orkupakkans eða að minnsta kosti fresta málinu um óákveðinn tíma. Íslendingum sjálfum er best treystandi til að nýta þessa og aðrar auðlindir landsins án afskipta eða yfirráða annarra þjóða. Á sama hátt og við erum nú vitrari um Evrópusambandið 10 árum eftir hina óhyggilegu umsókn um aðild þá mun tíminn aðeins vinna með okkur í þessu máli ef við tökum ekki fljótfærnislega ákvörðun. Afstaða Norðmanna og þrýstingur frá þeim ætti ekki að ráða afstöðu okkar. Þeir eru nú þegar með sæstrengi og hafa aðra hagsmuni en við.

Allir stjórnmálaflokkar sem standa að núverandi ríkisstjórn eru andstæðingar aðildar að ESB. Þess vegna er undarlegt að þessir flokkar skuli nú vilja taka þessa áhættu. Ef aðlögun að regluverki ESB í orkumálum heldur áfram er lagning sæstrengs milli Íslands og Evrópu aðeins tæknilegt viðfangsefni. Höfum vaðið fyrir neðan okkur og höfnum þessu.

Höfundur er læknir. steinnj@lsh.is